27.03.1973
Sameinað þing: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2822 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

187. mál, rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 346 till. til þál. um rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta. Þessi till. er flutt af gefnu tilefni og reyndar fleiri tilefnum en einu. Ég held mér sé óhætt að segja, að á yfirstandandi vetri og reyndar fyrra ári líka, hafi orðið hér fleiri sjóslys en í langan tíma áður. Þegar verið var að afhenda þessa þáltill. til prentunar í skrifstofu Alþ. með þeim orðum, sem má sjá í grg. um tölu þeirra íslenzku sjómanna, sem hafa látið líf sitt í starfi í jan. og febr., þá var einmitt eitt skipið til viðbótar að farast hér við vesturströnd landsins og með því tveir menn. Þetta eru ekki einu slysin. Við höfum fengið fréttir í dag af hryllilegu flugslysi, og má reyndar segja, að það sé einstakt, að slíkt geti safnazt að okkur Íslendingum, þegar við höfum í huga, að þrátt fyrir gífurlegt efnahagstjón, sem þjóðin öll og sérstaklega Vestmanneyingar hafa orðið fyrir vegna gossins þar, þá skyldi vera hægt að flytja nær alla íbúa Vestmannaeyja til lands á mjög skömmum tíma án þess að nokkur slys yrðu.

Oftar en einu sinni og yfirleitt á hverju einasta þingi, síðan ég kom hingað, hafa komið fram mál, sem varða bæði tryggingar og öryggismál sjómanna, þ. á m. mörg góð mál, og yfirleitt má segja, að hv. Alþ. hafi tekið vel í þær till., sem fram hafa komið um þessi efni. Það hefur hins vegar komið fram gagnrýni frá eigendum skipa, útgerðarmönnum, vegna mikils kostnaðar, sem þessu hefur fylgt. Svo eru aðrir, sem hafa ekki kvartað, en hafa hins vegar gangið á undan með góðu fordæmi og jafnvel verið framar áhugamönnum í þessum málum og betrumbætt skip sín og búnað á þessu sviði, þannig að til fyrirmyndar er. Hins vegar er því ekki að leyna, að það eru ýmsir baggar, bæði á þessu sviði og öðrum, sem þeim eru bundnir.

Ég tók það fram um daginn í umr., sem hér urðu í sambandi við fsp., að ég hefði áður mælt með þeirri leið, að í sambandi við öryggi þessarar stéttar, sem staðreynd er, að skilar ákveðnum hluta sínum í hafið, sé greiddur af almannafé kostnaður, sem fylgir því að halda uppi öryggi af því bezta tagi, sem þekkist í heiminum.

Við höfum fengið ábendingu nú í heimsfréttunum í sambandi við þessa till., en það er í sambandi við slys, sem varð undan austurströnd Bandaríkjanna nú fyrir nokkrum dögum. Eftir nær 4 sólarhringa kom í ljós, að einn sjómaður komst lífs af og hafði þó verið á lestarhlera allan þann tíma, ofurseldur stórviðri, sjóum og vindum. En talið er eftir fréttum þessum, að hann muni ná fullkominni heilsu að nýju. Að vísu eru töluvert önnur skilyrði, þar sem umrætt norskt skip fórst, heldur en hér við Ísland. Það mun hafa gerzt þar, sem Golfstraumurinn er hvað sterkastur. Sjór er það heitur, en hins vegar er loft þar mjög kalt um þetta leyti. Það er margt, sem læra má af því slysi t. d. fyrir þá aðila, sem hér er lagt til, að rannsaki rek gúmbjörgunarbáta o. fl. við Ísland. Það er sjálfsagt fyrir þá aðila að kynna sér þær staðreyndir, sem þar komu í ljós, og hina umfangsmiklu leit, sem fór fram í sambandi við það slys.

