02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

218. mál, breyting á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu

Karl G. Sigurbergsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að frv. til l. á þskj. 467 um breytingu á mörkum Gullbringu- og Kjósarsýslu og skipan lögsagnarumdæma hefur verið lagt fram hér í hv. d. Það leikur enginn vafi á því, að með þeirri skipan á dóms- og lögreglumálum, sem hér er lagt til, að gerð verði, er komið til móts við óskir manna í hinum ýmsu byggðarlögum á Suðurnesjum.

Það mun hafa verið árið 1969, að undirnefnd fjvn. Alþ. komst að þeirri niðurstöðu, að með því að sameina lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli og bæjarstjóraembættið í Keflavík í eitt embætti, mætti spara nokkuð útgjöld ríkisins. Með hliðsjón af þeirri ábendingu undirnefndarinnar fluttum við hv. landsk. þm. Geir Gunnarsson og ég þáltill. í Sþ. árið 1970, þar sem skorað var á ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum á þann veg, að á svæðinu sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar heyri þessi mál til einu embætti, í Keflavík. Þáltill. fékk ekki afgreiðslu á því þingi vegna einhverrar tregðu þd. þeirrar, sem hana fékk til athugunar. A. m. k. kom hún aldrei frá n. og lognaðist þannig út af, þó að málið væri lagt fyrir í byrjun þings.

Við flm. urðum fljótlega varir við áhuga manna á Suðurnesjum fyrir því, að málum yrði skipað á þann veg, sem við lögðum til í þáltill. þar sem Suðurnesjamenn töldu og það með réttu, að þeir nytu mikils hagræðis við slíka breytingu, þ. e. a. s. að dóms- og lögreglumálin þar suður frá heyrðu til einu embætti í Keflavík. Ég mun ekki eyða tíma í að færa rök fyrir því áliti Suðurnesjamanna, læt nægja að minna í því sambandi á samþykktir og áskoranir sveitarstjórna á Suðurnesjum um málið og ræður, sem fluttar voru á Alþ., er þáltill. var til umr. á sínum tíma.

Í byrjun þings haustið 1971 var málið tekið upp að nýju með þeim hætti, að allir þm. Reykn. gerðust flm. till. óbreyttrar frá því, sem hún var áður flutt af okkur Geir Gunnarssyni. Var hún samþykkt þannig óbreytt á Alþ. hinn 24. febr. 1972, eins og segir í aths. við frv. á þskj. 467. En till. var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta leggja fyrir Alþ. frv. til l. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum á þann veg, að á svæðinu sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar heyri þessi mál til einu embætti í Keflavík:

Ég vil vekja athygli á því, að ég teldi eðlilegra, að svæðið sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar tilheyrði einu og sama embætti, þ. e. embættinu í Keflavík, en ekki vikið frá því að sameina Keflavíkurflugvallarsvæðið þessu sama embætti, um leið og breytingin er gerð, eins og við flm. ætluðumst til í upphafi, að gert yrði.

Vegna þess að ég veit með vissu, að áhugi Suðurnesjamanna og hagsmunir þeirra hníga að því, að sýslumaður Gullbringusýslu sitji í Keflavík, endurtek ég, að ég fagna því, að frv. á þskj. 467 hefur verið lagt fram hér í hv. d., og vona, að það verði samþ. á þessu þingi, en dagi ekki uppi í n. fram yfir þinglok, — það komi ekki til neitt tregðulögmál í kerfinu.