02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

218. mál, breyting á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir hv. Nd., er samið samkv. ósk Alþ., er samþykkti hinn 24. febr. 1972 þál. um að skora á ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum. Að samningu þessa frv. hafa unnið dómsmrn. og félmrn. í sameiningu, og þau rn. eru sammála um það form, sem valdið er með frv. þessu til úrlausnar á því efni, sem þál. fjallar um, að dóms- og lögreglumál á svæðinu sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar heyri til einu embætti, Keflavík. — Frv. ráðgerir, að bæjarfógetinn í Keflavík verði jafnframt sýslumaður í Gullbringusýslu og taki þannig við allri málameðferð þar, sem nú fellur undir bæjarfógeta- og sýslumannsembættið í Hafnarfirði. En jafnframt breytast mörk Gullbringu- og Kjósarsýslu þannig, að hrepparnir norðan Hafnarfjarðar, sem heyrt hafa til Gullbringusýslu, Garðahreppur og Bessastaðahreppur, flytjist í Kjósarsýslu.

Þess skal getið, að sýslufundur Gullbringusýslu hinn 28. júlí s. l. mælti með þessari breytingu og allir hrepparnir sunnan Hafnarfjarðar lýstu fylgi sínu við flutning málefna umdæmisins til embættisins í Keflavík. Undir hreppsnefndir annarra hreppa hefur þetta verið borið, og fengust yfirleitt jákvæðar umsagnir frá þeim, nema hreppsnefndum Bessastaðahrepps og Seltjarnarneshrepps, en síðarnefnda hreppsnefndin leiddi málið nánast hjá sér.

Ég held, að ég þurfi ekki að láta frekari skýringar fylgja þessu frv. Það skýrir sig nokkuð sjálft, og þær aths., sem því fylgja, og ég vona, að það sé flutt í samræmi við vilja meiri hl. Alþ., þar sem ég hygg, að það hafi verið allir þm. kjördæmisins, sem fluttu þessa þáltill. í fyrra. Má segja, að hún hafi látið það opið, hvort breytt væri þeirri skipan, sem ríkt hefur á Keflavíkurflugvelli. Að athuguðu máli þótti rétt að hreyfa ekki neitt við henni, þannig að þetta frv. snertir ekkert skipan mála þar. Þar helzt áfram sú skipan, sem hefur gilt, og virðist réttast að svo sé, meðan það ástand helzt, sem nú er, þó að það gæti auðvitað komið til álita að leggja það allt undir embættið í Keflavík.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.