02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (2351)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram á fyrri hluta þingsins og var vísað til fjh.- og viðskn. hinn 15. des. s. l. N. hefur rætt frv. á nokkrum fundum, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að það verði samþykkt með breytingum, sem formaður n. flytur á þskj. 444 og hér verður gerð nokkur grein fyrir.

Við síðustu afgreiðslur framkvæmdaáætlana hafa legið fyrir skýrslur um útlánasjóði atvinnuveganna, starfsemi þeirra og fjárþörf og hvernig áformað hefur verið að mæta þeirri fjárþörf. Sá þáttur hefur enn ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu hjá ríkisstj., þó að meðferð hans sé nú að komast á lokastig, og var því ekki unnt að gefa fullnaðarupplýsingar um það atriði nú, þó að það hefði verið æskilegt og þess væri raunar óskað í nefndinni.

Það er óheppilegt af augljósum ástæðum að draga öllu lengur en orðið er afgreiðslu þessa frv. Telur meiri hl. fjh.- og viðskn. ástæðulaust að fresta afgreiðslu málsins, þótt nýnefndar upplýsingar séu ekki fyrir hendi samtímis. Það hefur ekki heldur verið nein algild regla í gegnum árin, þótt svo hafi verið við síðustu afgreiðslur framkvæmdaáætlunar og það sé vitanlega æskilegt, eins og ég sagði áðan.

Við 1. umr. málsins hér í hv. d. gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir frv. í einstökum atriðum. Ég skal ekki endurtaka það, sem hann sagði, en sný mér beint að því að gera grein fyrir brtt. á þskj. 444. 1. brtt. er við 1. gr. frv. Nauðsynlegt þykir að afla aukins lánsfjár vegna tiltekinna verkefna í upptalningu 10. gr., og verður vikið að þeim síðar. Við nánari athugun þótti skynsamlegt að hækka heimild 1. gr. frv. úr 200 millj. kr. í 350 millj. kr. eða um 150 millj. Að því lýtur 1. brtt.

Meiri hækkun á sölu ríkisskuldabréfa eða spariskírteina þykir ekki tiltækileg. En þar sem talið var, að enn skorti um 100 millj. kr. á til þess að séð væri fyrir fjármögnun þeirra fjárfestingarframkvæmda á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, sem óhjákvæmilegar teljast, er lagt til að hækka heimild til erlendrar eða innlendrar lántöku samkv. 7. gr. um 100 millj. kr., og að því lýtur 2. brtt. á þskj. 444. — Ég bendi á, að sú upphæð er ekki tekin inn í sundurliðun í 10. gr. fremur en sú lántökuheimild, 50 millj. kr., sem fyrir var í 7. gr. frv. Sundurliðunin í 10. gr. breytist því einvörðungu sem nemur hækkun á heimild 1. gr. um sölu ríkisskuldabréfa og spariskírteina.

Þá mun verða gerð grein fyrir þeim breytingum eða hækkunum á sundurliðun samkv. 10. gr. frv., sem verða samkv. brtt. á þskj. 444.

Liðurinn Rafmagnsveitur ríkisins. framkvæmdir, hækkar í sundurliðuninni um 4 millj. kr. og verður 240 millj. Því til viðbótar kemur svo heimild í 7. gr., sem ég gat um áðan, þannig að heimilaðar lántökur vegna Rafmagnsveitna ríkisins, erlendar og innlendar, hækka samtals um 104 millj. kr. og verða 340 millj.

Það er rétt að gera ofurlítið nánari grein fyrir þessu atriði. Það hefur þótt eðlilegt að tengja auknar lántökuheimildir erlendis samkv. 7. gr. framkvæmdum Rafmagnsveitna ríkisins, en Rafmagnsveiturnar hafa nú í gangi tvær virkjanir, þ. e. a. s. við Mjólká og við Lagarfoss. Meginástæður hækkana á þessum lið, Rafmagnsveitum ríkisins, úr 236 millj. kr., eins og var í frv., sbr. 3. gr., í 240 plús 100 millj. kr. samkv. 7. gr., sem ég nefndi áðan, þ. e. a. s. í 340 millj. kr., felast annars vegar í 42 millj. kr. hækkun eftirstöðva verkáfanga 1972 og svo í verðbreytingum og öðrum breytingum, sem tengdar eru nánari útfærslu framkvæmdanna 1973. Stærstu liðir framkvæmda Rafmagnsveitna ríkisins 1973 samkv. síðustu útreikningum eru þeir, sem ég nú skal greina: 1. Virkjanirnar í Lagarfossi og Mjólká, samtals 157.3 millj. 2. Stofnlínur og rafveitustöðvar á 10 stöðum á landinu, samtals 116 millj. kr. 3. Innanbæjarkerfi, viðbætur og endurbætur á innanbæjarkerfum 40 millj. samtals. 4. Dísilstöðvar, varastöðvar efldar á 4 stöðum, 17 millj. kr. 5. Ýmis verkefni á 18.2 millj. Þetta gerir samtals 348.5 millj. kr. Frá þessu dragast svo heimtaugagjöld, sem eru áætluð 8.5 millj., þannig að niðurstaðan verður 340 millj. kr.

