29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2867 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég tel, að hér sé í raun og veru um stórmál að ræða, og tel, að það sé bráðnauðsynlegt að setja löggjöf, sem festi landshlutasamtökin í sessi. Þetta frv. er flutt af hv. þm. úr öllum flokkum, og ég ætla, að það hafi verið mjög vel undirbúið af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og sé að verulegu leyti í anda eða að öllu leyti í anda þess sambands, sem auðvitað þekkir gerst til þessara mála. Mér geðjast ekki að þeirri hugmynd að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj., því að ég tel, að þessi samtök um landið þurfi að fá þennan fasta sess í stjórnkerfinu sem allra fyrst.

Það eru eitt eða tvö atriði, sem mig langar til að nefna fyrst í sambandi við hlutverk landshlutasamtakanna. Það eru talin upp allveigamikil verkefni, sem landshlutasamtökin eiga að hafa með höndum, og þessi verkefni eru vissulega þess eðlis öll, að það er fyllsta ástæða til þess, að það sé nokkuð sterkt samband á bak við það ætlunarverk, sem þarna er um að ræða, og það ættu landshlutasamtökin að verða. En mér sýnist vanta í þetta t. d. að hafa forustu í vissum landshlutum fyrir uppbyggingu atvinnulífsins í þeim landshluta. Þetta er auðvitað afar þýðingarmikið og kannske þýðingarmesta málið. Þó að segja megi, að það rúmist innan áætlanagerðar, þá finnst mér, að hér ætti að kveða fastar að orði um ætlunarverk landshlutasamtakanna varðandi uppbyggingu atvinnulífsins.

Í annan stað finnst mér í sambandi við ákvæði til bráðabirgða vera óþarflega langt að gefa frest til ársloka 1974. Ég hefði haldið, að það væri hægt að gera þetta á eitthvað styttri tíma.

Landshlutasamtökin hafa þegar sýnt tilverurétt sinn. Á því held ég, að sé ekki nokkur vafi.

En sérstaklega ætlaði ég að gera að umtalsefni atriði, sem hæstv. forsrh. kom inn á og ég er honum alveg sammála um. Það eru talin upp í verðandi 110. gr. öll landshlutasamtökin og þar með Fjórðungssamband Norðlendinga, þar sem gert er ráð fyrir, að bæði kjördæmin verði í þessum landshlutasamtökum. Þetta er eina tilvikið í landinu, þar sem svona stendur á. Alls staðar annars staðar eru þessi landshlutasamtök í samræmi við kjördæmin. Þetta er eina tilvikið, þar sem tvö kjördæmi eru saman. Nú skal það játað fúslega, að Fjórðungssamband Norðlendinga hefur oft unnið ágætt verk fyrir Norðurl. v. Það er ekki það. En mér finnst vera ósamræmi í þessu, og mér finnst, að það verkefni, sem landshlutasamtökunum er ætlað hverju um sig, kalli bókstaflega á það, að sjálfstæð landshlutasamtök séu fyrir hvert kjördæmi. Sjálfsagt eru menn ekki einhuga um þetta fremur en margt annað, og vafalaust sýnist einhverjum og kannske mörgum, að þetta eigi að vera svona áfram. En ég fyrir mitt leyti er alveg sammála hæstv. forsrh. um, að það sé réttast að kanna það heima í kjördæminu, hvað menn vilja þar. Ég veit þó um vilja bæjarstjórnar í einu bæjarfélaginu, Sauðárkróki. Þar var haldinn bæjarstjórnarfundur í fyrradag og samþykkt svo hljóðandi ályktun með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Sauðárkróks beinir þeim eindregnu tilmælum til alþm. kjördæmisins, að þeir vinni að því að fá fram þá breytingu á frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarl. varðandi landshlutasamtök sveitarfélaga, að sama regla gildi um land allt, þannig að umdæmi landshlutasamtakanna séu kjördæmin.“

Þetta er afdráttarlaust og einróma samþykkt í bæjarstjórninni á Sauðárkróki. Ég veit, að aðrar bæjarstjórnir hafa eitthvað rætt þetta, en mér er líka kunnugt um, að nokkur ágreiningur er um það. Ég hef þó mjög sterka trú á því, að mikill meiri hl. af sveitarstjórnarmönnum í kjördæminu vilji hafa þennan hátt á. Þróunin virðist vera sú, að kjördæmin sem slík séu að verða styrkari einingar í stjórnkerfi landsins, og þetta tel ég hiklaust rétta stefnu.

Hæstv. forsrh. nefndi, að það þyrfti að athuga mörg önnur atriði í sveitarstjórnarl., og það er vafalaust alveg hárrétt. En mér finnst, að þetta mál sé hægt að einangra og afgreiða, þó að önnur mál í sambandi við sveitarstjórnarmál séu ekki tekin nú. Mér finnst satt að segja, að þetta sé bara einn hluti af þeirri stefnuskrá, sem hæstv. forsrh, las upp úr málefnasamningi hæstv. ríkisstj., og mér finnst þess vegna rökrétt, að þessi kaflinn verði nú samþykktur, en aðrir komi síðar til meðferðar. En ef málinu er öllu vísað til frestunar og gagngerðar athugunar í einu, þá er ég hræddur um, að líði nokkuð langur tími, þangað til hægt er að koma þessum hluta, sem ég álít, að sé mjög áríðandi, til framkvæmda, þannig að hann geti verkað í landshlutasamtökunum. Ég er því meðmæltur frv. En einhverjir eða kannske allir þm. kjördæmisins munu vafalaust flytja brtt. varðandi það atriði, sem ég nefndi áðan um skiptingu Fjórðungssambands Norðlendinga. Ég vildi eindregið mega vona, einkum þar sem þm. úr öllum flokkum standa saman, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi.