02.04.1973
Efri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

216. mál, veiting prestakalla

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson): Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir að hafa orðið við ósk minni um að flytja málið inn í þing að þessu sinni. Ég geri ekki ráð fyrir, að það gefist tími til að afgreiða þetta mál á þessu þingi, þar sem það er ekki lagt fram fyrr en þetta. Ég held hins vegar, að það sé mjög æskilegt, að það geti farið fram umr. um þetta mál á hv. Alþ., að það geti orðið athugað í þingflokkum og að sú n., sem hefur nú flutt það, geti tekið það til athugunar á milli umr. og rætt það. Þetta er mál, sem er talsvert á dagskrá um þessar mundir og hefur verið raunar á dagskrá að undanförnu. En eins og hv. formaður menntmn. gat um, er þetta ekki fyrsta sinn, sem þetta mál kemur til kasta Alþ. Þó að það hafi að vísu verið gerðar á því örlitlar breytingar frá því, sem áður var, þá er þetta í þriðja sinn, sem þetta mál kemur í þessu svipaða formi fyrir Alþ. Og þetta er í þriðja sinn, sem Kirkjuþing hefur fjallað um þetta mál. Í öll skiptin á Kirkjuþingi hefur verið samþykkt að taka upp í aðalatriðum það skipulag, sem hér er um að tefla. Það virðist svo sem þróunin gangi í þá átt, að þessari skipan hafi verið smám saman að vaxa fylgi á Kirkjuþingi, vegna þess að fyrst þegar það kom til kasta Kirkjuþings, 1962, að ég ætla, þá var það samþ. með 10:5 atkv. Næsta skiptið var það samþ. með 10:4 atkv. En núna í vetur var það samþ. á Kirkjuþingi að kalla einróma eða með 14:1 atkv. Og ég hygg, að prestastefna eða prestastefnur hafi fjallað um þetta mál og þrátt fyrir skiptar skoðanir hafi eindreginn meiri hl. þar verið þeirrar skoðunar, að taka ætti upp svipaða skipan og þá, sem hér er gert ráð fyrir, eða fyrirkomulag, sem henni væri líkt.

Hv. frsm. menntmn. gerði hér áðan grein fyrir í höfuðatriðum, hvernig þessi mál eða tilhögun þeirra er hugsuð, sem sé að það gæti verið lagt á vald sóknarnefnda og safnaðarfulltrúa að kalla prest, sem kallað er, án þess að nokkur kosning fari fram, en til þess að það geti átt sér stað, þurfa 3/4 þeirra að vera sammála. Ákveðið er hins vegar, að ef kosning fari fram og 2/3 kjörmanna greiði einum manni atkv., þá er hann löglega kosinn. En það má segja, að ef þessu er ekki til að dreifa, þá gildi svipað fyrirkomulag og nú er, ef ekki hefur náðst lögmæt kosning, þá sé það biskup, sem geri till. um það, hver skuli skipaður prestur, og kirkjumrh., sem skipar hann.

