27.03.1973
Sameinað þing: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

175. mál, endurskoðun á tryggingakerfinu

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. um endurskoðun á tryggingakerfinu. Ég flutti svipaða till. í fyrra, og henni var vísað til n., en aldrei afgreidd frá n. Þessi till. er búin að liggja alllengi án þess að komast til 1. umr., vegna þess að sá tími, sem Sþ. hefur, fer svo mikið í fsp.

Ég hef kynnt mér þessi mál töluvert mikið og komizt að þeirri niðurstöðu, að það muni óvíða vera jafnflókið tryggingakerfi og hjá okkur Íslendingum.

Till. þessi er í fjórum liðum. 1. liður hljóðar þannig:

„Afnumið sé hið tvöfalda, lögboðna örorku- og lífeyrissjóðakerfi, þannig að einn sameiginlegur lífeyrissjóður sé fyrir alla landsmenn. Miðað skal við, að upphæð fullra örorku- og lífeyrisbóta eftir 67 ára aldur geti numið allt að 2/3 af venjulegum starfslaunum, hafi bótaþegi engar aðrar tekjur, en lífeyrir sé lægri, ef um aðrar tekjur sé að ræða.

2. Tryggingakerfið sé fjármagnað annað tveggja af ríkissjóði að öllu leyti eða af ríkissjóði og iðgjöldum einstaklinga og fyrirtækja, hliðstætt því, sem er í Noregi og Svíþjóð. Verði síðari kosturinn valinn, sem hagkvæmara mun reynast, greiða atvinnurekendur ákveðna prósentu af nettótekjum, en launþegar og vinnuveitendur sameiginlega tiltekna prósentu af vinnulaunum og sé miðað við dv. og kauptryggingu sjómanna.“ Ég ætla ekki að lesa hina liðina strax, 3. og 4. lið.

Eins og hv. þm. vita, voru samþ. árið 1968 lög um lífeyrissjóð félaga í stéttarfélögum, og þá var öllum meðlimum Alþýðusambands Íslands gert að skyldu að vera meðlimir í lífeyrissjóðunum. Þetta átti að komast til fullra framkvæmda á 4 árum, þannig að 1/4 var fyrsta árið, helmingur annað árið o. s. frv. Þeir eru komnir í fullan gang núna, og það er tekið 10% af kaupi allra manna, sem eru í stéttarfélögum, og lagt í þessa sjóði. Atvinnurekendur borga 6% og launþegarnir sjálfir 4%. Þetta er ekkert annað en kaup, því að það er alveg sama fyrir atvinnurekendur, hvort þeir borga 6% til lífeyrissjóða eða hvort þeir borga launþegunum það. Ég veit ekki til, að það sé neins staðar tvöföld skyldutrygging. Svo eru náttúrlega allir í almannatryggingum.

Það fer þriðjungur af öllum ríkisútgjöldunum til tryggingamála. Núv. ríkisstj. breytti tryggingalöggjöfinni þannig, að ríkissjóður borgar allt til almannatrygginga og nær allt til sjúkrasamlaganna. Ég álít, að þarna hafi verið gerð mjög mikil vitleysa, sérstaklega viðvíkjandi sjúkrasamlögunum, vegna þess að ég er sannfærður um, að þau verða miklu dýrari, ef ríkið á að borga allt, heldur en ef tiltölulega lítil sjúkrasamlög eru heima í byggðunum, sem borga hluta af því, annaðhvort einstaklingar eða sveitarfélög. Þá er það miklu betra en ef ríkið á að borga allt saman. Það er ógerlegt að segja um, hvað þetta er miklu dýrara en ég er sannfærður um, að það verður miklu dýrara. Ég gæti vel trúað, að það verði um 50%. Ég get bent á það t. d., að á sjúkrahúsum hjá okkur úti í hinum dreifðu byggðum eru daggjöldin 1400–1500 kr., en daggjöldin á sjúkrahúsunum hér fyrir sunnan, sem ríkið rekur, nálgast víst 5000 kr. á dag, þannig að það er þrefalt dýrara. Nú má vel vera, að eðlilegt sé, að þar sé eitthvað dýrara. En ég get ekki skilið, í hverju svona mikill munur liggur og hlutirnir verða ekki ódýrari, ef ríkið á að greiða allt saman, heldur en ef eftirlitið er heima fyrir.

