02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

21. mál, Jafnlaunaráð

Fram. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. N. hefur fjallað um frv. til laga um jafnlaunaráð á fundum sínum og leitað umsagnar, svo sem fram kemur í nál. N. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með breyt., á þskj. 404.

Meginefni frv. er í stuttu máli það, að kveðið skal á um, að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og að öðru leyti sambærileg störf og að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði í launagreiðslum eða hverju öðru, er starfinu tilheyrir, eða við skipun eða ráðningu í starf. Þá er gert ráð fyrir, að skipað verði sérstakt ráð, sem er ætlað með ýmsu móti að beita áhrifum sínum til þess, að lög þessi séu haldin, að aðstoða launþega, sem telja sig misrétti beitta, og starfa að framþróun þessara mála yfirleitt.

Allshn. leitaði umsagnar allmargra aðila um frv. Þessir aðilar voru Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands, Starfsmannafélag ríkisstofnana, Kvenréttindafélag Íslands, Rauðsokkahreyfingin, Kvenfélagasamband Íslands, Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands. Tveir aðilar hafa ekki svarað n. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Lögmannafélag Íslands. Þá kallaði n. á sinn fund ritara Dómarafélags Íslands, Steingrím Gaut Kristjánsson, sem ræddi ýmis atriði frv. við nm.

Aðeins einn umsagnaraðili leggst gegn því, að frv. verði samþ. Sá aðili er Vinnuveitendasamband Íslands. Aðrir umsagnaraðilar eru hins vegar mjög jákvæðir gagnvart meginefni frv. og tilgangi þess, enda þótt sumir hafi ráðlegt ákveðnar breytingar, sem ég mun víkja að síðar. Þannig lýsir miðstjórn Alþýðusambands Íslands sig samþykka meginstefnu þeirri, sem í frv. fellst. Starfs mannafélag ríkisstofnana segir svo um meginefni frv., með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn SFR fagnar því, að með framgöngu þessa máls muni nýr vettvangur skapast til að berjast fyrir jafnlauna- og jafnréttismálum kynjanna á, og leggur til, að frv. verði samþykkt.“ Þá segir í umsögn Dómarafélag Íslands, með leyfi hæstv. forseta: „Félagið styður eindregið þá stefnu, sem kemur fram í frv. um jafnrétti karla og kvenna, og þá viðleitni, sem felst í frv. til að koma á virku eftirliti með því, að mönum sé ekki mismunað eftir kynferði, að því er varðar atvinnu. Í samræmi við þetta er félagið ekki mótfallið stofnun jafnlaunaráðs.“

Eins og ég sagði í upphafi, leggur n. fram brtt. við frv., sem prentaðar eru á þskj. 404. þrjár þeirra fela ekki í sér efnisbreytingar, heldur orðalagsbreytingar, þar sem nm. þótti, að betur mætti fara eða kveða þyrfti skýrar á.

Þær brtt., sem hér um ræðir, eru 1. brtt. og fyrstu tveir stafliðir 3. brtt.

Meginbreytingin, sem n. leggur til, að gerð verði á frv., varðar úrskurðarvald þess. Gagnrýni á þetta verkefni ráðsins barst frá Alþýðusambandi Íslands og Dómarafélagi Íslands, sem töldu blandað saman rannsóknavaldi og dómsýslu. Jafnréttis- og kvennasamtök, sem leitað var til, höfðu hins vegar skiptar skoðanir á þessu atriði. Kvenfélagasamband Íslands lagðist gegn úrskurðarvaldinu. Rauðsokkahreyfingin og Kvenréttindafélag Íslands töldu það hins vegar eitt meginatriði þess.

Nú töldu flm. frv., er það var lagt fram, að jafnlaunaráð væri ekki sérdómstóll. Lögfróðir menn viðurkenna, að skilgreining á sérdómstólum sé mjög á reiki, og svo mikið er víst, að hliðstæður að jafnlaunaráði, eins og það var í upphaflegri gerð, má finna í réttarkerfi okkar. Má m. a. minna á, að þessi hv. deild hefur nýlega samþ. frv. til laga um framkvæmd eignarnáms, þar sem matsnefnd eignarnámsbóta er byggð upp á mjög svipaðan hátt. Varðandi hreinan sérdómstól má minna á, að fyrir þessa hv. deild var lagt frv. um sérstakan dómara í fíknilyfjamálum og var það frv. afgr. án athugasemda frá Ed. Ég og meðflm. mínir höfum hins vegar metið aðstæður svo, að ekki væri rétt að halda þessu atriði til streitu. Sú lausn, sem við leggjum til í staðinn, þykir okkur mjög vel viðunandi og önnur verkefni ráðsins svo mikilvæg, að ekki megi láta frv. daga uppi vegna þessa eina ágreiningsatriðis. Vegna hins einstaka launþega, sem leitar til ráðsins, hlýt ég þó að segja persónulega, að mér þykir miður farið, að hann skuli ekki fá skjóta lausn á sínum deilumálum, þar sem hér er um atriði að ræða, er varðar kaup og kjör. En áfrýjun til almennra dómstóla átti hins vegar að tryggja fyllsta réttaröryggi.

En um þetta þýðir ekki að fjölyrða nú, og vil ég víkja að brtt. n., sem hún er sammála um að flytja.

