29.03.1973
Efri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2859 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram til kynningar á síðasta þingi, síðan var það flutt á nýjan leik í upphafi þessa þings, og Nd. hefur nú lokið afgreiðslu sinni á því.

Frv. er tiltölulega einfalt.

Í 1. gr. eru skilgreind dvalarheimili aldraðra þannig, að þau séu ætluð öldruðu fólki, sem ekki þarfnast vistunar á sjúkrahúsi. Dvalarheimili aldraðra getur jöfnum höndum verið ætlað til dagvistunar sem fullrar vistunar. Íbúðir fyrir aldraða geta verið hluti dvalarheimilis.

Í 2.–6. gr. eru frekari ákvæði um þessi dvalarheimili, og eru þau í samræmi við lög um sjúkrahús og lög um opinberar framkvæmdir. Ég vil þó vekja athygli á nýmæli í 6. gr., en þar segir: „Vistmönnum skal heimilt að tilnefna einn mann af sinni hálfu til setu á fundum stjórnarinnar, og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt.“ Í Nd. var þarna bætt við einni setningu: „Sama á við um starfslið stofnunar, hafi ekki verið gerður samningur um samstarfsnefnd.“ Var það eina brtt., sem samþ. var í Nd.

Meginefni frv. felst svo í 7. gr., en þar eru fyrirmæli um það, hvernig ríkið eigi að leggja fram fjármagn til dvalarheimila, en um slík framlög hefur ekki verið að ræða til þessa. Í þeirri gr. segir svo: „Nú byggir sveitarfélag dvalarheimili eða hefur rekstur þess samkv. lögum þessum, og skal þá ríkissjóður greiða 1/3 hluta kostnaðar við bygginguna og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar. Ef aðrir aðilar en sveitarfélög byggja eða hefja rekstur dvalarheimilis, er ríkissjóði heimilt að greiða allt að 1/3 hluta kostnaðar við byggingu og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.“ Þetta eru ákvæði, sem tvímælalaust eiga að ýta mjög undir það, að slík dvalarheimili verði byggð í ríkari mæli en gert hefur verið til þessa, en á því er víða ákaflega mikil nauðsyn.

Í 8. gr., er svo ákvæði um það, að daggjaldanefnd ákveði upphæð vistgjalda á dvalarheimilum aldraðra.

Að öðru leyti held ég, að frv. skýri sig sjálft og að hv. alþm. sé fullkunnugt um öll þau atriði, sem þar er fjallað um.

Ég vil vænta þess, að hv. Ed. afgreiði þetta frv., þannig að það geti orðið að lögum á þessu þingi. Ég tel það skipta ákaflega miklu máli. Í kjölfar þess mundi tvímælalaust hefjast undirbúningur að framkvæmdum á þessu sviði.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.