28.03.1973
Neðri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

188. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jónas Árnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að mínum dómi eitt hið versta frv., sem flutt hefur verið á þessi þingi, og það er satt að segja furðulegt, hversu margt ágætt fólk hefur fengizt til þess að standa að því. Ég efast um, að jafnmargt gott fólk hafi öðru sinni hér á Alþ. staðið að jafnvondu máli.

Ég hirði ekki að svara ítarlega ýmsum fullyrðingum hv. 1. flm. hér áðan, sem áttu að sannfæra hv. þm. um nauðsyn þessa frv. og jafnvel gagnsemi, en þó verð ég að gera aths. við fáein atriði í þeim hluta ræðu hans.

Hann gerði prósentusamanburð á stóra fiskinum og litla fiskinum, meðan dragnótin var í algleymingi, samanburð á þeim afla, sem dragnótabátar komu með að landi, og svo þeim afla, sem línubátar komu með að landi. Átti þetta að sanna, að dragnótabátarnir hefðu veitt yfirleitt stærri fisk en línubátarnir. Hv. 1. flm. frv. er ekki sá glópur að gera sér ekki ljóst, að á dragnótabátum og trollbátum er venjulegast og reyndar oftast mokað fyrir borð svo og svo miklu smælki og ekki komið með það að landi. Hann, þessi gamli sjómaður, veit, að það væri mikil hræsni að segja, að þetta ætti sér ekki stað. Þetta á sér yfirleitt stað. En þegar þessi könnun var gerð, sem hv. þm. ræddi um áðan, þá var jafnframt sá háttur hafður á, og um það geta menn borið á Suðurnesjum, vigtarmenn, t. d. í Keflavík, að áður en landað var þeim afla, sem átti að fara upp í frystihúsið, var landað smælki, smákola og smálúðu, þetta sett í löndunarnet og síðan beint í gúanóið. Þessi hluti aflans kom aldrei fram í þessum útreikningi. Þetta er sem sé ein niðurstaðan varðandi afla, sem berst á land, niðurstaða, sem lítið er á byggjandi.

Mér sýnist, að aðalatriðið varðandi þetta frv. sé það, að Reykvíkingar heimta að fá fisk í soðið eins og þeir þurfa. Til þess að Reykvíkingar fái fisk í soðið eins og þeir þurfa, gætu t. d. þeir bátar, sem hér um ræðir, veitt með línu eins og ýmsir aðrir bátar. En ef það dugir ekki, þá sýnist mér, að Reykvíkingar séu ekkert of góðir til þess að sækja fiskinn í einhverjar aðrar verstöðvar. Þetta mega aðrir landsmenn hafa. Þeir mega hafa það að sækja nauðsynjar sínar oft um langan veg, og þeir gera það möglunarlaust og heimta ekki breytingar á landslögum í því sambandi.

Í sambandi við þéttbýlisviðhorfið, eins og það kemur fram við dreifbýlið, er dálítið táknrænt að athuga tvö atriði, sem ég ætla að nefna.

Borgnesingar verða að sjálfsögðu að sækja sér fisk langar leiðir. Ég frétti það ofan úr Borgarnesi í gær, að nú ætlaði kaupfélagið þar að fara að hefja fiskverkun, ekki fyrir erlendan markað, heldur fyrir heimamarkað, fyrir héraðið sjálft. Fiskinn sækja þeir ekki niður að bryggju í Borgarnesi, heldur verða þeir að fá hann að, og skemmsta leiðin í næstu verstöð er á Akranes, — talsverður spölur. Þetta verða þeir að hafa þar og ætlast ekki til neinna breytinga á landslögum í þessu sambandi.

En af því að hv. 1. flm. frv. talaði hér m. a. um það píslarvætti, sem Reykvíkingar yrðu að sæta í sambandi við þessi mál, að verða að una miklu strangari friðunarlöggjöf en aðrir, vil ég biðja menn að athuga kortið, sem fylgir frv. Þar er gert ráð fyrir því, sem út af fyrir sig er gott mál og mætti vel athuga, þó að ég vilji ekki ganga eins langt og þarna er gert varðandi alfriðun, að allt svæðið úr Hellnanesi og í Þormóðssker verði friðað fyrir öllum veiðarfærum. Eins og menn vita, er hægt að komast á sjó frá Borgarnesi, og hugsum okkur, að Borgnesingar ætluðu að róa á nokkrum smábátum með handfæri, a. m. k. til þess að fá sjálfum sér í soðið. Þegar búið væri að samþykkja þetta frv, mætti þeir ekki renna færi fyrr en þeir væru komnir alla þessa óraleið út fyrir þessa línu. Þetta er sanngirnin í frv. Þetta er skilningur þéttbýlismannsins á högum strjálbýlisins.

