30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

48. mál, fiskiðnskóli í Siglufirði

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Á yfirstandandi þingi hafa verið fluttar tvær þáltill. um stofnun nýrra fiskiðnskóla, bæði í Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Einhverra hluta vegna hefur þessum till. verið vísað sinni til hvorrar n. Till. um fiskvinnsluskóla í Siglufirði fór til allshn., en till. um fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum fór til fjvn. Fjvn. sendi þessa till. til umsagnar flestra hinna sömu aðila og allshn. gerði varðandi skólann í Siglufirði, en þar að auki sendi fjvn. till. um Vestmannaeyjaskólann til umsagnar Fiskvinnsluskólans, sem hér starfar í Reykjavík, og ég held, að rétt sé, að sú umsögn komi hér fram, hún er stutt og er svo hljóðandi:

„Kennsla í Fiskvinnsluskólanum hófst í fyrsta skipti þann 1. nóv. 1971. Þá innrituðust 30 nemendur, og af þeim eru nú 25 enn við nám í skólanum. 11 nýir nemendur innrituðust síðasta haust. Skólinn er til húsa í bráðabirgðahúsnæði í húsakynnum Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4. Inntökuskilyrði í skólann er landspróf miðskóla. Enn fremur heimila lögin um skólann, að nemendur, sem staðizt hafa próf á matvælakjörsviði framhaldsdeildar gagnfræðaskólanna, öðlist rétt til inngöngu í fiskiðndeild skólans, 2. bekk. Enn hefur þó ekki verið stofnað til matvælakjörsviðs við framhaldsdeildirnar.

Fiskvinnsluskólinn er enn í mótun, og haun verður það næstu árin. Vér álítum því, að óæskilegt sé að stofna fleiri en einn fiskvinnsluskóla í bráð. Öllu heldur ætti að stofna til matvælakjörsviðs við ýmsa gagnfræðaskóla um landið, sem kæmi þá í stað undirbúningsdeildar Fiskvinnsluskólans, eins og hún er nú rekin, og sem jafnframt veitti undirbúning undir fjölmörg störf í meginatvinnuvegum þjóðarinnar.“

Mér þykir þáltill. sú, sem hér liggur fyrir um stofnun fiskiðnskóla í Siglufirði, vera orðuð á of bindandi hátt, þ. e. a. s. að fortakslaust skuli hefja undirbúning að stofnun skólans, og tel rétt, með hliðsjón m. a. af umsögn forstöðumanna Fiskvinnsluskólans í Reykjavík, að áður en hafizt er handa um beinan undirbúning, fari fram könnun á því, hver grundvöllur er fyrir hendi til starfrækslu skólans. Ég álít það vera jákvæðara fyrir málið í heild og meiri líkur til þess, að fyrr verði hafizt handa um að framkvæma þáltill., ef hún verður orðuð eins og ég hef lagt til.