30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

48. mál, fiskiðnskóli í Siglufirði

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla með samþykkt þessarar þáltill. eins og n. leggur til. Ég held, að það geti engum kunnugum dulizt, að það er grundvöllur fyrir hendi á Siglufirði fyrir stofnun og rekstur fiskiðnskóla. Þar er húsnæði fyrir hendi fyrir skólann, heimavistarhúsnæði. Þar stendur til að byggja upp mjög fullkomið frystihús og fiskvinnslustöð. Þar er niðurlagningarverksmiðja. Og það hefur í raun og veru verið svo lengi, að á Siglufirði hefur verið stunduð óvenjulega mikil útgerð og þar hefur farið fram mjög margbreytileg verkun á fiskafurðum, þannig að ég hygg, að það séu óvenjulega góð skilyrði fyrir starfrækslu fiskiðnskóla á Siglufirði.

Þetta mál er í sjálfu sér ekki nýtt af nálinni að því leyti til, að það hefur lengi verið í undirbúningi og til umr. á Siglufirði, og þar eru menn, sem hafa kynnt sér þetta mál og eru miklir áhugamenn um það. Það er raunar talsvert langt — ég held ein 2-3 ár — síðan ég ásamt fleirum flutti hér á Alþ. þáltill. um fiskvinnslunámskeið eða fiskvinnsluskóla á Siglufirði þannig að mál þetta er ekki nýtt.

Ég vek athygli á, að þeir aðilar, sem hafa fengið málið til umsagnar, Samband ísl. sveitarfélaga, Fjórðungssamband Norðlendinga, Fiskifélag Íslands og Fiskmat ríkisins, leggja allir til, að till. verði samþ.

Ég vil ekki hafa önnur orð um það álit, sem hv. síðasti ræðumaður las hér upp, frá þeim fiskvinnsluskóla, sem fyrir hendi er, en að mér þykir það einkennilegt viðhorf, sem þar kemur fram.