29.03.1973
Efri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tók til máls við 2. umr. þessa máls á sínum tíma og gerði grein fyrir brtt., sem fluttar eru á þskj. 364 af okkur hv. þm. Jóni Árnasyni, 2. þm. Vesturl. Umr. var ekki lokið þá, en síðasta mánudag var framhald 2. umr. Ég hafði þá fjarvistarleyfi, vegna þess að ég var veðurtepptur í kjördæmi mínu, en umr. var þá lokið. Atkvgr. fór fram í gær, og ég tók þá aftur til 3. umr. brtt. á þskj. 364. Það var á þeirri forsendu, að ég hugði, að það hefðu verið við framhald 2. umr. frekari umr. um brtt. okkar á þskj. 364. Nú er mér tjáð, að svo hafi ekki verið, og þykir mér það ekki lakara, því að það er náttúrlega vottur þess, hve sjálfsagðar þessar brtt. eru, og mælir sú staðreynd betur með till. mínum heldur en þó að ég fari nú að endurtaka það. sem ég sagði við 2. umr. um þær.

Ég vil aðeins með örfáum orðum til glöggvunar því, hvernig málið stendur núna, víkja samt að till. okkar á þskj. 364. Höfuðatriði þeirra var að hækka stofnframlag ríkisins til byggingar dagvistunarheimila, en fella niður rekstrarstyrkinn.

Gert er ráð fyrir í till. okkar, að styrkur til dagheimila hækki úr 50% í 60% og til leikskóla úr 25% í 50%. Hv. d. hefur fundizt þetta svo sjálfsagt, að þegar er búið að samþ. helminginn af þessu, sem við leggjum til. Það var gert við atkvgr. í gær með því að samþykkja hækkun á stofnframlagi til leikskóla úr 25% í 50%. En eftir stendur það, sem við leggjum til, að hækka stofnkostnað dagheimila úr 50% í 60%. Vænti ég þess, að d. sjái sér fært að gera það til samræmis við það, sem hún hefur þegar gert. En þegar þessi stofnframlög hafa verið hækkuð, hefur komið aukinn styrkur til dagheimila á móti því, sem við leggjum til, að rekstrarkostnaðurinn falli niður. Ég tel, að það sé svo sjálfsagt mál, eins og ég færði rök fyrir við 2. umr., að ekki eigi að vera á vegum ríkisins rekstur þessara stofnana. Ég ætla ekki að fara að rifja það frekar upp.

Ég vil svo aðeins fyrir utan þetta, sem er höfuðatriði till. okkar, víkja að því, að við gerum till. um það, að 4. mgr. 15. gr. verði breytt frá því, sem er í frv. Það er ákaflega lítil breyting og ég hygg engin efnisbreyting, en hins vegar leiðrétting, því að það stendur í frv., að ríkinu sé skylt að hafa lokið framlagi sínu innan fjögurra ára, miðað við upphaflega kostnaðaráætlun. þetta held ég, að verði markleysa. Það mun hafa átt að standa, að ríkinu sé skylt að hafa lokið framlagi sínu, miðað við upphaflega kostnaðaráætlun, innan fjögurra ára frá því er fyrsta framlag var innt af hendi. Till. okkar á þskj. 364 miðar að því, að þessu verði breytt á þennan veg.

Þá er að lokum önnur brtt. við 15. gr. frv. Hún hnígur í sömu átt og brtt., sem samþ. var í gær á þskj. 361 frá Ragnari Arnalds og Steingrími Hermannssyni. En okkar till. gengur ívið lengra, og það tel ég, að sé nauðsynlegt. En hér er um það að ræða, hvernig á að bregðast við, ef byggingarkostnaður fer fram úr áætlun. Eins og frv. stendur núna eftir þá breytingu, sem gerð var í gær, er talað um, að ríkisframlagið skuli miðast við áætlaða fjárhæð, að viðbættri vísitölu byggingarkostnaðar. Þ. e. a. s. ef byggingarkostnaðurinn hækkar, þá er tekið tillit til þess. En kostnaður dagheimilisins getur hækkað af öðrum ástæðum en þeim, að hinn beini byggingarkostnaður hækki. Það getur orðið breyting á framkvæmdum, t. d. stækkun eða annað því um líkt. Því er eðlilegra að hafa þetta ákvæði rýmra, þannig að það nái til allra tilvika, og við það er miðuð brtt. okkar á þskj. 364. Þetta er í samræmi við það, sem er í skólakostnaðarlögunum. Ákvæðið, sem við leggjum til, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú fer á byggingartímanum heildarbyggingarkostnaður dagvistunarheimilis fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun, og skal þá sá ríkisstyrkur, sem umfram er, greiðast á næstu 2 árum eftir fjögurra ára tímabilið samkv. 4. mgr.

Ég sé ekki ástæðu. herra forseti, til þess að fjölyrða um þetta. Ég vænti þess, að okkur takist að gera þessar sjálfsögðu leiðréttingar, sem enn þarf að gera að mínu viti, til þess að það verði snyrtileg afgreiðsla á þessu þarfa máli frá hv. d.