Ég held, að það fari ekki á milli mála, að hjá prestastéttinni og hjá guðfræðinemum, þ. e. a. s. hinum væntanlegu prestsefnum, er eindreginn vilji í þá átt, að horfið sé frá prestskosningum í þeirri mynd, sem þær eru nú. Hjá söfnuðum eru sjálfsagt skiptar skoðanir um þetta, eða svo hefur verið til þessa. Sumir hafa viljað halda í prestskosningar, en aðrir hafa séð ýmsa agnúa á þeim og talið, að þær bæri að leggja niður. Ég álít, að það sé mjög almenn skoðun, að það þurfi að breyta til frá því, sem verið hefur, og ég er þeirrar skoðunar, að prestskosningar, eins og þær hafa verið, þurfi breytinga við og það sé ekki ástæða til að halda í núverandi fyrirkomulag. Það má í fyrsta lagi benda á, að það er dálítið einkennilegt, að það skuli gilda önnur regla um þessa embættismenn ríkisins heldur en alla aðra. Það er ekki svo, að aðrir embættismenn ríkisins séu kosnir. Það gæti verið álitamál og auðvitað til athugunar að taka upp þá skipan, en á meðan það er ekki gert, má segja, að þetta sé afbrigði frá því venjulega, að prestar séu kosnir, og þá er spurning, hvort það séu sérstök rök fyrir því. Auðvitað hafa menn heyrt mörg rök færð fyrir því. Það er sagt, að það sé miklu persónulegra samband á milli safnaðar og prests heldur en á milli embættismanna almennt og þeirra, sem þeir eiga að veita þjónustu. Það er vafalaust nokkuð til í þessu. En þó held ég fyrir mitt leyti, að þetta séu ekki afgerandi rök, vegna þess að það má segja, að það sé líka mikið trúnaðarsamband og þurfi að vera mikið trúnaðarsamband á milli ýmissa annarra embættismanna og þess fólks. sem embættismaðurinn á að veita þjónustu. Ég hygg t. d., að það megi segja, að það skipti æði miklu máli um lækni, hvort hann nýtur trausts íbúanna í læknishéraðinu eða ekki, en það hafa ekki komið fram neinar till. um, að það ætti að kjósa lækni. Þetta er sem sagt, eins og það er orðið, alger undantekning frá því, sem tíðkast um aðra embættismenn, og ég efast stórlega um, að hægt sé að færa rök að því, að prestar hafi þá sérstöðu, að það sé rétt að láta kosningu gilda um þá eina. Það er sagt, að þetta sé lýðræði. að veita söfnuðinum kost á að kjósa prest. Það má segja, að það væri lýðræði að leyfa mönnum að kjósa almennt sína embættismenn. En það er samt mjög takmarkað lýðræði, eins og það birtist í prestskosningum og eins og það mundi birtast í öðrum kosningum, ef embættismanninn ætti að kjósa ævilangt. En það er einmitt það, sem gert er, þegar um prestskosningar er að tefla. Maðurinn er kosinn í eitt skipti fyrir öll, og síðan getur hann setið og situr þangað til hámarksaldri er náð, og safnaðarmenn hafa engin sérstök áhrif á það og enga aðstöðu til þess að óska eftir öðrum presti. Ég held, að ef menn vilja tala um verulegt lýðræði í sambandi við skipun presta eða embættismanna, þá þurfi að tengja það þannig saman, að kjörtíminn sé bundinn ákveðnu tímabili, eins og er venjulega, þegar um kosningar er að tefla, eins og er t. d. á um Alþ. og sveitarstjórnir. En í prestskosningum er ekki um slíkt að tefla.

Það eru færðir fram ýmsir agnúar á prestskosningunum, að þær hafi í för með sér flokkadrætti og kostnað fyrir prestsefnið og það grói kannske seint yfir þá flokkadrætti. Reyndar hygg ég fyrir mitt leyti, að það sé ekki of mikið leggjandi upp úr þessu. Ég held, að hitt sé miklu meira atriði, sem liggur ljóst fyrir og kemur fram í þeirri skýrslu, sem fylgir með þessu frv., að prestskosningar fara í langflestum tilfellum alls ekki fram, ekki það, sem hægt er að kalla raunverulegar kosningar. Eins og er greint frá í fskj. með frv., er svo í langsamlega flestum tilfellum, að umsækjandinn er aðeins einn, og má reyndar stundum þykja gott, ef það er nokkur umsækjandi, en í langsamlega flestum tilfellum er það svo utan Reykjavíkur og helztu þéttbýlisstaða, að á undanförnum 8 árum hefur, eins og þessi skýrsla ber með sér, umsækjandi verið aðeins einn. Samkv. bókstafnum fer fram kosning, þó að umsækjandi sé aðeins einn. Í sumum tilfellum hefur það að vísu leitt til þess, að kosningin er lögmæt. Það er fullnægt þeim skilyrðum um þátttöku í kosningunni og um atkvæðafjölda með þessum eina og hann er kosinn löglegri kosningu, og má náttúrlega segja, að það sýni, að hann eigi þar verulegu fylgi að fagna. En ég hygg þó, að hitt sé miklu oftar, að kosningin sé ólögmæt. Þá er það alveg föst og viðtekin regla, sem ég held, að sé alveg afbrigðalaus, að hann er skipaður prestur allt að einu, hve fá atkv. sem hann hefur fengið, þessi frambjóðandi, sem þarna hefur verið í boði. Ég held því, að það, sem megi kannske fyrst og fremst færa fram orðið gegn prestskosningum fyrir utan það, að þær eru undantekning og afbrigði frá því, sem venjulegt er, sé það, að þær eru ekki virkar nema á örfáum stöðum og hafa ekki verið að undanförnu og hafa í langflestum tilfellum þar af leiðandi farið fram meir til málamynda heldur en það sé um að ræða eiginlega prestskosningu.