Næsti liðurinn í sundurliðun 10. gr., þ. e. a. s. sá, sem breytist, er Laxárvirkjun. Eftir nánari skoðun þess máls þykir nú rétt að hækka þá fjárhæð, sem Laxárvirkjun er ætluð hér á framkvæmdaáætluninni, um 33 millj. kr., og verður upphæðin þá í heild 80 millj. Er talið, að með því móti verði unnt að halda áfram framkvæmdum við Laxá með eðlilegum hætti.

Þá vík ég að sveitarafvæðingunni, en það er næsti liður í sundurliðuninni, sem breytingu tekur. Komið hafa fram sérstaklega miklar hækkanir á áætluðum tölum sveitarafvæðingarinnar, en fylgt er upphaflegri þriggja ára áætlun með verðlagsuppfærslu. Nýjasta áætlunarupphæð hjá sveitarafvæðingunni er 177 millj. 833 þús., en þar frá dragast heimtaugagjöld, og þá verða eftir liðlega 170 millj. kr.

Í grófum dráttum má greina þessa upphæð í þrennt, þegar sleppt er öllum nánari sundurliðunum. Í fyrsta lagi eru það eftirstöðvar framkvæmdaáætlunar 1972, liðlega 6 millj. kr. Í öðru lagi veitulagnir samkv. þriggja ára áætluninni á árinu 1973, endurgreiðsla á framkvæmdalánum heiman úr héraði og á óafturkræfum framlögum, líka heiman úr héraði, hvort tveggja samkv. þriggja ára áætluninni, eins og hún var út gefin, liðlega 160 millj. kr. samtals. Og í þriðja og síðasta lagi eru svo ýmsar viðbætur við eldri veitur, sem alltaf þarf að taka tillit til, og nýjar veitulagnir utan þriggja ára áætlunar, sem samþykktar hafa verið síðar, rúmlega 11 millj. kr. Samtals gerir þetta 177 millj. 800 þús.

Ég vil geta þess, að í 3. liðnum um viðbætur munar langmest um Reykjarfjarðarlínu vestra. Áætlaður kostnaður við hana er rösklega 4 millj. kr., en hún kæmi til með að tengja smáar einangraðar orkuveitur þarna við Djúp og er m. a. talin mjög nauðsynleg vegna skólans í Reykjanesi.

Sveitarafvæðingunni eru, eins og hv. þm. muna, ætlaðar í fjárl. 50 millj. kr. og í framkvæmdaáætlun samkv. brtt. 110 millj., eða alls 160 millj. kr. Hér skakkar því liðlega 10 millj. kr. frá áætlun rafmagnsveitnanna. En talið er, að það muni varla koma að sök, því að venjan er sú, að tafir verða á framkvæmd einstakra liða af ýmsum ástæðum, sem erfitt er eða jafnvel ógerlegt að sjá fyrir, svo að þetta ætti að nægja til þess, að hægt sé að halda strikið.

Næsti liður, sem breytist í sundurliðun 10. gr., er Hafnarfjarðarvegur. Sá liður hækkar um 75 millj. kr. í 65 millj. kr. Áætlun um þetta verk hefur verið yfirfarin, og þessi hækkun er talin óhjákvæmileg, til þess að næsti áfangi komist það áleiðis, að not verði af. En áfanginn, eins og hann er hugsaður, felst í því að ganga frá vestari akbraut suður fyrir gatnamót við Borgarholtsbraut og Digranesveg.

Þá er það Norðurlandsáætlun til hafna og flugvalla. Það er talið nauðsynlegt að hraða gerð öldubrjóts á Siglufirði meira en frv. um framkvæmdaáætlun gerði ráð fyrir, m. a. vegna hraðfrystihúsbyggingar á staðnum, sem er mjög aðkallandi og hefur nú verið ákveðin. Hækkun þessa liðar nemur 4 millj. kr.

Þá er tekinn nýr liður inn í sundurliðunina í 10. gr., þ. e. til Blævardalsárvirkjunar, 4 millj. kr. Virkjun þessi hófst fyrir ári, og var varið til hennar 4 millj. kr. á framkvæmdaáætlun 1972. Það var óskað eftir 3.5 millj. kr. fjárhæð til viðbótar í nóv. s. l. og með henni mælt síðar af hálfu áætlunardeildar Framkvæmdastofnunarinnar, en þá var þetta frv. um lántöku vegna framkvæmdaáætlunar þegar fram komið. Hér er því mælt með virkjuninni sem nýjum lið að upphæð allt að 4 millj. kr., og er þá tekið tillit til verðlagsbreytinga á árinu.

Loks eru svo Framkvæmdasjóði Íslands ætlaðar 150 millj. kr. af fjáröflun þeirri. sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir brtt. á þskj. 444, en meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem þar greinir.

Út af brtt. á þskj. 179 frá Ingólfi Jónssyni og Guðlaugi Gíslasyni varðandi Þorlákshöfn vil ég segja þetta: Það var rætt um það sem möguleika fyrir áramótin að taka Þorlákshöfn inn í frv. um framkvæmdaáætlun við meðferð málsins á Alþ. En nú hafa komið upp ráðgerðir um að leysa það mál á annan hátt, m. a. með aðstoð Alþjóðabankans, og vænti ég, að flm. nefndrar till. sé um þetta kunnugt og þeir muni hafa hliðsjón af því.

Ég vil einnig aðeins víkja að brtt. við 10. gr. á þskj. 192 frá Lárusi Jónssyni o. fl., en þar segir, að í stað orðanna „Stofnlína Norðurland-Suðurland“ komi: Til rannsókna á orkuöflunarleiðum fyrir Norðurland. