31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

269. mál, áfengismál

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason:

) Herra forseti. Svo sem kunnugt er, var það nýmæli tekið í löggjöf um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra árið 1964, að meðhöndla skuli ölvaða menn sem sjúklinga og færa þá til sjúkrahúsvistar. Mér hefur verið tjáð, að þessi lagaákvæði hafi ekki komið til framkvæmda, en það var róttækt nýmæli á sínum tíma að hætta að skoða ölvaða menn og áfengissjúklinga sem brotamenn, heldur líta á þá sem sjúklinga. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja um, hvort þessi ákvæði hafi komið til framkvæmda eða ekki, og hafi þau komið til framkvæmda, þá í hversu mörgum tilfellum þeim hafi verið heitt. Þetta er gert til þess að vekja athygli á því ákvæði, sem er í gildandi lögum, að skoða þá, sem verða áfengi að bráð, sem sjúklinga, en ekki brotamenn, láta þá fá læknismeðferð, — spítalameðferð — en ekki fangelsismeðferð. Með því að vekja athygli á þessu, vil ég líka láta í ljós þá skoðun, að þeim mun fyrr sem þessi ákvæði koma til framkvæmda, þeim mun betra væri það til lausnar á þeim ógnarvanda, sem hér er á ferðinni. Hafi hins vegar ekki reynzt rúm á sjúkrahúsum fyrir slíka sjúklinga, þá er eðlilegt að fá það upplýst, fyrir hversu marga drykkjusjúklinga sé rúm á þeim gæzluvistarhælum, sem ríkið rekur. Ég hygg, að það komi í ljós, að það sé rúm fyrir allt of fáa drykkjusjúklinga í þessum hælum, þannig að brýna nauðsyn beri til þess að bæta þar úr og ekki síður til að bæta aðstöðu á gæzluvistarhælum heldur en að auka fangelsisrými.