29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er tvímælalaust tímabært frv., og ég tek undir það með hv. 1. flm., að ég tel nauðsynlegt að afgreiða það á þessu Alþ. Frv. er í því formi, að mér sýnist, að það sé að mestu leyti staðfesting á því ástandi, sem þegar er staðreynd, þeirri skipun, sem komizt hefur á um landshlutasamtök sveitarfélaga víðs vegar um landið. Það hefur þegar verið skýrt hér af flm. þessa frv., hvers vegna nauðsyn er að lögfesta frv. þegar á þessu þingi, og skal ég ekki við það bæta öðru en því, að þar sem svo er komið, að vitnað er til þessara samtaka í löggjöf og í frv., sem liggja fyrir Alþ., þá sýnist óhjákvæmilegt að veita landshlutasamtökum stoð í lögum og að þau svífi ekki lengur í lausu lofti í stjórnkerfinu, svo sem verið hefur til þessa.

Það er ljóst, að enda þótt þetta frv. verði afgreitt, er ekki þar með lokið því starfi, sem þarf að inna af höndum til undirbúnings löggjöf um samtök sveitarfélaga og um skipan sveitarstjórnarmála í landinu. Að þessum atriðum hefur þegar verið nokkuð vikið, og vil ég fara örfáum orðum um það einnig.

Það var hér minnt á af hæstv. forsrh., að í stjórnarsáttmálanum er vikið að því, eins og þar segir, að endurskoða skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Ég lít svo á, að samþykkt þessa frv, sé nokkurt spor í þessa átt, og ég hlýt að harma það, að hæstv. forsrh. skyldi verða til þess að flytja hér slíkar úrtölur sem hann gerði um þetta mál og óska eftir því, að afgreiðslu þess yrði frestað og þeirri stöðu, sem landshlutasamtökunum er ætluð í lögum með þessu frv., verði frestað og látin bíða eftir heildarendurskoðun þessara mála. Það hefur nokkuð borið á því á undanförnum árum, að menn velta fyrir sér, hvort sýslunefndir séu þörf eining í stjórnkerfinu, eftir að landshlutasamtökin hafa komizt á laggir. Þessi hugsun hefur einkum verið ríkjandi í þeim héruðum, sem í eru kaupstaðir og strjálbýlissveitarfélög, og hygg ég, að þar sé orsakanna fyrst og fremst að leita til þess, að kaupstaðirnir hafa verið klofnir frá sýslunum og eiga ekki aðild að sýslunefndum. Hins vegar er sú skoðun mjög ríkjandi í þeim byggðarlögum, þar sem engir kaupstaðir eru, heldur einungis strjálbýlissveitarfélög og kauptúnahreppar, að þar séu þessar héraðsstjórnir nauðsynlegar. Ég lýsi því yfir, að ég tel, að það þurfi að athuga mjög vandlega, áður en horfið verði að því ráði að fella sýslunefndirnar niður og taka upp eitthvert annað form í staðinn. Aðra leið í því máli mætti hugsa sér að athuga gaumgæfilega, en hún er sú að veita kaupstöðunum að nýju einhvers konar aðild að héraðsstjórnunum og efla þar með héraðsstjórnirnar og fá þeim ný og aukin verkefni.

Eins og fram kom í máli hv. 11. landsk. þm., verður stjórnkerfið sí og æ viðameira og flóknara, umfang þess vex á alla kanta og það hefur leitt til þess á undanförnum missirum og undanförnum árum, að miðstjórnarvald hefur vaxið. Því er að mínu mati, ef hugur fylgir máli í tali stjórnmálamanna um það, að veita beri sveitarfélögunum aukið vald og að dreifa skuli valdinu, þá sé ástæða til þess að staldra við, áður en felldar eru niður stjórnunareiningar, sem gilda úti á landsbyggðinni. Miklu fremur væri þá ástæða til þess að hverfa að því að veita þessum stjórnunareiningum aukið vald og aukin verkefni.

Hæstv. forsrh. vitnaði í málefnasamning ríkisstj., en þar segir svo, með leyfi forseta: „Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun,“ þ. e. að auka sjálfsforræði byggðarlaga og endurskoða skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur, að „stefnt verði að því, að ríkisstofnunum verði valinn staður úti um land meira en nú er gert: Hæstv. forsrh. lýsti að sjálfsögðu, kann einhver að segja, fullum stuðningi sínum við þá skoðun, sem þarna er fram sett. Ég verð hins vegar að lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að mörg verk hæstv. ríkisstj. hafa fallið í þveröfuga átt við það, sem þarna er lýst, og má þá velta því fyrir sér, hvort hér sé um að ræða persónulegar skoðanir hæstv. forsrh, eða hvort ríkisstj. öll sé sömu skoðunar. Þessu til stuðnings vil ég minna á, að nokkur breyting varð á skipan verkefna og um leið tekjustofna á milli ríkis og sveitarfélaga við endurskoðun skattal. og tekjustofnal. á síðasta Alþ. Sú breyting, sem þar var gerð á þessum málum, var öll á þá lund að færa til ríkisvaldsins aukin verkefni, sem áður höfðu verið í umsjá sveitarfélaganna, og um leið vitaskuld að fella til ríkisins aukna tekjustofna, veita því aukið fjármagn og þar með aukið vald. — Það, sem þarna var gert, gekk gersamlega í berhögg við þau orð, sem hæstv. forsrh. lét falla hér áðan, og gekk einnig í berhögg við það. sem lýst er sem stefnu þessarar ríkisstj. í málefnasamningnum. Ég tel, að það sé tímabært að taka þessi mál að nýju til gaumgæfilegrar íhugunar á þann veg að láta það verða meira en orðin tóm að fela sveitarfélögunum og samtökum þeirra í mjög auknum mæli aukin viðfangsefni og þar með aukið vald og að sjálfsögðu tekjustofna í samræmi við það til þess að annast þessi verkefni.

