28.03.1973
Efri deild: 79. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2829 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

94. mál, orkulög

Frsm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til athugunar frv. til l um breyt. á orkul., 94. mál þessarar d., og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með nokkurri breytingu, eins og fram kemur á þskj. 410.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er nú í framkvæmd þriggja ára áætlun um rafvæðingu dreifbýlisins, þ. e. a. s. um samveitu til þeirra býla sem ætla má, að unnt sé að veita raforku með slíkum hætti. Er talið, að þegar þessu verði lokið, muni um það bil 150 býli verða utan samveitna, en þó er lögð áherzla á, að þetta verði stöðugt í endurskoðun, og vonir við það bundnar, að takast megi að koma samveitu til nokkru fleiri býla en þessi tala gefur til kynna.

Rétt þykir að aðstoða þá bændur, sem ekki munu eiga kost á samveitu, nokkru betur en gert hefur verið. Í 71. gr. núgildandi orkul. er heimilað í 3. tölul. þeirrar gr., með leyfi forseta, „að veita einstökum bændum, sem svo eru í sveit settir sem um getur í tölul. 2, lán til að koma upp mótorrafstöðvum á heimilum sínum, að upphæð allt að 4/5 stofnkostnaða rafstöðvarinnar: Þessi lán, sem hafa verið nefnd mótorrafstöðvalán, hafa numið allt að þessum 4/5, en venjulega verið nokkru lægri.

Árið 1969 voru lán ákveðin til slíkra framkvæmda fyrir 4 kw. rafstöð 70 þús. kr., 88 þús. kr. fyrir 6 kw. rafstöð og 150 þús. kr. fyrir 11–12 kw. rafstöð, og munu þessi lán þá hafa numið mjög nálægt 80% af stofnkostnaði nýrra rafstöðva. Síðan hafa orðið miklar verðhækkanir, þannig að 3–4 kw. rafstöðvar voru s. l haust taldar kosta 130–150 þús. kr., og samsvarandi hækkanir höfðu orðið á stærri rafstöðvum. Auk þessa féll á bændur flutningskostnaður og niðursetning, sem er áætlað um — 10 þús. kr., en þar á móti hafa þeir fengið endurgreiðslu á tolli rafstöðva, sem hefur numið í svipaðri upphæð.

Rétt er að geta þess, að þessi mótorrafstöðvalán hafa orðið færri með hverju ári. Árið 1966 n var veitt 191 slíkt lán, samtals að upphæð 10.2 g millj. kr., árið 1967 68 slík lán, árið 1968 81, árið 1969 38, árið 1970 33 og 1971 25 slík lán, og er áætlað, að á árinu 1972 verði samtals veittar um 1.5–2 millj. kr. til slíkra lána, og er þar enn veruleg fækkun frá árinu á undan.

Þetta er að sjálfsögðu skiljanleg þróun með fjölgun þeirra býla, sem njóta raforku frá samveitum.

Með þessu frv. er, eins og ég sagði áðan, að því stefnt að veita þeim bændum, sem eiga ekki kost á raforku frá samveitum, meira lán, þ. e. a. s. allt að kostnaðarverði rafstöðvarinnar.

N. sendi málið til umsagnar allvíða og fékk svör, sem ég ætla aðeins að hlaupa í gegnum. Búnaðarfélag Íslands mælir með samþykkt frv. óbreytts, en bendir síðan á ýmislegt í sambandi við rafvæðingu dreifbýlisins almennt og leggur m. a. sérstaka áherzlu á, að leitazt verði við að fjölga þeim býlum, sem raforku fái frá samveitum, jafnvel umfram það, sem nú er gert ráð fyrir í áætlun.

Samband ísl. rafveitna mælir einnig með samþykkt frv. óbreytts.

Stéttarsamband bænda mælir með samþykkt frv. óbreytts, en leggur áherzlu á, að býlum með raforku frá samveitum verði fjölgað eins og frekast er kostur.

