02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

5. mál, orkuver Vestfjarða

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég á sæti í iðnn. þessarar hv. d. og hef skrifað undir þetta nál. án fyrirvara, en ég vildi aðeins gera hv. d. grein fyrir því, á hvaða forsendum ég hef gert þetta. Mál þetta, sem hér er til umr., var frá hendi rn. vanbúið að ýmsu leyti. Í 8. gr. orkul., nr. 54 frá 1966, stendur:

„Umsókn um leyfi til þess að reisa og reka raforkuver eða stækka skulu sendar ráðh. raforkumála ásamt uppdráttum, kostnaðar- og rekstraráætlun fyrir fyrirhugað raforkuver. Ráðh. sendir gögn þessi Orkustofnun til umsagnar, áður en hann afgreiðir málið endanlega eða fær það Alþ. til meðferðar.“

Með þessu frv er ekki nein athugun á því, hvað umrædd virkjun muni kosta, og því síður áætlanir um rekstur hennar né neinn samanburð á því, hvernig aðrar orkuöflunarleiðir fyrir Vestfirðinga mundu koma út. Það er því ákaflega erfitt í raun og veru fyrir hv. d. og hið háa Alþ., að taka ákvörðun, sem er raunsæ í þessu efni, vegna þess, hvernig málið er búið í hendur hins háa Alþ. En mér er tjáð af mönnum, sem til þekkja, að þetta mál megi ekki dragast og það geti kostað öngþveiti í raforkumálum Vestfjarða, ef ekki verður úr þeim bætt hið bráðasta. Á þeim forsendum hef ég skrifað undir þetta nál., þótt undirbúningi málsins sé jafnáfátt og ég hef hér lýst.