02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2939 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

220. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Fram til ársins 1962 höfðu opinberir starfsmenn ekki samningsrétt. Alþ. ákvað með launalögum launakjör starfsmanna ríkisins. 1962 voru sett lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og fengu starfsmenn ríkisins þá í fyrsta sinn viðurkenndan samningsrétt. Þessi lög eru í gildi og hafa verið í rúman áratug. Í þessum lögum var svo ákveðið, að næðust ekki samningar milli ríkisins og hinna opinberu starfsmanna, skyldi sáttasemjari leita um sættir og tækjust þær ekki, skyldi kjaradómur skera úr. Kjaradómur er skipaður þannig, að 3 dómendur eru tilnefndir af hæstarétti og einn frá hvorum aðila, fjmrh. og bandalagi opinberra starfsmanna.

Lög frá 1915 um bann við verkfalli opinberra starfsmanna voru látin haldast og eru enn í gildi.

Í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. frá 14. júlí 1971 segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. vill, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt um kjör sín, enda hverfi þá öll sjálfvirk tengsl á milli launasamninga þeirra og annars launafólks:

Fyrir rösku ári skipaði hæstv. fjmrh. n. manna, eins og hann hefur greint frá og getur um í grg. þessa frv., til þess að endurskoða lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, lög um kjarasamninga og lög um bann við verkföllum. Í skipunarbréfi n. var bent á þetta ákvæði í málefnasamningnum. Var tekið fram af einstökum nm., að í starfi sínu í n. teldu þeir sig ekki bundna af þessu atriði málefna. samningsins.

Það eru 3 meginatriði, sem þessi n. átti um að fjalla. Eitt er endurskoðun á l. frá 1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Að því er þau lög snertir, hóf fyrrv. ríkisstj. endurskoðun á þeim og var frv. um það efni lagt fyrir Alþ. 1970. Það frv. náði ekki fram að ganga. Um þetta efni, endurskoðun l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, hefur þessi n., sem hæstv. fjmrh. skipaði fyrir ári, ekki fjallað neitt að ráði. Það verkefni er eftir. Um verkfallsréttinn hefur n. að sjálfsögðu nokkuð rætt sem og það meginatriði, sem þetta frv. fjallar um, hver skuli vera samningsaðili gagnvart ríkinu af hálfu opinberra starfsmanna.

Þess var óskað í n., að hæstv. ríkisstj. skýrði það nokkru nánar, hvað þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum þýddi, því að menn voru ekki á einu máli um það, hvernig bæri að skýra það eða túlka. Nú höfðu opinberir starfsmenn fengið samningsrétt 1962. Menn vildu fá skýringu á því, hvað væri átt við með „fullum samningsrétti“ og hvað væri átt við með „sjálfvirkum tengslum“ milli launasamninga opinberra starfsmanna og annars launafólks, sem ættu að falla niður. Það hefur ekki tekizt enn að fá skýringar frá hæstv. ríkisstj. á þessu ákvæði sáttmálans.

Opinberir starfsmenn njóta m. a. þess réttar, sem margir þeirra leggja mikla áherzlu á að haldist, að maður, sem skipaður hefur verið í opinbert starf, eigi rétt á að halda því starfi til aldurshámarks, nema hann brjóti af sér í starfinu, svo að rétt þyki að víkja honum úr því. Þetta er stundum kallað æviráðning. Það kom fram, bæði í ríkisstj. og innan stjórnarflokkanna, að skoðanir eru allskiptar um það, hvert beri að stefna í þessu efni, hvort eigi að veita opinberum starfsmönnum verkfallsrétt, eins og þeir hafa, sem falla undir l. um stéttarfélög og vinnudeilur, hvort eigi að veita fullan verkfallsrétt eða takmarkaðan verkfallsrétt. En það hefur einnig komið í ljós, að innan stjórnarflokkanna eru m. a. þær skoðanir uppi, að opinberir starfsmenn eigi að vísu að fá verkfallsrétt, en þá verði þeir að sleppa hinni svokölluðu æviráðningu, þeirri tryggingu, sem opinberir starfsmenn hafa lagt svo mikið upp úr. Þegar samtök opinberra starfsmanna hafa verið spurð, hafa þau lýst því yfir, að þau mundu ekki vilja kaupa verkfallsrétt því verði að sleppa æviráðningunni. Ég get þessa hér til þess að skýra nokkuð þetta mál, því að ein af ástæðunum til þess, að n. hefur ekki fjallað ýkja mikið um hinn svokallaða verkfallsrétt, er sú, að það hefur ekki verið ljóst og er ekki ljóst enn í dag, hvað hæstv. ríkisstj. vill sjálf í þeim efnum.

Varðandi þriðja atriðið, sjálfa samningsaðildina, er það svo samkv. gildandi l. frá 1962, að samningsaðili fyrir hönd opinberra starfsmanna er Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og það er sá aðili einn, sem ríkissjóður eða fjmrh. hefur hingað til samið við. Nú hafa um allmörg ár verið uppi ákveðnar óskir frá Bandalagi háskólamanna um, að það bandalag yrði einnig viðurkennt sem samningsaðili. Þetta atriði hefur verið eitt aðalverkefni þeirrar n., sem skipuð var af hæstv. fjmrh. Niðurstaðan hefur orðið sú, sem greinir í þessu frv., að gera þá breytingu á gildandi l., að í stað þess, að samningsaðilinn sé einn, BSRB, þá séu þeir tveir, BSRB og Bandalag háskólamanna, þótt ekki sé þetta berum orðum tekið fram í frv. Í 3. gr. frv. segir, að heildarsamtök starfsmanna ríkisins, sem fjmrh. hefur veitt viðurkenningu, fari með fyrirsvar ríkisstarfsmanna um gerð aðalkjarasamninga og aðrar ákvarðanir í því sambandi. Það þótti ekki ástæða til að nefna þessi bandalög tvö í sjálfum 1., en það er öllum ljóst, að þetta liggur á bak við. Hins vegar kom í ljós, að vissir aðilar og þá fyrst og fremst læknasamtökin sóttu það fast, að heimild væri til þess, að þau gætu átt sjálfstæða samningsaðild. Eftir miklar umr. í n. hefur niðurstaðan orðið sú, að málið sé leyst á þann veg, að fjmrh. sé heimilt að veita Læknafélagi Íslands að beiðni hlutaðeigandi heildarsamtaka, rétt til að fara með kjarasamninga fyrir félagsmenn sína, eins og greinir í 3. gr. frv., 4. mgr.

Ég vildi hér við 1. umr. málsins láta þetta koma í ljós. N. hefur enn ekki fjallað um það verkefni að endurskoða l. frá 1954, um réttindi og skyldur. Þetta frv. er fyrst og fremst borið fram til þess að opna möguleika til, að samningsaðilar séu þessi tvenn heildarsamtök, með heimild til að veita Læknafélagi Íslands samningsaðild. Í samræmi við þetta þurfti að gera ýmsar lagabreytingar aðrar varðandi meðferð málsins.

Spurningin um verkfallsrétt eða ekki verkfallsrétt hefur ekki verið afgreidd í n., og liggur ekkert fyrir um það hér. Ég vil sérstaklega taka það fram, til þess að hv. alþm. sé það ljóst, að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að breyta gildandi l. að þessu leyti. Lög þau, sem eru í gildi um bann gegn verkfalli, haldast óbreytt áfram þrátt fyrir þetta frv. Það þýðir einnig, að um þá kjarasamninga, sem eiga að taka gildi um næstu áramót, og nú á að hefja umræður um, gildir í meginatriðum hið sama og gilt hefur undanfarinn áratug, þ. e.: samningsréttur fyrir opinbera starfsmenn, heildaraðilarnir eru tveir; ef samkomulag næst ekki, skal vísa málinu til sáttasemjara; takist ekki samkomulag þrátt fyrir það, fer málið til kjaradóms og verður úrskurðað af honum. Í sambandi við þá samninga, sem nú hefjast milli ríkisins og opinberra starfsmanna, kemur verkfallsréttur ekki til greina.

Hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir hér, að hann ætlist til þess, að n. starfi áfram að athugun á þessum atriðum, sem hún hefur ekki fjallað um að neinu ráði og ekki tekið afstöðu til. Ég geri ráð fyrir því, að nm. hafi ekkert við það að athuga að halda áfram störfum við þau verkefni, þó að óneitanlega hafi verið og verði væntanlega nokkuð erfitt fyrir ýmsa að stauta að því máli, meðan með öllu er óljóst, hvað átt er við með þessu ákvæði málefnasamningsins. Að vísu skal ég taka það fram, að fyrir mig sem nm. skiptir það ekki ýkjamiklu máli, vegna þess að ég tók fram í upphafi, þegar ég tók sæti í n., að ég teldi mig á engan hátt bundinn af því, sem ríkisstj. hefði lýst yfir í málefnasamningi sínum. Það er hennar mál og hennar manna.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég styð þetta frv. og tel æskilegt, að það verði afgreitt hið fyrsta frá Alþ., til þess að þeir samningar, sem eiga að taka gildi frá næstu áramótum, geti hafizt sem fyrst.