Ég ætla, að gert sé ráð fyrir, að til sjúkrasamlaganna fari á fjórða milljarð af þeim heildarútgjöldum, sem tryggingarnar fá, og helmingur af því mundi vera um 1700 millj. Ef þetta væri heima í byggðunum, þá væri hægt að spara um 1700 millj. fyrir ríkissjóðinn og sennilega töluvert miklu meira, vegna þess að það verður dýrara, ef ríkið borgar það allt, og á eftir að hækka að mun frá því, sem nú er gert ráð fyrir.

Nú vitum við, að allir landsmenn greiða í ríkissjóðinn, og þriðjungur af ríkisútgjöldunum fer til tryggingamála. Það er líklegt, að ríkisútgjöldin í heild verði þriðjungur af vergum tekjum þjóðarinnar, og þá er líklegt, að sá hluti, sem fer til trygginganna, sé eitthvað yfir 10% af tekjum fólksins. Svo bætast við 10% af tekjum fólksins til lífeyrissjóðanna, þannig að fólkið leggur milli 20 og 30% af vinnutekjum til tryggingamála í landinu, og þetta er hærra en gerist, að ég ætla, í nokkru öðru landi. Það eru frjálsir lífeyrissjóðir í öllum löndum og er ekkert við því að segja. En þess ber að gæta, að þar sem alltaf er verið að fella gengið eins og hér, eru lífeyrissjóðir í raun og veru óstarfhæfir. Tryggingafræðingar hafa sagt, að það sé í raun og veru ekki hægt að reka heilbrigða lífeyrissjóðsstarfsemi, þar sem alltaf er verið að breyta gengi. Ég get bent á það í því sambandi, að á 10 ára tímabili hafa þessir frjálsu lífeyrissjóðir hér á Íslandi ekkert stækkað, ef miðað er við verðgildi peninga. Þeir hafa um það bil sexfaldast að krónutölu, en verðgildið er ekkert meira en það var fyrir 10 árum, þannig að það er augljóst, að þeir verða óstarfhæfir.

Nú vitum við, að ríkisútgjöldin eru orðin bæði að mínu áliti og ýmissa annarra allt of há. Ríkisstj. er í vandræðum með að fá nóg í ríkissjóðinn, og ég ætla, að þessi 10% gengislækkun nú fyrir áramótin hafi m. a. verið gerð til þess að fá fleiri krónur í ríkissjóðinn. Við, sem vorum á þingi árið 1967, munum, að ráðh. voru mjög áhyggjufullir á svipinn, þangað til Bretar felldu gengið, því að þá ætlaði íslenzka ríkisstj. ekki að fella gengið. Þá lifnaði ákaflega mikið yfir þeim, þá gátu þeir fellt gengið og haft þá afsökun, að Bretar hefðu gert það, og felldu það miklu meira en Bretinn gerði og gátu á þann hátt fengið hátt á annan milljarð fleiri kr. í ríkissjóðinn, og það leysti vandræðin í bili. En við sjáum, að það er fráleitt, ef á að fara að lækka gengi til að fá fleiri kr. í ríkissjóðinn, þá kemur öll skriðan á eftir, a. m. k. ef vísitalan er í gangi. Þá þarf að halda áfram að fella gengið til þess að fá aftur fleiri kr. í ríkisstj., þannig að það nær engri átt.