Það má einnig minna á það í sambandi við tal hæstv. forsrh. um þá stefnu sína og stefnu ríkisstj, að hafa samráð við sveitarfélögin og samtök þeirra í landinu, að við Norðlendingar höfum ekki orðið fyrir þeirri reynslu, að þetta hafi sannazt á þeim tíma, sem liðinn er, síðan þessi ríkisstj. var mynduð, t. d. í sambandi við raforkumál. En þar hafa allar óskir, allar till. og allar samþykktir sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi verið gersamlega sniðgengnar og gjarnan breytt þveröfugt við það, sem óskað hefur verið eftir. Ég vil vænta þess, úr því að hæstv. forsrh. sá ástæðu til þess að árétta þessa stefnu sína, væntanlega fyrir hönd hæstv. ríkisstj., að nú verði breytt um stefnu í framhaldi af þessum ummælum hans og ríkisstj. taki upp þá nýbreytni að virða nokkuð þær óskir, sem berast frá sveitarstjórnunum víðs vegar um land.

Um frv. að öðru leyti en hér hefur verið rætt skal ég ekki tala langt mál. Eins og ég hef þegar lýst, er það að mínu mati fyrst og fremst staðfesting á gildandi ástandi í þessum efnum, — staðfesting, sem er nauðsynlegt að lögleiða til þess að veita þessum samtökum lagalegan grundvöll.

Um það atriði, sem hér hefur borið nokkuð á góma, hvort Fjórðungssamband Norðlendinga skuli starfa áfram á sama grundvelli og það hefur gert hingað til eða hvort breyta skuli frv. í þá átt, að það verði gert ráð fyrir tveimur landshlutasamtökum á Norðurlandi, sem miðast við kjördæmi, vil ég aðeins segja þetta: Fjórðungssamband Norðlendinga er byggt upp af sveitarstjórnarmönnum í Norðlendingafjórðungi, svo sem gerzt hefur um önnur samtök sveitarfélaga í landinu. Ég lít svo á, að hvort það starfar áfram í sama formi og nú eða breyting verði þar á, sé mál sveitarstjórnanna sjálfra. Ég tel, að það sé ekki tímabært á þessu stigi, að Alþ, grípi þar inn í, án þess að það sé ljóst, hver vilji sveitarstjórnarmanna er í þessum efnum. Hins vegar felli ég mig mjög vel við þá till., sem fram kom hjá 1. flm. frv., að það sé a. m. k. mjög athugandi að fella inn í frv. einhvers konar heimildarákvæði, sem opni leiðina til þess, að unnt verði að taka þarna upp aðra skipan, sem sé þá, að það verði tvö landshlutasamtök á Norðurlandi, ef það sannanlega er vilji heimamanna sjálfra. En ég lít svo á, að Alþ. eigi ekki að öðru leyti að grípa þarna inn í, nema þetta sé algerlega ljóst.

Hv. 1. flm. þessa frv., hv. 5. þm. Norðurl, e., vitnaði hér m. a. til samþykktar Fjórðungsráðs Norðlendinga frá 16. marz s. l., þar sem það lýsir einróma yfir stuðningi sínum við þetta frv. og lætur í ljós sterkar óskir um, að það nái fram að ganga á yfirstandandi Alþ. Ég vil benda á, að eftir því sem ég bezt veit, er einn af þeim mönnum, sem sæti eiga í fjórðungsráði Norðlendinga, jafnframt í bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar. Hvort afstaða þessa manns hafi breytzt á milli þessara tveggja samþykkta, sem hér hefur verið vitnað til, veit ég ekki, en ef hér er rangt munað hjá mér, hverjir eigi sæti í fjórðungsráði á þessu ári, þá er nægur tími til að leiðrétta það síðar, og skal ekki frekar um þetta fullyrt að sinni.

Ég sem sagt legg á það áherzlu, að það verði ekki með lögum skipað uppbyggingu Fjórðungssambands Norðlendinga, án þess að það sé víst, hver er vilji sveitarstjórnarmannanna sjálfra. Og af þeirri skoðun minni leiðir, að ég get ekki tekið undir þá staðhæfingu hæstv. forsrh., sem hann lét falla hér í ræðu sinni áðan, að það sé sjaldan heppilegt að selja sjálfdæmi um setningu laga til þeirra, er eiga löggjafarinnar að njóta. Ég tel, að sveitarstjórnarmenn, bæði á Norðurlandi og víðs vegar um land, þeir sem undirbúið hafa þetta frv., hafi verið til þess fullfærir og svo muni þessum málum bezt skipað, að þeirra sjónarmið séu ekki sniðgengin.