27.03.1973
Sameinað þing: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

65. mál, vegagerð yfir Sprengisand

Björn Pálsson:

Herra forseti. Mér skilst, að þarna sé um vegagerð að ræða yfir Sprengisand, rannsókn á vegagerð, en nú er verið að tala um að leggja rafmagnsstreng norður, flytja rafmagn að sunnan og norður. Það er ekki alveg afráðið, hvort það er Kjölur eða Sprengisandur, sem farinn verður, en ef lína verður lögð norður, þá erum við tilneyddir að leggja veg meðfram línunni og það fullkominn veg. (Gripið fram í.) Þeir hljóta að leggja veg, ef þeir leggja línu. Það þarf að gera við línuna stundum og leggja línuna, þannig að það er óhjákvæmilegt að leggja veg, þar sem línan verður lögð, hvort sem það er heldur á Kili eða Sprengisandi, og það eru öllu meiri líkur fyrir því síðara. Mér finnst, að það sé eðlilegast, að beðið sé eftir því, hvor leiðin verði farin. Þá leysist þetta mál af sjálfu sér.

Auðvitað vilja allir fá sem beztan veg yfir fjöllin til að stytta leið og skemmta sér, en það kostar allt peninga, Ég hef engan sérstakan áhuga á því, að þessi till. fari í gegn. Ég álít, að það sé eðlilegast, að fyrst verði athugað, hvor leiðin verði farin, ef um það verður að ræða að leggja línu norður, og þá leysist málið. Ef hún er lögð um Sprengisand, verður lagður vegur á Sprengisandi. En ég er ekki í vafa um það, að fólkið vill helzt fá vegi alls staðar og alls staðar sem bezta vegi. Það bara kostar peninga, og þeir eru ekki fyrir hendi kannske, þeir peningar. En fari svo, að Sprengisandsleiðin verði valin sem leið fyrir raflínuna, verður vegurinn lagður, hvað sem hann kostar. Það er óhjákvæmilegt.