28.03.1973
Neðri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

188. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 5 öðrum hv. þm. að flytja frv. um breyt. á lögum um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Höfuðefni frv. er, að 9 mánuði ársins verði takmörkuðum skipafjölda leyft að veiða á takmörkuðum svæðum í Faxaflóa með botnvörpu eða dragnót, enn fremur að alfriða svæði, sem afmarkast af línu, sem dregin er frá Snæfellsnesi og í átt að Akranesi, og kemur fram í frv., að þetta svæði verði alfriðað.

Með flutningi þessa frv. hyggjumst við flm. reyna að leysa tvö vandamál eða a. m. k. að koma nokkuð á móti þeim vandamálum, þ. e. annars vegar að bæta nokkuð úr því óréttlæti, sem smáútgerðarmenn urðu fyrir hér í Rvík vorið 1971, þegar Faxaflóa var algerlega lokað fyrir umræddum veiðum, og hins vegar að koma nokkuð á móti því vandamáli, sem er hér á þéttbýlissvæðinu við innanverðan Faxaflóa í sambandi við neyzlufisk, en það er eins með neyzlu á fiski og neyzlu á landbúnaðarvörum, að á þessu svæði er einn stærsti markaður þjóðarinnar fyrir þessar vörur.

Áður en ég rek nokkuð mál þetta, vil ég draga fram eina staðreynd. Hún er sú, að fyrir nokkru voru þm. Reykv. kallaðir á fund svokallaðrar landhelgisnefndar, sem vinnur að því á vegum Alþingis að gera tillögur um nýtingu fiskveiðilögsögunnar. Það kom skýrt í ljós, að n. hefur hugsað sér, a. m. k. í þeim hugmyndum að tillögum, sem menn höfðu þá fyrir framan sig, að hafa í huga friðunarsjónarmiðið fyrst og fremst í sambandi við Faxaflóann, en hins vegar voru gagnvart öllum öðrum landshlutum tekin fyrst og fremst til greina hagsmunasjónarmið íbúanna þar.

Ég skal koma síðar að ýmsum fullyrðingum, sem þegar hafa komið fram vegna flutnings þessa frv., sérstaklega um skaðsemi ákveðinna veiðarfæra. Um leið er rétt að benda á, að það hefur ekki verið dregið neitt fram um gagnsemi eða hagkvæmni ákveðinna veiðarfæra á móti öðrum, og að sjálfsögðu hefur enginn, sem um þetta mál hefur ritað, enn þá haft að leiðarljósi, að við eigum auðvitað að nýta okkar fiskveiðilögsögu á sem hagkvæmastan hátt og þó, eins og ég skal fyrstur verða til að taka undir, án þess að valda skaða á okkar fiskstofnum.

Ástæðan til þess, að þetta frv. var flutt, er, eins og ég hef tekið lauslega fram sú, að gífurlega miklar kvartanir komu fram á s. l. ári, allt frá miðju sumri og nú fram yfir áramót, eða þangað til fór að fiskast á vertíðinni, — miklar kvartanir frá neytendum á þéttbýlissvæðinu við innanverðan Faxaflóa og reyndar þótt lengra sé leitað, því að það má fullyrða, að þessari vöru er dreift héðan austur um sveitir. Og við, sem ræddum þetta, töldum, að með því að opna Faxaflóa aftur fyrir botnvörpu og dragnót að mjög takmörkuðu leyti mundi vera komið nokkuð á móti þessum vanda. Ég minntist á það áðan, að við vildum líka með flutningi frv. koma nokkuð á móti fiskimönnum og útgerðarmönnum, sem urðu fyrir gífurlega miklu tjóni, þegar lögin um lokun Faxaflóa voru samþ. 1971, og bæði ég og aðrir höfum talið, að það samkomulag, sem hafði verið gert 1969 um skiptingu fiskveiðilögsögunnar og nýtingu hennar fyrir einstök ákveðin veiðarfæri, hefði jafnvel verið svikið.

