31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

271. mál, verðtrygging iðnrekstrarlána

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er um það, hvenær megi gera ráð fyrir, að til framkvæmda komi I. nr. 47/1972, um veðtryggingu iðnrekstrarlána, en þau lög voru samþykkt hér á síðasta þingi.

Það hefur verið unnið að því undanfarið í Seðlabankanum að setja reglur um endurkaup Seðlabankans á framleiðslulánum iðnaðarins. Drög hafa verið samin í þessum efnum og þau hafa verið borin undir iðnrn, og forsvarsmenn iðnaðarins í landinu, sem fallast á þessi drög í öllum meginatriðum. Þeir telja rétt, að þetta verði fyrsta skrefið og síðan verði reynslan að skera úr um það, hvaða breytingar þurfi á þessu að gera í framkvæmd, en hér er um býsna samanslungin og flókin mál að ræða. Nú er unnið að því þessa daga af hálfu Seðlabankans að ná samkomulagi við viðskiptabankana um framkvæmd þessa máls. Það er sem sé búizt við því, að framkvæmd samkvæmt þessum lögum geti hafizt ná næstu daga. Það eru þær upplýsingar, sem ég hef fengið frá Seðlabankanum, sem hefur haft með málið að gera.

Það er enginn vafi á því, að það er rétt, sem hv. þm. sagði hér, að þau lög, sem voru sett á síðasta Alþingi varðandi þetta mál. geta haft mikla þýðingu fyrir íslenzkan iðnað, eftir því að sjálfsögðu, hvernig tekst til með framkvæmd þeirra. Það er nú gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut, að iðnaðurinn búi við jafnréttisaðstöðu við aðra atvinnuvegi varðandi lán út á sína framleiðslu, þar sem t.d. enginn vafi leiki á því, að öll sú framleiðsla, sem gengur til útflutnings, falli undir nákvæmlega sams konar lánareglur og þar með endurkaupareglur og á sér stað hjá sjávarútveginum. En auk þess komi svo einnig lán eftir þar til settum reglum út á aðra framleiðslu iðnaðarins. — Þess er sem sé að vænta, að framkvæmd í þessum efnum geti hafizt nú innan skamms.