02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2942 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

201. mál, happdrætti Háskóla Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta mál er á sinn hátt sama eðlis og það mál, sem ég mælti hér fyrir síðast. Það felur í sér framlengingu á happdrættisleyfi háskólans um 15 ár. Það var flutt í hv. Ed. og lagt þar fram eins og það kom frá rektor Háskóla Íslands, en það var flutt samkv. beiðni hans. En eftir ábendingu frá rn. voru gerðar nokkrar breytingar á frv. í Ed. Um þær breytingar var enginn ágreiningur. Það eru yfirleitt breytingar tæknilegs eðlis eða sem eðlilegt þótti, að kæmu inn í frv. Það er raunar ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða í þessu frv. frá þeim l., sem gilt hafa um happdrættið, nema miðafjölda var eitthvað fækkað, vegna þess að ástæður þóttu ekki til að halda í þá heimild, sem áður var, að fenginni reynslu. Annars eru breytingarnar, sem gerðar voru í Ed., eins og ég sagði, ekki stórvægilegar eins og t. d. á heitinu. Heitinu var breytt í samræmi við það, sem eðlilegt er orðið, þannig að það heiti Happdrætti Háskóla Íslands, en ekki eins og lögin hafa heitið hingað til: Lög um stofnun happdrættis fyrir Ísland.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjárh: og viðskn.