Á margan hátt er skiljanleg afstaða þm. þetta vor í sambandi við þetta mál. Það fór mikill friðunareldur um brjóst þm. í sambandi við landhelgina, og hver af öðrum stóð upp og kepptist við að fullvissa kjósendur sína um það, að enginn kæmist í námunda við hann í sambandi við friðunaraðgerðir og friðunarvilja, og þess urðu þeir að gjalda, fiskimenn við innanverðan Faxaflóa, sem hafa stundað veiðar í flóanum með þessum veiðarfærum um langt árabil, þótt nokkur stöðvun hafi þar komið á í nokkur ár. Ég hef leyft mér að halda því fram, að það hafi verið beitt ákaflega miklum blekkingum í sambandi við að koma þessu máli fram hér á sínum tíma. Og þessu héldu fiskimennirnir líka fram. Því var t. d. haldið fram í grg. frv., er það var flutt hér á þinginu 1970–1971, að þeir bátar, sem notuðu þessi veiðarfæri, öfluðu svo mikillar smáýsu, að við lægi algerri eyðingu ýsustofnsins við landið, eins og sagt var. Til þess að styðja þessa röksemd var vitnað til svokallaðrar athugunar, sem útvegsmenn á Akranesi höfðu látið fara fram um þetta efni og var talin sanna þetta atriði. Að sjálfsögðu er það ekki eina fullyrðingin, sem hefur komið fram um þetta mál og á þennan veg. Svipað hefur komið víðar fram. Þessar fullyrðingar og aðrar sköpuðu auðvitað umr. um þetta mál á meðal almennings og þeirra, sem vit höfðu á, og það urðu margir til að benda á þá almennu skoðun, sem hefur verið ríkjandi hjá flestum vísindamönnum á þessu sviði, og skoðun sjómanna, allmargra og allflestra, að bæði ýsuaflinn og þorskaflinn ráðist meira af náttúrlegum orsökum, t. d. því, hvernig klak fisktegundanna heppnist vegna líffræðilegra skilyrða í hafinu, heldur en af því, hvort tiltölulega fáum skipum væri heimiluð veiði á takmörkuðum svæðum, sem eru ekki bara uppeldisstöðvar. En sá misskilningur virðist mjög ríkjandi um Faxaflóa, að hann sé eingöngu uppeldisstöð fyrir ungfisk eða smáfisk. Þetta er mikill misskilningur. Um Faxaflóa fer einmitt mikið magn af göngufiski, fullþroska fiski. Og það er vitað, að með þeim skipaflota, sem kæmi til með að veiða hér í Faxaflóanum, að ég tali ekki um, ef þetta frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem það er flutt núna, þar sem gert er ráð fyrir takmörkuðum fjölda báta við þessar veiðar, þá er þessi hætta alls ekki fyrir hendi og aðeins um sáralítið prósentubrot að ræða miðað við allan ársstofn þorsks eða ýsu. Einmitt með þessar staðreyndir í huga voru vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar á sínum tíma mjög andvígir þessari einstrengingslegu lokun, sem samþ. var með lögum frá 1971. Við erum hins vegar, eins og kemur fram í grg. okkar, allir sammála um það, flm. frv., að hafa eigi fulla gát á öllum veiðum, sem fara fram hér í Faxaflóa eins og annars staðar við landið og það eigi að fyrirbyggja ofveiði, dráp seiða og smáfisks, ef hjá því verður komizt. Hins vegar hefur oft verið bent á það, að af allri þeirri mergð, sem í hafinu er, er það oftast nær sáralítill hluti, sem verður fyrir tjóni eða eyðileggst vegna slíkra veiða. Hins vegar held ég, að það sé frekar almennt viðurkennt, að það sé sóknarþunginn, sem frekar hafi þarna áhrif á móti hinum náttúrlegu orsökum.