Eins og ég sagði áðan, held ég fyrir mitt leyti, að það sé tímabært að hverfa frá prestskosningum í þeirri mynd, sem þær hafa verið. En þegar því er játað, er aftur á móti spurning um það, hvaða reglu eigi að taka upp. Með þessu frv. er farin eins konar millileið. En auðvitað getur komið til álita, hvort það sé ekki allt eins eðlilegt að láta alveg sömu reglu gilda um veitingu prestsembætta og annarra embætta. En ég veit, að gegn því er þeim mótmælum hreyft, að þá séu söfnuðirnir með öllu sviptir möguleikum til þess að hafa áhrif á það, hver verður þeirra prestur. En með þessum hætti, með þessari millileið, sem hér er um að tefla, má segja, að þeir kjörnu fulltrúar safnaðarins, sem eiga sérstaklega að fara með málefni hans, fái aðstöðu til þess að hafa áhrif á þetta og ráða því, ef þeir vilja. Með þessu er því sporið stigið að nokkru leyti til hálfs. Ég fyrir mitt leyti get fallizt á þessa skipan með tilliti til þess fylgis, sem hún virðist hafa hjá prestastéttinni og guðfræðinemum, sem ég hef sérstaklega kynnt mér. En ég verð að segja það, að persónulega hefði ég talið allt eins hreinlegt að stíga skrefið til fulls og hef reyndar ekki getað sannfærzt um, að það séu rök til þess að láta aðrar reglur gilda um presta í þessu efni heldur en um aðra embættismenn. því að þetta eru embættismenn ríkisins, prestar þjóðkirkjunnar. En þetta er eitt þeirra mála, sem mönnum hefur gengið illa að koma sér saman um, og ég geri ráð fyrir því, að eins og áður séu um þetta skiptar skoðanir á Alþ.

Ég held, að þó að frv. verði ekki afgr. á þessu þingi, sé mjög æskilegt að fá fram skoðanir hv. alþm. um þetta mál, þannig að það geti verið nokkur leiðarvísir um það. hvernig skynsamlegast sé að haga framhaldi málsins, og þess vegna væri það mjög gott, ef hv. Ed. menn einmitt vildu láta í ljós álit sitt á þessu efni. Það má segja, að það sé líka gott, að málið sé lagt fram nú. Þótt það hljóti ekki afgreiðslu, vegna þess að það gefur þá svigrúm til þess milli þinga að kynna það og leita álits safnaða á því, eða a. m. k. geta söfnuðir þá fengið tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á því, ef þeir hafa áhuga á.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa orð þessi fleiri. en vil undirstrika, að mér er vel kunnugt um það, að þetta er sérstakt áhugamál biskups, presta, flestra að ég hygg, og guðfræðinema. að ég hygg allra, sem nú eru í guðfræðideild. Hjá þeim hef ég verið á fundi um þetta mál, og það kom fram alveg eindreginn vilji í þá átt, að prestkosningar yrðu afnumdar og mikið ógeð hjá hinum ungu mönnum á því að þurfa að byrja feril sinn með því að leggja út í prestkosningar, sem að vísu eru kannske ekki eins óttalegar og menn gera ráð fyrir, þegar þeir athuga þessa skýrslu nánar, sem hér liggur fyrir og sýnir, að í langflestum tilfellum er aðeins um einn mann að ræða, sem býður sig fram til prestsembættis.

En hitt er vafalaust, að þótt það sé eindreginn vilji hjá þessum aðilum og beri að taka mikið tillit til þess, þá er það svo, að þeir, sem þjónustunnar eiga að njóta, söfnuðirnir, eiga auðvitað sinn rétt í þessu, og það er skylt og sjálfsagt að taka líka tillit til þess, sem frá þeim kemur um þetta efni.