29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að gera nokkrar aths. við það, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. og hv. 2. landsk. þm.

Ég verð að lýsa því yfir, að ég varð mjög óánægður að heyra undirtektir hæstv. forsrh. undir þetta mál. Hann hóf mál sitt á því, að mælast til þess við hv. d., að hún hrapaði ekki að samþykkt á þessari löggjöf, eins og frsm., hv. þm. Lárus Jónsson, hafði lagt til. Ég var búinn, rétt áður en hæstv. forsrh. tók til máls, að lesa hér upp áskorun frá fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga, sem í er fjöldi fólks víðs vegar um landið, sem skorar á Alþ. að hraða afgreiðslu þessa máls. Það er því ekki ég einn, sem legg þetta til, heldur þeir, sem unnu að undirbúningi málsins. Og ég vil líka í þessu sambandi benda á, að það voru ekki landshlutasamtökin, sem undirbjuggu þessa löggjöf, þó að hún væri gerð í samráði við þau, heldur Samband ísl. sveitarfélaga í öllu landinu. Það voru þeir aðilar, sem undirbjuggu þessa löggjöf, og því var sú röksemd hæstv. forsrh., að það væri ekki gott að láta þá semja lög, sem ættu sjálfir að njóta þeirra, algerlega út í hött. Þarna er um að ræða samtök sveitarstjórnarmanna á öllu landinu, og tíðum gerist, eins og við vitum hér, hv. þm., að þau leggja til ákveðnar lagabreytingar, sem við höfum oftast talið okkur næstum því skylt að veita fyrirgreiðslu hér á hv. Alþ.

Ég get ekki fallizt á þá skoðun hæstv. forsrh., að það sé óhjákvæmilegt út af þessum lagabreytingum að taka til endurskoðunar öll lög um sveitarstjórnarmál, eins og mér skildist á honum, að væri óhjákvæmilegt að gera. Þetta frv., sem hér er til umr., er eingöngu um að staðfesta það, sem er í raun og veru orðið til, og hér er um áfanga að ræða á langri leið, að ég vona, á þeirri leið, að samtök fólksins úti um land fái miklu meiri og beinni áhrif á sín mál heldur en verið hefur. Ég er því algerlega ósammála. því, að það þurfi nú að bíða eftir því, að þetta frv. fái hér afgreiðslu, það þurfi að bíða eftir heildarendurskoðun á öllum sveitarstjórnarmálum, enda er þar um svo flókið verkefni að ræða, að ég geri ráð fyrir því, að það verði hæði ár og dagur þangað til því verði öllu lokið, þeirri heildarendurskoðun, enda verður henni í eðli sínu aldrei lokið, þannig að þessi röksemd er algerlega, að mér finnst, út í bláinn, og ég verð að lýsa yfir undrun minni á því, að hæstv. ráðh. skuli viðhafa slíkar röksemdir í þessu máli.