Þegar þetta bann kom fram, reyndu þeir fiskimenn, sem ég hef vitnað til, að fá þetta lagfært næsta haust, en þá, eins og hv. þm. muna, hafi Landhelgisnefnd, sem ég minntist á hér áðan og starfar á vegum þingsins og er skipuð þm., tekið til starfa að nýju til þess m. a. að gera till. um skiptingu fiskveiðilögsögunnar eftir útfærsluna haustið 1971, og reyndar voru þeir búnir að koma áður fram með sínar till. Þeir bentu á, að fyrir þessa lokun hefðu verið um 30 bátar úr Reykjavík, sem hefðu stundað togveiðar, og voru allir undir þessu stærðarmarki, sem þeir lögðu þá til, að fengi að njóta slíkra réttinda, eða 70 brúttórúmlestum. Og það er auðvitað öllum ljóst, sem horfa til slíkra skipa í dag, að þessi skip hafa ekki sóknarþunga til annars en að stunda veiðar á grunnsævi. Þeim var líka ljóst, að þeim voru torveldaðar svo mjög veiðar frá Reykjavík, að þeir urðu annaðhvort að selja báta sína eða þá að flytja sig um set og landa afla sínum í öðrum höfnum. Ekki hefur það batnað fyrir þá, ef þeir vildu láta keyra aflann til sinnar heimahafnar, Reykjavíkur t. d. eða Hafnarfjarðar, við það bann, sem komið er frá samgrn. um það, að jafnframt því sem þeim sé bannað að veiða, eins og lögin segja, á sínum hefðbundnu heimamiðum, þá er þeim nú bannað að landa í landshöfninni í Þorlákshöfn eða alla vega koma þeir þar á eftir hæði heimabátum og Vestmannaeyjabátum. Þeir bentu á það líka, þessir fiskimenn, að einmitt þessi floti hefði verið undirstaðan undir neyzlufisksöfluninni fyrir allt höfuðborgarsvæðið, fyrir allt þéttbýlissvæðið hér við innanverðan Faxaflóa um langt árabil og eins og ég tók fram áðan fyrir miklu stærra svæði eða austur um allar sveitir.

Þeir komu mjög ítarlega inn á og vitnuðu til rannsókna, sem voru alveg sambærilegar við þær rannsóknir, sem vitnað var í af Útvegsmannafélagi Akraness. Þeir bentu á rannsóknir, sem Fiskifélag Íslands hafði gert, og sendu þær rannsóknir til áður nefndrar landhelgisnefndar. Kom t. d. í ljós í þessari athugun, sem Fiskifélag Íslands stóð fyrir og var fólgin í því, að kannað var hlutfall stórfisks og smáfisks í ýsu- og þorskafla smábáta, sem stunduðu togveiðar frá Grindavík, Sandgerði, Keflavík og Reykjavík á tímabilinu 1. júní til 31. des. 1969, að stór þorskur reyndist yfir 90% eða 90.1%, en smár þorskur aftur á móti aðeins 4.5%, og þetta var úr rúmum 2 millj. kg. Ýsuaflinn skiptist þannig, að úr 704 þús. kg var stór ýsa 95.5%, en smá ýsa 9.9%. En það fór líka fram önnur athugun, og hún var gerð til þess að kanna, á hvaða veiðarfæri þessi smái fiskur aflaðist og hvort það væru ekki önnur veiðarfæri, sem öfluðu hin smáa fisk einnig. Það var Fiskmat ríkisins, sem lét gera samanburð á hlutfalli smáfisks á línu og botnvörpu. Það var afli, sem var lagður upp í Sandgerði og Keflavík á tímabilinu frá 1. júní til 31. des. 1970. Kom í ljós, að í botnvörpu var hlutfall hins stóra þorsks 96%, en hins smáa 4%, stórrar ýsu 91% og hinnar smáu ýsu 9%. En á línuna var stór þorskur 95% eða 1% minna en í botnvörpuna og 5% af hinum smærri eða 1% meira en í botnvörpuna. Og sama kom í ljós í sambandi við þessa athugun varðandi ýsuna, að það voru ekki nema 89% af hinni stærri, en 11% af hinni smærri á línuna. Þetta sýnir fyrst og fremst, að það veiðist smár fiskur í fleiri veiðarfæri en togveiðarfæri.

Ég skal verða fyrstur til þess að viðurkenna, að það væri nauðsynlegt, að slíkar athuganir næðu yfir lengri tíma, og það er enginn vafi á því, að sú gagnrýni, sem kom fram á eftirlit og rannsóknastarfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar á sínum tíma varðandi dragnóta- og botnvörpuveiðar í Faxaflóa, var byggð á ástæðum, sem áttu fullan rétt á sér, að væru dregnar fram. Starfsmenn hennar hafa sjálfir kvartað undan því í sambandi við eftirlit við slíkar veiðar og aðrar, að fjárveitingavaldið hafi aldrei treyst sér til þess að láta þeim í té þau nauðsynlegu tæki, sem þeir þurfa til þess að fylgja slíku eftirliti. Þessi stofnun, Hafrannsóknastofnunin, hefur líka látið ítrekað athuga í sambandi við afla togveiðibáta og dragnótabáta, hvort þetta séu einu veiðarfærin, sem drepi smáfisk. Svo mun þó ekki vera, og þarf ég ekki eingöngu að vitna til þeirrar rannsóknar, sem ég benti hér á og var gerð á vegum Fiskmats ríkisins, heldur hefur líka komið í ljós, að á línusvæðum, sem mikið eru nýtt af hinum minni línubátum, sérstaklega frá Akranesi, einmitt á því svæði, sem við flm, leggjum til, að verði alfriðað, hefur mikið veiðzt af smáfiski. Og þetta hefur sézt hér í Reykjavík, vegna þess að það hefur verið komið með þennan fisk hingað á markað. Komið hafa fram ýmsar fullyrðingar um, að það sé þessum veiðarfærum, botnvörpu og dragnót, að kenna, að þær sveiflur hafa komið fram á afla í árgöngunum, sem fram hafa komið. Og nú fyrir stuttu las ég í einu dagblaðanna, að það var vitnað í Norðursjó sem alauðan sjó af þessum fisktegundum einmitt vegna þessara veiðarfæra. Nú er ég nýbúinn að fá í hendur skýrslu um rannsóknir í Norðursjó, sem sanna ekki þetta, heldur hitt, kenningu vísindamannanna um, að það séu ytri skilyrði, hvernig klak fisktegundanna heppnist vegna líffræðilegra skilyrða í hafinu, sem hafi miklu meira að segja í þessu efni heldur en nokkurn tíma hvaða veiðarfæri er notað. Og þá endurtek ég það, sem ég sagði áðan, að ég hef auðvitað fullan fyrirvara á um sóknarþungann. En það var talið á árunum 1965–1967, að ýsustofninn í Norðursjó væri nærri uppurinn, og það voru aldrei gerðar neinar sérstakar friðunaraðgerðir í Norðursjó. En árin 1969 og 1970 kom einmitt í ljós og var vísindalega sannreynt, að þetta álit fiskifræðinganna reyndist rétt, sem ég var að vitna til, og það hafði aldrei, frá því að skráning hófst á ýsuafla í Norðursjó, veiðzt meira af henni en einmitt þessi ár þrátt fyrir stöðugar togveiðar um langt árabil á undan. Og aflinn í Norðursjó reyndist þessi á árunum 1965–1970: árið 1965 222 þús. tonn, 1966 269 þús. tonn, 1967 167 þús. tonn og fór 1968 niður í 139 þús. tonn. En þá kemur mjög sterkur árgangur fram, og 1969 veiðast þar hvorki meira né minna en 639 þús. tonn og 1970 672 þús. tonn. Ég hef ekki nýrri skýrslur en þetta. En það er ljóst, að þetta undirstrikar enn betur en það, sem ég hef nú þegar tekið fram, að það er klakið, sem ræður hvað mestu um styrkleika þessa fiskstofns og annarra, a. m. k. miklu frekar en margt annað. Það er þess vegna ákaflega þýðingarmikið, að það sé meira og betur hugsað hjá okkur um að vernda sjálf hrygningarsvæðin heldur en við höfum gert til þessa. Og þeir mega alltaf hafa heiður og sóma af, sjómenn og útgerðarmenn úr Vestmannaeyjum, sem hafa um langt árabil verið hvað harðastir í því að fá samþykkt friðuð svæði, viðurkennd klaksvæði, og bann þar allar veiðar yfir klaktímann.