Samband ísl. sveitarfélaga mælir einnig með frv., en leggur til, að lánin verði vaxtalaus. N. taldi ekki fært að mæla með því, að lánin yrðu vaxtalaus. Það er stefna, sem er að dómi n. dálítið varhugaverð, þó að n. hafi fullan skilning á þeirri þörf, sem kemur fram í þeirri till. að gera bændum þetta sem auðveldast. á Virtist n., að það væri heilbrigðari stefna, að af þessum lánum væru greiddir vextir.

Þá vil ég geta þess, að á fund n. komu Páll Hafstað, starfsmaður Orkusjóðs, og sá, sem er manna kunnugastur framkvæmd þessara laga.

Var sérstaklega rætt við Pál Hafstað um vatnsaflsrafstöðvalán, sem n. taldi ástæðu til að kanna, hvort ekki bæri að gera nokkru hagkvæmari en nú er. Í 71. gr, núgildandi laga, 2. tölul., er heimilað að lána bændum allt að 2/3 stofnkostnaðar vatnsvirkjana og línulagna heim að bæjarvegg. Að undangengnum allítarlegum umr. um þetta komst n. að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að auka þessi lán einnig nokkuð, og gerir því að brtt. sinni á þskj. 410, að í 2/3 stað 3/4 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjana komi 3/4 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjana, þ. e. a. s. heimildin er hækkuð úr 2/3 í ¾.

Um það var töluvert rætt, hvort þarna ætti á jafnvel einnig að fara upp í allan kostnað vatnsaflsstöðva, en það taldi n. þó að athuguðu máli ekki eðlilegt. Við slíkar virkjanir er yfirleitt um að ræða töluverða eigin vinnu þess, sem virkja, og getur hann iðulega þannig sparað sér verulega útlagt fé. Einnig ber að athuga, að vatnsaflsstöðvar eru oft nokkru stærri en þörf er fyrir einstök býli, og þarf þar að hafa nokkra gát á, sérstaklega ef um 100% lán væri að ræða til slíkra framkvæmda. Að sjálfsögðu hljóta slíkar stöðvar að vera háðar samþykki Orkusjóðs.

Að lokum vil ég geta þess, að mér hefur borizt, eftir að n. lauk sínum störfum, ábending frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga í bréfi, dags. 22. marz 1973. Þar er lagt til, að aftan við 1. gr. bætist: „Stöðvarhúsa og nauðsynlegra línulagna milli bæjarhúsa. Lánið er vaxtalaust og greiðist með jöfnum afborgunum á 10 árum.“ Þ. e. a. s. Fjórðungssambandið leggur til, að einnig verði lánað til byggingar stöðvarhússins og nauðsynlegra línulagna milli bæjarhúsa, auk þess sem lánið verði vaxtalaust, en um það hef ég fjallað áður.

Um fyrra atriðið, sem kemur fram í bréfi þessu, er það að segja, að það er talið eðlilegt, þannig að bændum verði gert kleift að staðsetja stöðvarnar nokkru fjær íbúðarhúsum, bæði vegna brunavarna o. fl. Mér sýnist hér vera um atriði að ræða, sem sjálfsagt er að skoða, og mun ég reyna að fá það athugað af iðnn. fyrir 3. umr. þessa máls.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég get aðeins getið þess í sambandi við vatnsaflsrafstöðvar til frekari upplýsinga, að slík lán eru mjög miklu færri en til mótorrafstöðva. Þau voru árið 1966 5 og sama 1967 og 1968, 1969 6 og hefur síðan fækkað á árunum 1970 og 1971 niður í 3, þannig að þar er ekki um stórmál að ræða. Staðreyndin mun vera sú samkv. þeim upplýsingum, sem n. fékk, að hagkvæmar virkjanir af þessu tagi eru víðast þegar nýttar og því vafasamt, að um mörg slík lán verði að ræða. Hins vegar virðist n. sjálfsagt, eins og gert er ráð fyrir með þeirri brtt., sem n. leggur til, að stuðlað verði að því, að slíkir möguleikar séu skoðaðir til hins ítrasta.