Ég tók það fram, að þessi till. hefði verið flutt sérstaklega í tilefni þess slyss, þegar vélskipið Sjöstjarnan fórst, og þá umfangsmiklu leit, sem þá átti sér stað með innlendum og erlendum skipum og flugvélum. Það kom þá í ljós, að jafnvel þeir, sem fróðastir eru um þessi mál, telja sjálfir, að það sé ábótavant um þá vitneskju, sem þurfi að vera fyrir hendi, þegar til slíkrar leitar er gengið. Þeir vita ekki með fullri vissu, hvaða áhrif vindar og straumar hafa á rek gúmbjörgunarbáta, auk þess sem þetta eru óþekkt öfl að miklu leyti, þegar kemur að því að reikna þau út. Þá má segja, að niðurstöður breytist bæði með stærð björgunarbátanna og eins með þyngd þeirra eða lestun. Að vísu er skylt að taka það fram, að á síðustu árum hefur Hafrannsóknastofnunin miðlað íslenzkum sjófarendum mikilli þekkingu um strauma hér við land, hraða þeirra, stefnu og styrkleika. En samt vantar mikið á, að nægilegt sé fyrir skipstjórnarmenn hér við land. Það, sem vantar á í sambandi við þetta, er um áhrif vinda og hafróts og hvernig þessi öfl vinna saman, þegar slíkt farartæki, ef svo mætti orða það, þegar slíkur björgunarbátur er á reki við þær aðstæður. Það er þetta, sem ég er að leggja til, að verði kannað hér við land. Það hefur líka verið kannað og er hægt að kanna það, hvaða áhrif kuldi hefur á menn í slíkum bátum að vetrarlagi. Það var stórt átak gert í sínum tíma, þegar konur í björgunarsveitum víðsvegar um land, sérstaklega í sjávarplássum, tóku sig til og bjuggu þessa gúmbjörgunarbáta með íslenzkum ullarfatnaði og öðru, sem mátti verða til þess að bjarga frá þeim hræðilega kulda, sem hlýtur að hrjá menn, ef þeir komast í björgunarbátana, þegar sjór er kannske við frostmark eða undir frostmarki og lofthitinn langt undir frostmarki, auk hafróts.

Því verður ekki á móti mælt, að gúmbjörgunarbátarnir eru eitt þarfasta björgunartæki, sem hefur verið tekið í notkun á íslenzkum skipum, og hafa þegar bjargað fjölda mannslífa. En það hlýtur auðvitað að verða — eins og hefur verið gert hingað til og það hefur vissulega verið gert af innlendum aðilum — að betrumbæta þá og laga að íslenzkum aðstæðum. Það hefur verið gert í góðri samvinnu við innflytjendur þeirra. Þeir hafa verið styrktir, það hafa verið settar á þá taugar, þannig að það hefur verið hægt að binda þá við skipshlið, svo að þeir slitnuðu ekki frá í sjávarróti, og jafnvel hefði mátt hugsa sér, að það hefði mátt tengja þá saman, þó með gát, ef á hefði þurft á að halda, ef um fleiri en einn þát er verið að ræða.

En það er samdóma álit þeirra, sem að slysavarnamálum vinna hér við land, að það þurfi að halda áfram þessari endurskoðun með frekara öryggi sjófarenda í huga. Það, sem kemur fyrst upp í hug þeirra, sem hafa mælzt til þess, að áfram verði haldið á þeirri braut, eru erfiðleikarnir á því að finna þessa báta, þegar hafrót er. Það hefur ekki tekizt enn þá að yfirvinna vandamálið um að koma fyrir á þeim ratsjárendurskinsmerki svokölluðu, sem gerir skipum, sem þannig eru búin, kleift að sjá bátana á haffletinum. Það hafa ýmsar till. komið upp um þetta, en þær hafa ekki komizt í framkvæmd og reyndar engar tilraunir farið fram, eins og t. d. að búa bátana sjálfa eða þak þeirra með slíku endurskinsmerki, þannig að það verði alltaf til staðar, um leið og þak þeirra og þeir sjálfir blásast upp.

Þá er auðvitað sjálfsagt, að huga að radíótækjum. Það er nokkuð langt síðan nokkrir útgerðarmenn og skipstjórar tóku það upp að vera með hreyfanlega neyðartalstöð í skipum sínum, og var það reyndar í reglugerð um hin stærri skip um langt árabil. Það kom fram hér á þinginu nú fyrir skömmu í framhaldi af þáltill., sem samþ. var í fyrra, um, að bátarnir skyldu útbúnir með mjög handhæg neyðarsenditæki, sjálfvirk, sem taka ætti með, þegar farið væri í björgunarbátana, að bátarnir hefðu ekki enn verið búnir þessu tæki vegna kostnaðar. Þessi tæki eru þannig, að það þarf enga kunnáttumenn til, það þarf ekki annað en að draga út loftnet þessara stöðva, til þess að þær fari í gang og hefji útsendingar á neyðarbylgju. En því miður er oft svo um þessi tæki og öryggisbúnað skipanna, að hann kemur alls ekki að notum vegna kunnáttuleysis þeirra, sem um borð eru, og er enginn vafi á því, að undanþágufarganið á fiskiskipaflotanum á stóran þátt í því.