N. leggur til, að 6. töluliður 4. gr. falli brott og að jafnlaunaráð fái í staðinn fyrir úrskurðarvaldið málshöfðunarheimild. Í samræmi við það leggur n. til, að 5. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú telur jafnlaunaráð, að starfskjör tiltekins starfsmanns fari í bága við fyrirmæli 1. og 2. gr., og beinir þá ráðið rökstuddum tilmælum um ákveðnar breytingar á starfskjörum til viðkomandi atvinnurekenda. Fallist atvinnurekandinn ekki á tilmæli ráðsins, er ráðinu heimilt, í samráði við starfsmanninn, að höfða mál í umboði hans til viðurkenningar á rétti hans.“

Þá leggur n. til, að 6. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar héraðsdómari fer með mál út af brotum á lögum þessum, kveður hann til tvo meðdómendur úr hópi 24 manna, sem félmrh. tilnefnir. Skulu þeir tilnefndir til 4ra ára. Meðdómendur skulu vera lögráða. Tilnefna skal öðrum fremur menn, sem hafa víðtæka þekkingu á kjaramálum launþega og jafnréttismálum. Taka skal tillit til búsetu þannig, að nægilega margir meðdómendur séu tiltækir í hverjum landshluta. Þegar sérstaklega stendur á, getur dómari nefnt í dóm aðra en þá, sem ráðherra hefur tilnefnt.“

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um þessar breytingar, þær skýra sig sjálfar að mestu. Hér á einstaklingur, sem til jafnlaunaráðs leitar, að geta notið allrar lögfræðilegrar aðstoðar, ef svo langt gengur, að málið fari fyrir dómstóla. En mál af þessu tagi eru í eðli sínu mannréttindamál ekki síður en kjaramál. Hér getur t. d. verið um einstakling að ræða, sem er alls ekki kominn út á vinnumarkaðinn, heldur er beinlínis neitað um tiltekið starf. Því hefur þótt eðlilegt, að almennir dómstólar fjölluðu um slík mál, en ekki félagsdómur. Tilnefning sérstakra meðdómenda á að tryggja, að mál viðkomandi einstaklings fái svo réttláta meðferð sem unnt er, þar sem hér yrði um nokkuð sérstæð mál að ræða. Þess skal getið, að við mótun þessara brtt. hefur n. notið leiðsagnar ritara Dómarafélags Íslands, Steingríms Gauts Kristjánssonar, sem var málinu í heild mjög velviljaður.

Þá hefur n. lagt til, að skipan ráðsins verði að nokkru breytt, og er sú brtt. í samræmi við breytt verkefni ráðsins. Í stað þriggja lögfróðra manna ætti nú einn að nægja, þar sem úrskurðarvald í deilumálum yrði ekki lengur í höndum ráðsins. Á þennan hátt hefur líka verið gengið til móts við óskir Starfsmannafélags ríkisstofnana og Kvenréttindafélags Íslands, en háðir þessir aðilar óskuðu eindregið eftir því, að B. S. R. B. yrði ekki gert að skyldu að skipa löglærðan mann í ráðið. En með tilliti til þeirra verkefna jafnlaunaráðs, sem talin eru upp í 2. og 4. lið 4. gr. og eru að miklu leyti félagslegar kannanir eða athuganir, þótti eðlilegt að tengja starfsemi ráðsins að nokkru Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands. Í þessu sambandi má minna á, að hæstv. félmrh. hefur falið þeirri deild að annast rannsókn á jafnrétti þegnanna samkvæmt þál. frá 1971, svo að ætla má, að deildin hafi þegar þekkingu og reynslu af þeim málefnum, er hér um ræðir, og njóti þess trausts, sem er nauðsynlegt.

Að lokum vil ég drepa á athugasemd frá Kvenréttindafélagi Íslands, þar sem það bendir á, að starf jafnlaunaráðs hljóti fyrst og fremst að vera vettvangur fyrir konur, sem leita þurfi réttar síns, og í framhaldi af því segir svo í umsögn þeirra, með leyfi hæstv. forseta: „KRFÍ telur því brýna nauðsyn, að ráðið sé skipað bæði konum og körlum, og efast um, af slæmri reynslu um nefndarskipanir og fleira, að slíkt jafnrétti verði ráðandi um skipan ráðsins, nema það sé ótvírætt tekið fram í lögunum.“ Vissulega segir þessi tortryggni Kvenréttindafélags Íslands meira en nokkuð annað um nauðsyn jafnlaunaráðs og jafnréttisaðgerða yfirleitt. Persónulega hlýt ég að segja, að ég hef fyllsta skilning á þessum sjónarmiðum Kvenréttindafélagsins. Samt hefur n. ekki talið rétt að verða við þessum tilmælum, einfaldlega vegna þess, að jafnréttissjónarmið bannar það. Það er ljóst, að það getur verið talsverð áhætta í því fólgin að taka það ekki fram sérstaklega, að konur skuli skipa í ráðið ekki síður en karlar. En eðli málsins samkv. fæ ég ekki séð, hvernig unnt yrði að réttlæta það, að gengið yrði fram hjá hæfum konum, og þær eru margar, bæði þegar um er að ræða að skipa í jafnlaunaráðið sjálft eða tilnefna meðdómendur. Ef það hneyksli gerðist, þá er ætíð sá möguleiki opinn að fá lögunum breytt, að fenginni reynslu.

Herra forseti. Eins og ég hef áður tekið fram, leggur allshn. þessarar hv. deildar til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef nú gert grein fyrir.