Fleiri hafa lagt orð í belg út af þessu heldur en þeir, sem um þetta hafa skrifað í dagblöð. Þannig hef ég fengið ýmsar upplýsingar frá Fiskifélagi Íslands, og það er í sambandi við þær röksemdir, sem hafa komið fram frá Útvegsmannafélagi Akraness, en þeir héldu því m. a. fram í árg. sinni með frv., sem var lögfest vorið 1971, að þessir bátar, sem veiddu með dragnót og botnvörpu, hefðu ekki rekstrargrundvöll og hefðu því orðið að njóta styrks úr aflatryggingasjóði. Ákaflega er eftirtektarvert að hugsa til þessa og sjá svo skýrslur um greiðslur úr aflatryggingasjóði á undanförnum árum. Þar kemur í ljós, svo að ég taki bara bætur vegna Reykjavíkur og Akraness t. d. til samanburðar, þó að það sé kannske ekki eðlilegt að taka annars vegar þetta fámenna dreifbýlissvæði, sem farið er að kalla það, hins vegar þetta fjölbýla svæði hér við innanverðan Faxaflóa. Á Akranesi námu bæturnar samtals við botnvörpu og dragnót á árinu 1968–1972 2.6 millj. kr. rúmum, en í Reykjavík 8.2 millj. Hins vegar við aðrar veiðar var greitt á bát í Reykjavík 12.4 millj., en til Akraness 16.4, þannig að á heildarbótum á þessu árabili til báta á Akranesi og Reykjavík munaði ekki nema um 600–700 þús. kr., hvað Reykjavíkurflotinn var hærri. En á þessum sömu árum sem verið var að fjargviðrast út af því, að þessir bátar, sem veiddu með botnvörpu og dragnót frá Reykjavík, fengju greitt úr aflatryggingasjóði, var verið að greiða úr þessum sama sjóði vegna línuveiða margar millj. kr. til Akranesbáta og til netaveiða ekki síður, þannig að t. d. 1972, í fyrra, urðu þessar greiðslur vegna línu-. neta- og botnvörpuveiða 9.7 millj. tæpar. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þetta nánar, en það væri rétt fyrir þá n., sem fær málið til athugunar, að líta aðeins á þessar tölur.

Við bendum á það í grg. frv. varðandi eftirlit, að við teljum það nauðsynlegt, eins og ég hef tekið fram, að við teljum, að það sé bezt komið hjá Hafrannsóknastofnuninni, hjá vísindamönnum hennar og fiskifræðingum, og svo hins vegar hjá Fiskifélagi Íslands og þess trúnaðarmönnum, en þeir finnast á hverri einustu verstöð um allt land. Við tökum líka fram, að það sé alveg útilokað fyrir hv. Alþ. að vera að fyrirskipa einstökum stöðum á landinu: Þið megið nota þetta veiðarfæri, annars verðið þið að losa ykkur við ykkar flota. Þið megið nota þetta veiðarfæri, en ekki hitt. — En svo þegar við förum úr þessu sama byggðarlagi og til þess næsta, þá eru engin slík bönn til staðar, allt er leyft þar. Vita þó allir, að smáfiskur vex upp allt í kringum landið og í öllum okkar flóum og flestum fjörðum, og ef Alþ. væri sjálfu sér samkvæmt, þá ætti auðvitað sama bann á sömu veiðarfærum að gilda allt í kringum landið. En því er ekki að heilsa, eins og ég tók fram í byrjun ræðu minnar. Það er friðunarsjónarmiðið, sem ræður fyrir okkur hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er sjálfsagt, að við sýnum það út um heim, hvað við erum fúsir og fjálgir í friðun miða og smáfisks, en hagsmunasjónarmiðið má ráða alls staðar annars staðar.

Annað atriði, sem er meginástæða til flutnings þessa frv., er skorturinn á neyzlufiski á þessu svæði. Það má reyndar segja, að það hafi verið ákaflega erfitt líka fyrir reykvískar húsmæður og hafnfirzkar og húsmæður hér í nágrannabyggðum að ná í frosinn fisk, að ég tali ekki um nýjan fisk. Við teljum, að með því að veita 9 bátum úr Reykjavík og svo einum bát úr Hafnarfirði, Keflavík, Sandgerði og Akranesi leyfi 9 mánuði ársins til þess að veiða með þessum veiðarfærum hér í flóanum, þá eigi að vera tryggt, að nýr neyzlufiskur sé til á þessu tímabili. Það er að vísu nokkuð misjafnt, það er erfitt að meta, hver neyzlan er á degi hverjum hér í Reykjavík, en mér hefur verið tjáð, að frá fisksölunum í Reykjavík sé neyzlan 10–25 tonn á dag. Vera má, að þarna sé nokkuð hátt farið með tölur báta, en ég bendi hins vegar á, að við höfum lækkað brúttórúmlestatölu þeirra í till. okkar frá því, sem lagt var til af landhelgisnefndinni á sínum tíma og lögfest þá af Alþ., þannig að sóknargeta þessara báta á að vera minni en hinna.