Nú eru tvær leiðir til, til þess að afla ríkissjóði tekna. Við getum ekki hækkað innflutningsgjöldin vegna GATT-samkomulagsins, og þá er að hækka söluskatt eða tekjuskatt. Við vitum vel, að það er ekki hægt að hækka tekjuskattinn frá því, sem nú er, því að það er nú lagður tekjuskattur á nauðþurftir fólks og þar að auki er mjög fljótlega tekið um 55% af kaupi fólks. Þetta er allt of hátt fyrir fólk, sem þarf að vinna næturvinnu til að afla sér teknanna. Það leggur þetta ekki á sig, ef meiri hlutinn yrði tekinn. Í viðbót við þetta eru tekin 10% í lífeyrissjóðina, þannig að það eru í raun og veru tekin 65% af fólki. Ég álít því, að það sé nauðsyn á að lækka útgjöld ríkisins, og ég sé ekki aðra leið til að lækka þau verulega en að breyta tryggingalöggjöfinni. Það er náttúrlega hægt að lækka ýmsa smáliði, en við eigum erfitt með að skera framkvæmdir meira niður en gert er nú. Með því að endurskoða tryggingakerfið og gera það einfalt, getum við sparað verulegt fé. Ég er sannfærður um, að þegar samkomulag var um það milli þeirra Hannibals Valdimarssonar og Bjarna Benediktssonar að koma þessu lífeyrissjóðakerfi á, því að það voru þeir, sem sömdu upphaflega um þetta 3 sambandi við vinnudeilur, og svo var það samþ. hér í þinginu, og þá var litið svo 3, að þetta væri liður í samkomulaginu, sem ekki væri hægt að rifta, þá var það, sem m. a. vakti fyrir þeim, að safna fé í sjóði til þess að auka sparifé. Nú er það þannig, að formenn verkalýðsfélaganna eru á þönum að innheimta þetta, og þetta er eins flókið og vitlaust innheimtukerfi og mögulegt er að hafa það. Svo eru einhverjar stjórnir í þessum sjóðum. Ég hef spurzt fyrir um það í Seðlabankanum, hvað þessir lífeyrissjóðir mundu vera margir. Þeir héldu, að þeir væru um 27, en þeir vissu það ekki. Í rauninni veit þetta enginn maður, og þetta er að meira eða minna leyti eftirlitslaust, hvort lífeyrisgjöldin eru innheimt. Það veit í raun og veru enginn til fulls, og eftirlitið er ákaflega lítið. Ég álít, að þetta sé eins og hver önnur vitleysa. Þarna myndast nýjar lánastofnanir. Verulegur hluti af sparifénu, sem myndast í landinu, hlýtur að lenda í þessum sjóðum.

Það er talið, að aukið sparifé hafi verið 4 milljarðar s. l. ár. En ef við athugum verðgildi þessara peninga, þá hefur spariféð í raun og veru ekkert aukizt. Verðfall peninganna hefur numið allt að því þessu. En ef verðrýrnun peninganna veldur því, að það þarf á einhvern hátt að þvinga fólkið til þess að leggja til hliðar eitthvað af tekjum sínum, þá er miklu hreinlegra að fara svipaða leið og gert er nú, þegar unga fólkið er skyldað til þess að leggja 15% af kaupi sínu í skyldusparnað, að setja bara skyldusparnað á á vissum aldri. Ég legg til í 4. lið þáltill., hvort það væri þá ekki réttara að koma á skyldusparnaði á aldurstímabilinu 35–67 ára, því að það er miklu auðveldara fyrir fólk að leggja til hliðar aura á því tímabili ævinnar en á því tímabili, þegar það þarf að mynda heimili og hefur ung börn. En leiðin, sem ég aðhyllist, er sú að reyna að treysta verðgildi peninganna, hætta endurteknum gengislækkunum, þannig að fólkið fái traust á því að eiga peninga og á þann hátt aukist sparifé almennings og bankarnir verði starfhæfari en þeir eru nú.