Hinu er auðvitað ekki að leyna, að þetta leysir ekki allan vanda. Svo getur staðið á, ef slys verður um borð í skipi, að þar sem þessari talstöð er komið fyrir, sé útilokað fyrir áhöfnina að ná til hennar og taka hana með sér, auk þess sem menn geta þurft að hugsa um annað en að brjóta sér kannske leið aftur í brú eða stýrishús báts til þess að ná í hana, ef eldur geisar, eða þá að hún sé hreinlega farin fyrir borð, ef brotsjór hefur tekið yfirbyggingu burt.

Menn, sem ég hef rætt við, hafa hins vegar fest huga við þá till., að hægt verði að koma fyrir í bátunum sjálfvirkum radíósísendi, sem fari í gang, um leið og báturinn fyllist af lofti eða blæs út. Þetta mundi vera byggt á sama fyrirkomulagi og sjódælur, sem eru í þessum bátum og fara í gang, ef sjór hefur komizt í bátana, þegar þeir blásast út. Ég hef þá trú, að ef ekki verður lagt í að útbúa flotann með fyrrnefndu talstöðvunum, komi þessar síðarnefndu stöðvar að gagni innan 50–80 mílna. Þessar stöðvar yrðu stöðugt í bátunum og væru aldrei teknar úr þeim, en yrðu skoðarar árlega eins og önnur björgunartæki skipsins.

Þá er auðvitað fleira, sem gæti komið til greina að útbúa þessa báta með. Ef menn eru slasaðir í þeim eða illa farnir og hrjáðir, þá gætu bátarnir verið á hvolfi langtímum saman. Það vantar á bátana, bæði á botn þeirra og að ég held á þak flestra þeirra, sjálflýsandi gjarðir eða merki, þannig að ef skip er í sjónmáli, þá sjáist þeir í myrkri. Þessi atriði og mörg önnur koma auðvitað til álita hjá þeim mönnum, sem mundu að þessu vinna, ef till. þessi verður samþ.

Till. mín er á þá leið, að ríkisstj. verði falið að láta fara fram hið fyrsta ítarlegar rannsóknir á reki gúmbjörgunarbáta við mismunandi veðurskilyrði á hafinu umhverfis Ísland, enn fremur á búnaði bátanna þ. á m. radíósenditækjum, sem staðsett væru í þeim. Og í niðurlagi tillgr. legg ég til, að það sé sjóslysanefnd, sem hafi forgöngu urri rannsókn þessa, en kostnaður allur greiðist úr ríkissjóði. Að sjóslysanefnd standa allir þeir aðilar, sem að okkar fiskiflota standa, að ég tel. Þar eiga aðild bæði útgerðarmenn og sjómenn, bæði yfir- og undirmenn. Siglingamálastofnunin og Slysavarnafélag Íslands. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að það sé fullt traust borið til allra aðila, sem við n. starfa. Alla vega hef ég ekki heyrt það gagnrýnt að þessum aðila væri falið þetta.

Ég tel eðlilegt, eins og forseti á sínum tíma lagði til, að um málið verði tvær umr., því að það er í niðurlagi tillgr. lagt til, að allur kostnaður greiðist úr ríkissjóði, ef þetta verður samþ. Og það er kannske meginmál greinarinnar að fá fé til að standa undir þessum tilraunum. Ég hins vegar bið hv. þm. að óttast ekki mjög kostnaðinn. Ríkissjóður á stóran skipaflota, sem getur einmitt hjálpað til við slíkar rannsóknir, bæði hafrannsóknaskip og landhelgisgæzluskip, og ég veit, að einstök útgerðarfyrirtæki í eigu einstaklinga og annarra mundu verða fús til að leggja hönd á plóginn, ef það mætti eitthvað verða til þess að betrumbæta öryggismál sjómanna, sem hljóta alltaf að vera í deiglunni, og þó kannske aldrei frekar en á vetri eins þessum, þegar við litum á þann mannskaða, sem orðið hefur.