31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

271. mál, verðtrygging iðnrekstrarlána

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. um framkvæmd laga um veðtryggingu iðnrekstrarlána: „Hvenær má gera ráð fyrir, að til framkvæmda komi l. nr. 47/1972, um veðtrygggingu iðnrekstrarlána, þ.e. að lánað verði út á hráefni til iðnaðar, iðnaðarvörur í vinnslu og fullunnar iðnaðarvörur“?

Hinn 13. maí s.l. voru samþykkt lög hér á hv. Alþ. um veðtryggingu iðnrekstrarlána. Í 1. gr. þessara laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnfyrirtækjum er heimilt að setja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði hráefni, vörur í vinnslu og fullunnar, sem veðsali á eða eignast kann á tilteknu tímabili, allt að einu ári í senn“.

Nú er mér kunnugt um, að ýmsir iðnrekendur eru farnir að bíða nokkuð eftir því, hvort settar verða sérstakar reglur samkvæmt þessum lögum. Sérstaklega finnst mér ástæða til að minna á þetta nú, þar sem í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. mun hafa verið rætt um stóraukna aðstoð við iðnaðinn. Ég var þessum lögum samþykktur á sínum tíma, og ég álít, að þessi lög, ef framkvæmd verða, séu einhver hin mesta aðstoð og kannske einhver sú alþýðingarmesta, sem hægt er að gera fyrir iðnaðinn nú. Þess vegna tel ég réttmætt að beina þeirri fsp. til hæstv. viðskrh., hvort og hvenær þessar reglur muni koma og með hvaða hætti.