29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég læt í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. skuli vera fram komið, og vona, að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Jafnframt hlýt ég að lýsa vonbrigðum mínum yfir ræðu hæstv. forsrh. og þeim úrtölum, sem komu fram í hans máli. Ég skal víkja nokkuð að því síðar.

Ég held, að engum blandist hugur um það, að það er fullkomin nauðsyn á því að lögfesta stöðu landshlutasamtakanna í stjórnkerfinu. Eins og hér hefur komið fram, er landshlutasamtakanna þegar getið í lögum, auk þess sem þeirra er getið í frv., sem hér eru til meðferðar á hv. Alþ. Þessi landshlutasamtök hafa verið stofnuð nú um allt land, eins og kunnugt er. Þau hafa verið stofnuð í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga. Ýmsir óttuðust það, þegar farið var að stofna þessi landshlutasamtök, að með því væri verið að veikja heildarsamtök sveitarfélaganna í landinu. En eins og ég sagði, hafa þessi samtök verið stofnuð með vitund og vilja Sambands ísl. sveitarfélaga, og reynslan hefur sýnt, að tilvera þeirra styrkir fremur en veikir sveitarstjórnirnar í landinu.

Hæstv. forsrh. talaði um það, að ekki mætti hrapa að löggjöf sem þessari. Ég er honum að sjálfsögðu sammála um það. Hér er um mjög viðamikið mál að ræða. En ég vil hins vegar leggja áherzlu á það, að undirbúningur þessa máls hefur tekið mjög langan tíma hjá sveitarfélögunum, bæði stjórn sambandsins og landshlutasamtökunum sjálfum. Ég held, að ég megi segja, að það hafi verið á árinu 1968, sem farið var að vinna að þessum málum fyrir alvöru. Þá höfðu þegar starfað landshlutasamtök í ákveðnum landshlutum í nokkur ár. Það hafði verið samið frv. í fyrra, sem ekki var lagt fyrir þingið, og það hefur nú verið endurskoðað og breytt og rætt á fjölmörgum fundum fulltrúa landshlutasamtakanna, og frv., eins og það er nú úr garði gert, nýtur stuðnings þeirra allra og allir eru sammála um að fá það lögfest.

Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að samþykktir landshlutasamtakanna eru nokkuð mismunandi, en það hefur verið unnið að því á undanförnum mánuðum og árum, má segja, að samræma þessar samþykktir. Og ég er sannfærður um, að það er tiltölulega auðvelt verk að ná fullu samræmi í samþykktir allra landshlutasamtakanna.

Tilgangurinn með stofnun þessara samtaka var að sjálfsögðu sá að styrkja stöðu sveitarstjórnanna í heildarstjórnkerfinu. Þetta stjórnkerfi er hið opinbera framkvæmdavald, sem skiptist milli ríkis og sveitarfélaga, og þar með eru að sjálfsögðu sýslufélögin. Opinbert framkvæmdavald hefur orðið æ yfirgripsmeira, eftir því sem starfsemi hins opinbera eykst. Hin auknu umsvif framkvæmdavaldsins valda því, að rétt ákvörðunartaka verður sífellt vandasamari. Krafizt er meiri menntunar af þeim, sem um þessi mál fjalla. Starfsskilyrði eru hins vegar ekki fyrir hendi fyrir hina hæfustu menn úti um land, vegna þess að stjórnunareiningarnar eru of smáar. Afleiðingin verður sú, að miðstjórnarvald eykst, ákvarðanir verða teknar í hinum mikilvægustu málum utan þeirra héraða, sem málefnið varðar. En þrátt fyrir hin auknu umsvif, nýjar kröfur og ólíkar aðstæður búum við raunar enn við stjórnkerfi, sem á rætur sínar annars vegar í hinni fornu hreppaskipan og hins vegar í hinni upprunalegu stjórnardeild heimastjórnartímabilsins. Endurskoðun kerfisins með skipulagningu þess fyrir augum hefur ekki farið fram. Þess vegna er full ástæða til að taka allt hið opinbera stjórnkerfi til athugunar og endurskipulagningar, eftir því sem ástæða þykir til.

Þegar við hugleiðum, hvers konar kerfi það er, sem við búum við, vakna vissulega margar spurningar. Er ekki umdæmisskipting landsins úrelt orðin miðað við hina breyttu tíma? Landið skiptist í ótal umdæmi. Það skiptist í læknishéruð, prestaköll, hreppa, kaupstaði, sýslur, kjördæmi, og svo mætti lengi telja. Hér erum við reyndar að tala aðeins um einn þáttinn, þ. e. a. s. landshlutasamtök sveitarfélaganna. Við búum við sýsluskipanina, sem er raunar ekkert annað en samtök sveitarfélaga með embættismann ríkisins sem æðsta mann og fulltrúa í sýslunefndum, sem alls ekki þurfa að vera sveitarstjórnarmenn. Þá skiptast sveitarfélögin annars vegar í hreppa og hins vegar í kaupstaði. Munurinn liggur nú ekki í stærðinni eða fjölmenninu, þótt svo hafi verið í eina tíð. Kaupstaðir eru nú 14 talsins, en hreppar 211. Samkv. sveitarstjórnarl. má ekki fjölga kaupstöðum nema með lögum eða breyta mörkum þeirra, en hvergi er að finna í lögum vísbendingu um, hvenær hreppur ætti að gerast kaupstaður. Það gilda að langmestu leyti sömu reglur um báðar tegundir sveitarfélaga, kaupstaði og hreppa. Ég skal ekki fara út í að rekja þann raunverulega mun, sem á þessu er, en mér sýnist, að hann hafi harla lítið gildi nú orðið. Það hlýtur því að mega spyrja, hvort ekki sé orðið tímabært að breyta hér til, hvort nokkur ástæða sé til að vera með tvenns konar sveitarfélög. Af hverju ekki að veita öllum sömu réttarstöðu, þau verði öll sömu tegundar, ef svo má að orði komast? Að sjálfsögðu mundi slíkt hafa í för með sér breytingar á hlutverki sýslunefnda, en breyting á hlutverki þeirra hlýtur að koma hvort eð er, m. a, vegna tilkomu landshlutasamtakanna, sem eru orðin staðreynd, hvað sem allri lagasetningu líður.

Landshlutasamtökin eru nýr þáttur þessa kerfis, sem kannske má segja, að orðið hafi til fyrst og fremst af tveimur ástæðum: annars vegar vegna fjarlægðar ríkisvaldsins frá hinum staðbundnu vandamálum og vanmáttar þess til lausnar ýmsum þeirra mála, hins vegar smæðar sveitarfélaganna og þarfar fyrir sameiginlegan vettvang heilla landshluta, þar sem unnt er að starfa að lausn sameiginlegra mála á víðtækari grundvelli en sveitarfélaga- og sýsluskipanin gerir mögulegt, og vegna þarfar á að mynda voldugra afl til að koma framfaramálum landshlutans á framfæri við löggjafarvald og framkvæmdavald ríkisins. Landshlutasamtökin eiga sér ekki enn stað í lögum, og verkefni þeirra eru þau, sem aðildarsveitarfélögin hafa falið þeim. Reynslan bendir til, að hér sé um hagkvæman vettvang að ræða til þess að leysa ýmis stjórnunarvandamál, þar sem meiri nálægð er nauðsynleg en ríkisvaldsins, en þó víðara svið en það, sem sveitarfélögin bjóða. Það verður hins vegar að líta á landshlutasamtökin sem lið í stjórnkerfi þjóðarinnar, og tilgangur starfsemi þeirra verður að vera sá að gera stjórnkerfið hagkvæmara, virkara og betra en það er nú. Það verður að forðast, að þau verði viðbótarumsagnaraðili eingöngu, en fái hins vegar þau verkefni, sem henta slíku stjórntæki.

Það hefur verið minnzt hér á kaflann í málefnasamningi ríkisstj. um endurskoðun á skiptingu verkefna og valds á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þetta er eitt skrefið í þeirri endurskoðun, þótt þetta frv. fjalli raunverulega ekki um verkefnaskiptinguna. Ég læt í ljós þó von, að skriður komist á þessa endurskoðun, og ég vil upplýsa það, að að því máli hefur verið unnið mjög mikið á undanförnum árum af hálfu sveitarfélaganna í landinu. Samband ísl. sveitarfélaga hefur talið skyldu sína að undirbúa þetta mál af sinni hálfu. Við munum þann tíma, þegar við fórum fram á viðræður við ríkisvaldið um endurskoðun á þessum málum, þegar fulltrúar sveitarfélaganna voru spurðir: Hvað viljið þið? Og þannig voru sveitarfélögin sett upp að vegg. Þau hafa þess vegna allt frá því árið 1969 unnið að grg. um það, hvernig að áliti sveitarstjórnanna væri heppilegast að breyta þarna til. Það var gefin út skýrsla í jan. 1970, og önnur skýrsla er nú nýkomin út og var umræðuefni á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldinn var í gær og fyrradag. Það er endurskoðun verkefnaskýrslunnar með tilliti til landshlutasamtakanna. Þessum tveim skýrslum og áliti, sem fram komu á fulltrúaráðsfundinum síðasta, verður steypt saman í eitt, og það verður verkefni aukafundar fulltrúaráðsins, væntanlega í haust, að marka endanlega stefnu sveitarfélaganna í þessum málum. Þetta er það, sem unnið hefur verið.

Þá vil ég að lokum aðeins koma inn á það, sem fram kom í máli hæstv. forsrh. og einnig hv. 2. landsk. þm., þar sem þeir lýstu andstöðu sinni við það ákvæði 110. gr. í 1. gr. frv., að það yrði aðeins eitt samband á Norðurlandi, eins og það nú er, Fjórðungssamband Norðlendinga. Þetta frv. eins og það hér liggur fyrir, nýtur stuðnings allra landshlutasamtakanna, stjórna þeirra, eins og ég sagði áðan, og það kemur mér mjög á óvart, ef farið er að halda því fram hér, að um þetta sé einhver verulegur ágreiningur á Norðurlandi. Þvert á móti er það vilji sveitarstjórnarmanna þar, að samtökin verði ein, þó að þau spanni yfir tvö kjördæmi. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að þeirri samþykkt bæjarstjórnar Sauðárkróks, sem hér var lesin upp áðan. Ég veit ekki, hvað liggur þar á bak við. Það hefur hins vegar ekki farið fram hjá neinum, sem um þessi mál hafa sýslað á undanförnum mánuðum, að það hefur verið unnið að því af ákveðnum aðilum að kljúfa samtökin fyrir norðan, og þar er vérið að vinna illt verk. En ég fullyrði, að það á ekki upphaf sitt í hugum sveitarstjórnarmanna, heldur eru það aðrir, sem þar hafa unnið að.