29.03.1973
Efri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2856 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það, sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði hér áðan í tilefni af ummælum hv. 4. þm. Norðurl. v. Það var fullkomin ástæða til þess að gera aths. við þau ummæli. Það var ekki hægt að skilja ummæli 4. þm. Norðurl. v. öðruvísi en þessari d. væri svo áfátt um afgreiðslu mála, að menn vissu ekki, hvað þeir væru að gera. Ég spyr: Hvaðan kemur hv. þm. vitneskja til þess að fullyrða hér, að ef fleiri hefðu verið í d., mundi afgreiðsla hafa orðið eitthvað frekar í þá átt, sem hann vill? Við verðum að gera ráð fyrir, að þm. fylgi sannfæringu sinni í þessu máli. Menn skiptast alla vega í þessu máli. Það fer ekki eftir neinum flokkum eða stjórn eða stjórnarandstöðu, svo að mér finnst þessi ummæli hv. þm. í hæsta máta óviðurkvæmileg.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það hangir saman annars vegar að hækka stofnframlag af hálfu ríkisins til heimilanna og hins vegar að fella niður rekstrarstyrk ríkisins. Þetta er alveg rétt. En hins vegar er það ekki rétt ályktun hjá hv. þm., að samþykkt d. á hækkun á stofnkostnaðarframlagi til leikskóla úr 25% í 50% sé órökrétt afgreiðsla. Það er miklu eðlilegra að ætla, að þessi hv. d. og einstakir þm. geti hugsað rökrétt. Það er eðlilegra að gera ráð fyrir því, að þm. vissu, að fyrir lá till. um það að hækka einnig stofnkostnaðarframlag til dagheimila. Sú afgreiðsla að hækka stofnkostnaðarframlögin til leikskóla bendir því til þess, að d. hafi ætlað sér að vinna hitt verkið, þ. e. varðandi dagheimilin, þegar till. kæmi til afgreiðslu. En það gat d. ekki í gær, vegna þess að ég dró till. okkar hv. 2. þm. Vesturl. til baka til þessarar umr. Það er ekkert órökrétt við það, sem gerzt hefur.

Þá vildi hv. 4. þm. Norðurl. v. telja, að með því að það hefði verið felld brtt. um að fella 9. gr. niður, sem fjallar um eina hlið rekstrarkostnaðarins, hafi d. verið að lýsa því yfir, að hún vildi halda rekstrarkostnaðinum. Þetta er alger misskilningur, því að aðalgr., sem varða rekstrarkostnaðinn, er 8. gr. Með því að ég dró til baka till. okkar hv. 2. þm. Vesturl. um að fella þá gr. niður, var ekkert óeðlilegt, að 9. gr. stæði, á meðan svo var ástatt.

Nú hefur hv. 4. þm. Norðurl. v. borið fram skrifl. till. um það að lækka á ný stofnframlag ríkisins til leikskóla úr 50%, sem samþ. var í gær, ofan í 30%. Ég lýsi fullkominni andstöðu við þessa till., og þó að svo kunni að vera, að það sé ekki brot á þingsköpum, þá eru þessi vinnubrögð í hæsta máta óeðlileg.

Um brtt. á þskj. 461, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. leggur nú fram og hefur gert grein fyrir, vil ég aðeins segja það, að ég er þeim andvígur. Það leiðir af því, sem ég hef áður sagt um afstöðu mína til þessa máls. Ég verð að segja það, að mér fannst rökstuðningur hv. þm. fyrir þessum brtt. harla þokukenndur. Hann var að lýsa hugmyndum meiri hl. í menntmn. og svo minni hl., sem var frú Auður Auðuns. Mér skildist, að þegar málið var rætt menntmn., hefði þessi hv. þm. verið í meiri hl., en nú allt í einu hefur hann skellt sér yfir í minni hl. og sezt í sæti frú Auðar Auðuns. Það færi vel á því, að hann gerði það oftar og þá sérstaklega í þeim málum, sem er augljósara að eru réttlætismál heldur en þetta er.

En það sem ræður úrslitum hjá mér, að ég er á móti till. í 2. tölul. á þskj. 461, er það, að þar er tekið fram, að ríkissjóður skuli að jafnaði greiða sinn hlut af áætluðum byggingarkostnaði dagvistunarheimila á næstu 4 árum. Það er þetta „að jafnaði“. Í frv. stendur, að ríkinu sé skylt að gera þetta, ef Alþ. er búið að ákveða stofnframlag. Mér finnst, að hv. Alþ. eigi að afgreiða þessi lög þannig, að sú aðstoð, sem veitt er, sé sem öruggust og traustust, og það eigi ekki að vera að opna undankomuleið til þess, að það skapist svokallaður halli á greiðslum, sem ríkissjóður á að inna af hendi í þessum tilgangi. Þetta er bein afturför og til óþurftar fyrir þá aðila, sem koma til með að reisa dagvistunarheimilin.

Ég ítreka það, að ég er á móti því, að ríkið styðji rekstur þessara heimila, en vil þins vegar, að ríkið styðji betur byggingu þeirra en hér er gert ráð fyrir. Það væri hægt að flytja hér langt mál um óréttmæti þess, að ríkið fari að styðja slíkan rekstur. Ég held líka, að það séu í hæsta máta óraunhæf vinnubrögð. Ég sagði áðan, að ég hefði verið veðurtepptur vestur í mínu kjördæmi. Ég spurðist fyrir um, hvernig þessum málum væri háttað í tveim kauptúnum þar. Þar er mjög þýðingarmikið, að börnum sé komið fyrir í gæzlu, vegna þess að það er almenn regla, að mæðurnar vinna í frystihúsum. Á öðrum staðnum kostar frystihúsið allan rekstur barnaheimilisins, á hinum staðnum 40% af rekstrinum. Auk þess verðum við að hafa í huga, að á stöðum hvarvetna úti um land eru margs konar félög og einkum og sér í lagi kvenfélög, sem láta til sín taka þessi mál. Þannig eru réttar fram á sjálfboðaliðsgrundvelli ótal hendur í þessum efnum. Þetta er farsælt, vegna þess að það fólk, sem gerir það, hefur staðarþekkingu á málunum, og aðstoð þess verður raunhæfust. Nú vilja menn, að ríkið fari að taka þessi mál í sínar hendur. Auk þess sem það er vafasöm ráðstöfun hjá þeim aðilum, sem þurfa á rekstri þessara stofnana að halda, þá er það í hæsta máta óréttmætt gagnvart þeim byggðarlögum, öllum sveitum landsins og fleiri byggðarlögum, sem hafa ekki slíkar stofnanir, að greiða rekstrarkostnað þeirra af almannafé.