Fyrir hönd Reykvíkinga barmar hann sér mjög yfir því, að þeir verði að sæta miklu strangari friðun og taka á sig ýmsa erfiðleika vegna hennar en aðrir landsbúar. Ég vakti athygli á því hér um daginn, sem mátti reyndar vera öllum kunnugt, að Breiðfirðingar hafa friðað stórt svæði á sínum miðum, þ. e. a. s. allt svæðið frá Skor og í Eyrarfjall, — friðað það fyrir öllum öðrum veiðarfærum en handfæri og línu. Þarna mætti að sjálfsögðu líka veiða mikið t. d. í net og önnur veiðarfæri. Þetta hafa þeir gert fyrir eigin frumkvæði. Þeir hafa m. ö. o. samþykkt sjálfviljugir þessa friðun af umhyggju fyrir fiskstofnunum og af skilningi á þeirri nauðsyn, sem það er að friða og vernda fiskstofnana. Þeir fara m. ö. o. allt öðruvísi að en það fólk, sem stendur að þessu frv.

Hv. forseti hefur mælzt til þess, að ég reyndi heldur að stytta mál mitt. En ég get ekki látið hjá líða að minnast á þau mótmæli, sem fram hafa komið gegn þessu frv. Þau hafa, eins og hv. 1. flm. sagði, sérstaklega komið ofan af Akranesi. Útvegsmannafélagið þar hefur mótmælt harðlega, verkalýðsfélagið þar sömuleiðis og þar með sjómennirnir, því að þeir eru meðlimir í því félagi. Bæjarstjórnin hefur sömuleiðis mótmælt harðlega þessu frv. Ég vil leyfa mér að lesa aðeins kafla úr þeim mótmælum, með leyfi hæstv. forseta:

„Faxaflói hefur nú verið friðaður fyrir notkun þessara veiðarfæra,“ — þ. e. a. s. fyrir dragnót og flotvörpu, — „í 11/2–2 ár. Það er samdóma álit sjómanna og útgerðarmanna á Akranesi, að þessi ráðstöfun hafi þegar haft mjög heillavænleg áhrif á fiskgengd í flóanum. T. d. hefur meðalýsuafli Akranesbáta á haustvertíð aukizt frá árinu 1970 úr 0.7 lestum í róðri og í 1.7 lestir árið 1972. Bæjarstjórn Akraness vill því vara alvarlega við afleiðingum þess að leyfa að nýju notkun þessara veiðarfæra í Faxaflóa og beinir þeirri eindregnu áskorun til Alþ. að samþykkja ekki neinar slíkar heimildir.“

Verkalýðsfélagið bendir á ýmis svipuð rök til áréttingar sínum mótmælum og kemst m. a. svo að orði: „Það er skoðun fundarins,“ þessi fundur var haldinn 23. marz s. l. í verkalýðsfélaginu, — „að friðun Faxaflóa auki verulega möguleika Reykvíkinga og annarra íbúa við Faxaflóa á að fá ýsu og annan góðfisk í soðið.“

Þarna er að sjálfsögðu átt við það, að jafnvel þó að það þyrfti að landa ýsunni og þessum góðfiski annars staðar en í Reykjavík, þá er hann auðfengnari í flóanum vegna friðunarinnar.

Mér er kunnugt um það, að smábátamenn í Reykjavík eru að safna undirskriftum undir svipaða áskorun til Alþ. varðandi þetta frv. Og það sýnir sig þar með, að þetta er ekki bara ein sérvizkan úr þeim Skagamönnum. Það eru fleiri, sem láta sig þetta mál varða.

Ég vil svo að síðustu lesa hér í heild mótmæli, sem nýlega hafa borizt og eru frá Fiskideild Gerðahrepps, Fiskideildir eru, eins og kunnugt er, víðast hvar á útgerðarsvæðum, og þetta eru deildir í Fiskifélaginu og kjósa fulltrúa á Fiskiþing o. s. frv. Undir þessi mótmæli skrifar formaður þessarar deildar, Þorsteinn Jóhannesson, gjaldkerinn, Njáll Benediktsson, og ritarinn, Valur Kristinsson. Mótmæli þessi eru svo hljóðandi, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — ljúka ræðu minni með því að lesa þau:

„Fiskideild Gerðahrepps mótmælir harðlega ákvæðum frv. til l., er nú hefur verið lagt fram á Alþ. um, að heimilaðar verði veiðar með dragnót og botnvörpu í Faxaflóa. Fiskideildin minnir á fyrri aðgerðir í þessa átt, þar sem tvisvar hefur, frá því að Faxaflói var friðaður, verið stigið það óheillaspor að leyfa veiðar með þessum veiðarfærum til stórtjóns fyrir byggðarlögin við Faxaflóa, sem áttu afkomu sína undir því að veiða fisk úr sjó og eiga enn. Fiskideildin minnir á till. Hafrannsóknastofnunarinnar um nýtingu fiskstofna, þar sem varað er við tog- og dragnótaveiðum nær landi en 6 mílur og hvergi innfjarða vegna hættu á ofveiði af völdum þessara veiðarfæra og þá helzt á ungfiski, en það er vitað, að Faxaflói er óneitanlega uppeldisstöð fyrir allan fisk. Fiskideildin telur, að leysa verði það voðaástand í fisksölumálum Reykvíkinga, sem lýst er í áskorun borgarstjórnar Reykjavíkur, með öðru móti en rányrkju á kostnað dreifbýlisfólksins við Faxaflóa.“