Þá vil ég að lokum aðeins víkja að því, sem hæstv. ráðh. og hv. 2. landsk. komu hér inn á um Fjórðungssamband Norðlendinga. Ég vil þá fyrst þakka hv. 2. landsk. fyrir það, að hann lýsti mjög miklum stuðningi við mál þetta í heild og svaraði í rauninni ýmsum röksemdum hæstv. ráðh., að það yrði að athugast og bíða og því helzt vísað til ríkisstj., eins og hann lagði raunar til. Hv. 2. landsk. virtist ekki vera á þessari skoðun, kom með margvíslegar röksemdir fram gegn henni, og ég er algerlega sammála honum í þessu efni. Ég tel líka, að það sé alls ekki útilokað að kanna, hvort það sé eðlilegt, að það komi einhver heimildarákvæði um Fjórðungssamband Norðlendinga, vegna þess að Fjórðungssamband Norðlendinga, eins og hefur verið bent á, er dálítið sérstaks eðlis. Það kann að vera, að það sé hægt að koma hér inn brtt.. sem heimilar t. d. stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga að gera ákveðnar ráðstafanir í því efni, ef almennur vilji verður hjá sveitarstjórnarmönnum í Norðurl. v. í þessu efni. Það kann að vera. Ég vil líta svo á, að það sé fyrst og fremst mál heimamanna sjálfra, hvort þeir vilja vera í einu eða tveimur samtökum. Ég vil hins vegar benda á það, að aðdragandi stofnunar Fjórðungssambands Norðlendinga, var sá, að á sínum tíma, þegar var verið að vinna að svonefndri Norðurlandsáætlun, var unnið að því af sveitarstjórnarmönnum á öllu Norðurlandi að bindast samtökum. Raunar höfðu verið til samtök áður, sem kölluðust Fjórðungssamband Norðlendinga en það voru samtök, sem voru of laus í reipum, og niðurstaðan varð sú að breyta reglum þeirra verulega, og þá kom ekki fram nokkur einasta rödd um, að það væri eðlilegra, — mér er vel kunnugt um þetta, því að ég stóð í þessu mikið sjálfur, — það kom ekki fram nein rödd um, að það væri eðlilegra, að það væru tvö sambönd á Norðurlandi, og menn voru á einu máli um það, sem ég held, að allir eigi að sjá, ef þeir líta hlutlaust á málið, að Norðurland sé sterkara í einum samtökum, að á Norðurlandi sé veruleg sérstaða miðað við aðra landshluta. Vestfirðir eru landfræðilega afmarkaðir, Vesturland er landfræðilega afmarkað, Suðurland er landfræðilega afmarkað, Austurland er landfræðilega afmarkað sem kjördæmi. Allir þessir landshlutar eru landfræðilega afmarkaðir. Norðurland er hins vegar tvö kjördæmi, það er ljóst. Spurningin er sú, hvort Norðurland sem tvö kjördæmi og sem algerlega tvær samtakaheildir verður veikara eða sterkara heldur en ein heild. Þetta finnst mér vera kjarni málsins. Ég vil hins vegar, að það sé alveg ljóst, að það sé fólkið heima fyrir, sem ráði þessu. Það var það, sem kom þessum samtökum á fót, þau komust á fyrir frumkvæði fólksins í hinum ýmsu landshlutum, og ég lít þannig á, eins og kom fram hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, að það sé óþurftarverk, ef aðrir eru að reyna að skipta sér af því og hafa áhrif á að kljúfa þau samtök, sem fólkið heima fyrir hefur komið sér saman um að koma á fót til þess að vinna að sínum hagsmunamálum.

Ég vil í sambandi við þetta mál aðeins geta þess, að ég hef hér í höndum samþykkt stjórnar Fjórðungssambands Norðlendinga um þetta frv. Og hún hljóðar svo:

„Fjórðungsráð Norðlendinga leggur áherzlu á, að á þessu Alþ. verði sett lög um stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga. Fjórðungsráð getur eftir atvikum fallizt á frv. það, sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur falið fulltrúum allra þingflokka að flytja á Alþ. um stöðu landshlutasamtaka.“

Ég skal geta þess, að í þessu fjórðungsráði eru 9 menn, 4 frá Norðurl. v. og 5 frá Norðurl. e., því að formaður ráðsins er nú úr Norðurl. e., en verður á næsta ári úr Norðurl. v. Þannig gengur þetta milli ára. Þetta ráð samþykkir þessa till., sem hér kemur fram, þannig að það er ótvíræður vilji fjórðungsráðs, að þessi lög séu samþ. óbreytt. Hins vegar tel ég, og ég skal endurtaka það, að það sé rétt að athuga það og hraða því að athuga það, hvort hægt sé að setja þarna inn eitthvert ákvæði, sem geti tekið af öll tvímæli um, að það sé vilji löggjafans, að komist heimamenn á þá skoðun, að það eigi að breyta til um skipan á Norðurlandi, þá sé heimilt að gera það. Ég held, að það eigi að athuga slíka till. En hinu vísa ég gersamlega á bug, að þetta frv. þurfi að bíða eftir svo og svo miklum heildarathugunum á sviði sveitarstjórnarmála. Hér er um algerlega afmarkað mál að ræða, raunar um að ræða að staðfesta orðinn hlut, þannig að þessi samtök fái betri starfsgrundvöll til þess að vinna að þeim málum, sem þau þegar vinna að, og að þau geti sem sagt betur gegnt því hlutverki sínu að efla byggð úti um landið.