En það er meira en að kerfið sé tvöfalt. Ég veit ekki betur en flestir atvinnurekendur verði að borga 1%, að ég ætla, í sjúkrasjóði, þannig að sjúkrasamlögin eru í raun og veru orðin þreföld. Það er í fyrsta lagi almannatryggingar, í öðru lagi lífeyrissjóðskerfið og í þriðja lagi þessir blessaðir sjóðir, sem atvinnurekendur verða að borga í. Auk þess hafa menn margföld eftirlaun í vissum tilfellum. Það er líklega til, að menn hafi fjórföld eftirlaun. Heyrt hef ég, að þau nemi töluvert á annað hundrað þús. á mánuði hjá einstaka mönnum. Við getum bara tekið þm. Þeir hafa eftirlaun sem þm., og ef þeir eru í einhverju föstu starfi, bankastjórar, sýslumenn eða hafa eitthvert fast starf, sem margir hafa, þá hafa þeir eftirlaun sem slíkir. Ef þeir eru ráðh„ þá hygg ég, að þeir hafi eftirlaun bæði sem ráðh. og þm. Svo hafa þeir eftirlaun sem aldraðir menn. Ég þekki það t. d. um sýslumanninn okkar, sem var, hann hefur a. m. k. þreföld eftirlaun og hefur aldrei haft hærri tekjur en eftir að hann hætti að starfa. Þetta er fáránlegt.

Sem sagt, tryggingakerfið er svo flókið og vitlaust og dýrt, að það tekur engu tali, og ég álít, að við höfum ekki efni á að reka svona kerfi. Svo vitum við, að ríkissjóður þarf alltaf meira og meira fé, því að nóg eru verkefnin, og það myndast deilur milli ríkisvaldsins og stjórna þessara sjóða um, hver á að hafa yfirráð yfir þessum peningum. Út af því geta orðið hinar verstu illdeilur. Ég hef heyrt, að þeir séu til með að láta af hendi rakna um 300 millj. nú úr þessu lífeyristryggingakerfi. Hvað satt er í því skal ég ekki fullyrða um. Ég veit ekki nákvæmlega og það veit víst enginn, hve mikið fé hefur komið í þessa sjóði s. l. ár. Ég gæti hugsað, að það hefði verið nálægt tveimur milljörðum.

Bændur héldu, að það væri hagkvæmt og nauðsynlegt fyrir sig að fá lífeyrissjóð, úr því að launþegarnir hefðu fengið þá, og voru samin sérstök lög um hann. Tryggingafræðingur samdi þau lög. En það var ekki þægilegt að semja lög um þetta. Það er ekkert fordæmi fyrir þessum sjóðum, og bæði lögin um lífeyrissjóði félaga í stéttarfélögum og ekki sízt um lífeyrissjóð bænda eru geysilega vitlaus lög og ómögulegt að skilja þau. Í framkv. var það þannig, að lögin voru svo vitlaus, að þeir gátu ekki framkvæmt þau. Í raun og veru er það kosturinn við lögin um lífeyrissjóð bænda, að þau eru svo vitlaus, að það er ómögulegt að framkvæma þau. Meiningin var, að 2/5 væru teknir af innleggi bóndans beint, en 3/5 átti að taka af neytendum, og kaupfélagsstjórarnir áttu að reikna þetta út. Í framkvæmd reyndist það ómögulegt s. l. ár, og féð var tekið í einu lagi af niðurgreiðslufé, sem ríkið greiddi. En þar með voru lögin brotin, því að það var tekið, — og það vissi ég raunar alltaf, að yrði gert, — af mönnum, sem voru komnir yfir 67 ára aldur og eiga þess vegna ekki að borga í lífeyrissjóðinn, og í öðru lagi af ungu fólki, sem er innan við tvítugt, þannig að lögin voru brotin.

Það urðu miklar umr. um lögin um lífeyrissjóð bænda á sínum tíma. Þá var samþ., að þau yrðu endurskoðuð, þegar 2 ár væri liðin. Það er ekki farið að framkvæma þessa endurskoðun enn. Lögin hafa þannig verið brotin.

