31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

268. mál, eiturlyfjamál

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við hlið áfengisvandamálsins hefur eiturlyfjavandamálið orðið æ erfiðara viðfangs á undanförnum árum. Spurningin er, hvort nægilega margir menn á vegum lögreglunnar eða annars aðila hafi fengið tækifæri til að starfa að þessum málum og verða til þeirrar hjálpar, sem brýn nauðsyn er á. Þá veit ég, að meðal þeirra, sem um þessi mál fjalla, hefur verið sýndur áhugi á því að fá fræðslu um áhrif eiturlyfja á fólk og rétt viðbrögð við fólki undir áhrifum þeirra, vegna þess að oft reynist örðugt að greina á milli áfengisáhrifa og eiturlyfjaáhrifa og viss sérþekking er nauðsynleg til þess að geta brugðizt rétt við þeim vanda, sem í því hlýtur að felast að fást við eiturlyfjasjúkling. Þessi spurning er einungis fram borin til þess að fá upplýst, hvort hér er þörf á meiri aðgerðum en nú eiga sér stað.