Það urðu hér fyrir nokkrum dögum allmiklar umr. um verðlag landbúnaðarvara og kom inn í þær umr. verðlag á fiski. Það er alveg rétt, sem fram hefur komið, að fiskverð hefur hækkað ákaflega mikið. Ég geri ráð fyrir því, að það mætti lækka fiskverð á þessu svæði, ef þetta frv. yrði samþykkt, og kannske enn frekar því, að hér yrði úrval af þessum nauðsynlega og holla mat fyrir neytendur. Við leggjum til, til þess að fiskurinn komi til neytenda, að það séu fisksalarnir sjálfir, sem sjái um dreifinguna, en þó í samráði við sveitarfélögin, þannig að sveitarfélögin séu fyrst og fremst til þess að gæta þess, að hagsmunir neytenda séu ekki bornir fyrir borð, að hinir smáu geti fengið aflann til sölu eins og hinir stærri, enda mun vera svo hér, því að það er bæði í Reykjavík og mun vera í nágrannasveitarfélögunum, að sveitarfélögin eiga myndarleg fiskiðjuver, sem gætu auðvitað hlaupið undir bagga með geymslu á þessum fiski, þegar á þyrfti að halda. Auk þess eru ýmsir fisksalar, sem hafa komið slíku upp hjá sér, og þá tel ég ekki, að það sé neitt skilyrði, að sveitarfélögin hafi þau afskipti af þessum málum, heldur er hugsun mín sú, að fyrst og fremst gæti þau þess, að farið sé að öllu með réttlæti, og það sé fyrst og fremst þeirra hlutverk að gæta þess, að tilgangi laganna gagnvart neytendum í viðkomandi sveitarfélögum sé náð.

Við leggjum jafnframt til, að ráðh. setji reglugerð um þetta fyrirkomulag og reyndar annað, sem þarf að koma fram í sambandi við lög þessi, og ég treysti honum vel til þess. Ég hefði talið eðlilegt, ef frv. verður samþ. og veitt verða leyfi til slíkra veiða, mundu þeim að öllum jafnaði ganga til þeirra fiskimanna, sem hvað lengst hafa stundað þessa atvinnu héðan, t. d. úr Reykjavík. En það getur líka farið eftir öðru. Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvort bátastærðir eru fyrir hendi og vilji manna til þess að stunda þessar veiðar, því að þetta er auðvitað ákaflega takmarkað svæði, eins og ég sagði áðan, og það er einnig aðeins um takmarkaðan tíma á árinu, sem á að leyfa þessar veiðar. Sem fskj. með frv. má sjá kort af svæðum, sem við leggjum til, að verði opnað fyrir þessum veiðum, en ég skal taka það fram, að af þessu svæði munu aðeins um 40% vera nýtanleg fyrir veiðar með þessum veiðarfærum, þannig að fiskurinn fær frið á meginþorra þessa svæðis, og kemur að sjálfsögðu öðrum veiðarfærum til góða, sem fyrst og fremst mundu vera nýtt á öðrum svæðum Faxaflóans.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta frv. öllu ítarlegar nú við 1. umr. og í fyrstu ræðu. Það væri auðvitað hægt að tala um þetta mál lengi dags, en ég teldi heppileg vinnubrögð, sem ég mun leggja til, að að lokinni þessari umr, verði málinu vísað til sjútvn. d. Þar eru menn, sem hafa gott vit á þessum málum, og að sjálfsögðu mundu þeir, — og ég ætlast til þess, — hafa nokkurt samráð við þá menn, sem Alþ. hefur valið til þess að vinna í svokallaðri landhelgisnefnd, og ræða þá frekar við þá, hvað þeir hafi hugsað sér um framtíðartilhögun í þessum málum hér á Faxaflóa. En ég legg þá til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn. að lokinni þessari umr.