Í viðbót við alla þessa flækju og allt þetta frumskógakerfi var ranglætið alveg stórkostlegt í öllu þessu kerfi. Það er tekið af hinum vinnandi manni frá 16 ára aldri til 67 ára aldurs. Það geta orðið 51 ár. Ef unglingurinn er í skóla, fær hann 4% endurgreidd, ef hann hefur ekki unnið í 6 mánuði, en 6% hirðir sjóðurinn, og þetta er ekkert nema réttur og sléttur þjófnaður, því að þessi 6% eru borguð vegna vinnu þessa manns. Sami leikurinn hefur verið hafður við sjómennina. Þeir hafa haft lífeyrissjóð í fleiri áratugi. Sumir hafa óskað eftir að fá þetta endurgreitt. Þá hafa þeir bara fengið 4%. Sjóðurinn hefur hirt 6% og gert það verðlaust í gegnum gengislækkanirnar. Og það, sem sjómenn hafa fengið í lífeyrisgreiðslur, hefur verið ákaflega lítið. Það var hækkað fyrir 1 eða 2 árum, en það hefur verið ákaflega lítið, sem þeir hafa fengið.

Hugmynd mín er, að það sé einfalt kerfi fyrir alla landsmenn. Ég er ekki að segja, að það eigi að vera jafnhár lífeyrir fyrir alla, og verða náttúrlega vissar reglur fyrir því. En ég vil, að kerfið sé einfalt og upphaflega vakti fyrir mér, að þetta lífeyrissjóðakerfi yrði lagt niður. Það yrðu bara almannatr. og svo frjálsir lífeyrissjóðir. En það er ekkert hægt að segja við því, ef menn vilja tryggja sig. Það er í öllum löndum og er einkamál hvers manns. En ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta muni ekki takast, og þá hef ég komizt á þá skoðun, að við ættum að taka upp svipað kerfi og Svíar og Norðmenn hafa. Hið almenna tryggingakerfi hjá okkur var svipað og hjá Dönum. Ég fékk lögin, bæði norsku lögin og dönsku lögin, og þau voru mjög svipuð. Sveitarfélagið lagði vissan hluta, einstaklingarnir vissan hluta og ríkið hluta. Út af fyrir sig var þetta ekki óskynsamlegt kerfi. En nú er bara búið að breyta þessu öllu. Nú er ríkið búið að taka þetta að sér, og þar að auki koma lífeyrissjóðirnir. Svona tryggingakerfisvitleysa þekkist hvergi í veröldinni. Og til viðbótar við þetta eru sumir í þessum frjálsu lífeyrissjóðum. Ég hef átt tal við suma þeirra, t. d. verkfræðing. Hann sagði, að iðgjöldunum væri hent til einskis, því að verðlækkun peninganna gerði það að verkum, að þetta yrði einskis virði.

Norska og sænska kerfið, eru þannig, að atvinnurekandinn borgar 8.8%, launþeginn borgar 4%, þannig að alls verða þetta 12.8%. Ef við breyttum yfir í þetta kerfi, þyrftu atvinnurekendur að fá einhvern veginn bætt rúmlega 2%. Það gætu þeir fengið með því að fella niður launaskatt og þetta 1%, sem fer til atvinnuleysistrygginga. Atvinnurekendur tryggja sjálfa sig fyrir 7.8%, og það er miklu lægra en bændur eiga að borga nú. Svo er verulegur hluti af landsmönnum, sem ekki er í þessum lífeyrissjóðum og hefur bara þetta almenna tryggingakerfi, býr við það, og þeir eru óánægðir yfir því út af fyrir sig. Ef þetta yrði gert, þá er líklegt, að það kæmu a. m. k. 3 milljarðar inn í ríkissjóðinn gegnum þetta kerfi, sennilega meira. Ég geri ráð fyrir, að núna fari í laun hjá landsmönnum 40 milljarðar — og fer hækkandi, þannig að ég hygg, að það kæmi í gegnum þetta kerfi allt að 3 milljörðum. Ef hálf sjúkrasamlögin væru færð heim í byggðirnar, mundi þetta verða nálægt 5 milljörðum. Þá gætu tryggingaframlög ríkisins lækkað sem því svarar, og það væri hægt að lækka ríkisútgjöldin um 5 milljarða. Auðvitað má lækka ýmislegt fleira. Ég skrifaði ríkisstj. bréf í vetur, þar sem ég benti á þetta og var að tala um við þá að beita sér fyrir því að breyta tryggingalöggjöfinni og lækka fjárl. sem svaraði 5 milljörðum. Það bréf var í nálægt 20 liðum, sem ég benti á, að væri hægt að lækka. Þá var ég að tala um, að tekjuskattur yrði lækkaður, hann yrði ekki hærri en 30%, þannig að fjölskyldumaður með 2–3 börn þyrfti ekki að borga tekjuskatt af fyrstu 500 þús. Ef þetta hefði komizt í framkvæmd, sem ég bjóst aldrei við, að tækist í ár vegna þess að það þarf að breyta lagakerfinu svo mikið, og það er ekki að búast við, að það takist á fáum mánuðum, þá hefði auk þess verið hægt að tryggja gengi krónunnar.

Ég held, að það gangi ekki til lengdar þetta tryggingakerfi, sem við búum nú við. Ég hef tvisvar talað um þetta í sjónvarp, og það hefur fengið góðar undirtektir. Ég get sagt ykkur, hve þetta er fáránlegt í framkvæmd. Það eru ýmsir, sem vinna 2–3 störf, og þeir þurfa að borga í sérsjóði við þau öll. Ég þekki mann norður í Húnavatnssýslu, sem vinnur við 3 störf. Hann sagðist þurfa að borga í 3 staði í lífeyrissjóð. Svo ef einhver færir sig á milli starfsgreina, þá þarf að reikna þetta nákvæmlega út, og þeir segja mér, sem við þetta fást, að það sé feiknaleg vinna að færa milli sjóðanna.

Ef við athugum, hvað þetta eru háar upphæðir, þá verða þær ævintýralegar. Ég lét reikna þetta allt saman út á sínum tíma, þegar bændasjóðurinn var á ferðinni. Þá var gert ráð fyrir, miðað við verðlag 1970, að það yrðu um 33 þús., sem hver bóndi þyrfti að greiða. Ég lét reikna það út þannig, að reiknað var með 33 þús. kr. framlagi á ári og 10% vöxtum og vaxtavöxtum, og þá voru það hjá bóndanum eftir 30 ár tæpar 6 millj., eftir 40 ár 16 millj. Það vefur þannig upp á sig, að á fjórða áratugnum allt að því þrefaldast það og á fimmta áratugnum allt að því fimmfaldast það. Nú borgar hinn opinberi starfsmaður yfirleitt ekki nema í 30 ár, og þá fær hann 65–70% af föstum launum. Það er verðtryggt, því að þegar hann hættir starfi, eru eftirlaun hans úr eftirlaunasjóði opinberra starfsmanna reiknuð þannig, að hann fær úr sjóðnum það kaup, sem var, þegar hann hætti starfi, en ef ríkissjóður hækkar kaupið, sem hann hefur gert undanfarin ár, borgar ríkissjóður mismuninn, þannig að hann fær alltaf 65% af þeim launum, sem eru við þá starfsgrein, sem hann hefur verið í, og stundum 70, hafi hann unnið lengi. Hinn óbreytti verkamaður, skulum við segja, sem er í Alþýðusambandinu, þarf að borga allt að þrisvar sinnum meira í 40 ár, ef vextir og vaxtavextir eru reiknaðir, en hinn opinberi starfsmaður, sem borgar aðeins í 30 ár. Nú eru sumir, sem verða að borga í 50 ár, og þá kastar fyrst tólfunum, því að það 4-5-faldast á fimmta áratugnum, þannig að maður, sem borgar í 50 ár, borgar, ef tekið er tillit til vaxta og vaxtavaxta 6–7 sinnum meira en sá, sem borgaði í 30 ár. Þetta hefur þeim háu herrum, sem sömdu þessi lög, alveg sézt yfir. En þetta hafa þeir athugað, sem sömdu lögin um lífeyrissjóð sjómanna, því að þar er hámarkstímabilið 30 ár, og það er allt annað. Það er allt annað fyrir mann, ef hann ætti að byrja að borga 35 ára gamall og hætta 65 ára, heldur en fara að taka af 16 ára unglingi. Þetta er hróplegt ranglæti. Í viðbót við þetta eru allir þessir sjóðir óverðtryggðir hjá alþýðu manna, en verðtryggðir hjá ríkisstarfsmanninum. Ég er ekkert á móti því, að ríkisstarfsmenn hafi sæmilegan lífeyri. En við eigum að hafa þetta einfalt kerfi og hafa sama kerfið fyrir alla landsmenn. Við eigum að búa við sömu lög. Þessar innheimtu- og útgjaldaaðferðir eru alveg fáránlegar og ætla að hafa sjúkrasamlögin, örorkubæturnar og allt þetta kerfi tvöfalt og þrefalt.

Ég sé ekki ástæðu til að halda mjög langa ræðu í þetta skipti. Þetta er allt ítarlega tekið fram í grg. Þeir, sem hafa áhuga á málinu, geta lesið grg. Ég hef ekki unnið þetta verk af því, að ég byggist endilega við, að það kæmist í gegn, meðan ég væri á þingi. En þeir, sem síðar taka við, geta þá lesið þetta, ef þeir vilja, og haft gagn af þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér. Ég er sannfærður um, að þessu kerfi verður breytt. Það er allt of vitlaust til þess, að það geti verið varanlegt.

Ef við gerum ráð fyrir heilbrigðri peningastarfsemi í þessu landi, sem kannske er vonlítið að verði, getum við ímyndað okkur, hvers konar ægilegar fjárfúlgur þetta verða. Það á ekkert að taka úr þessum sjóðum í 12 ár. Ef við reiknum með, að það verði 3 milljarðar, sem koma í þá á ári, sem ég get búizt við að verði, þá eru það 36 milljarðar. Svo koma vextir og vaxtavextir. Peningarnir verða vitanlega lánaðir út, ég býst ekki við, að það verði 10%, þannig að það er ekki hægt að miða við það, sem ég lét reikna út viðvíkjandi lífeyrissjóðnum. En þetta hljóta þó að verða 60–70 milljarðar eftir 12 ár, þó að við gerum ráð fyrir, að verðgildi peninga breytist ekki frá því, sem nú er, og kaup haldist eitthvað svipað. Það verða náttúrlega fleiri krónur, ef krónan lækkar. Og þá er þarna kominn verulegur hluti af eignum allra landsmanna. Svo sannið þið til, að það verður hörkurifrildi um það, hverjir eigi að ráða yfir þessu fjármagni. Þetta verður tiltölulega meira auðvald en kaþólska kirkjan var á sínum tíma, og var hún þó fullerfið. Og svo eiga menn að strita við að borga vexti af eigin peningum. Nú er ekki nokkur vissa fyrir, á hvern hátt því fé verður varið, sem þessir blessaðir lífeyrissjóðir hafa með að gera. Það getur verið, að því verði varið meira og minna í vitleysu og verði meiri og minni misnotkun á því, þannig að þetta er fáránlegt. Og þeir, sem hafa komið þessu kerfi á, hafa alls ekki athugað, hvað þeir voru að gera.

Ég legg til, að þáltill. verði vísað til atvmn., því að ég álít, að þetta snerti atvinnulífið svo mikið. Þetta er einn liður í því sjóðakerfi, sem búið er að blaða á atvinnulífið í landinu. Ég hef fengið upplýsingar um það hjá iðnrekendum og fleirum, að af hverjum 100 kr., sem þeir borga í kaup, þurfa þeir að borga um 42 kr. í ýmiss konar sjóði og aukagjöld, fyrir utan greiðslur til sveitarfélaga og ríkis. Þegar það bætist við, verða það a. m. k. 50%, þannig að 50% af því, sem atvinnurekendur borga í kaup, fer í alls konar útgjöld. Og þið getið nærri, ef eitthvað væri létt á atvinnuvegunum með þessi útgjöld, hvort það væri ekki annað tveggja hægt að borga hærra kaup eða atvinnuvegirnir hefðu betri fjárhag. Það er tími til kominn að atbuga þá hlið málsins líka.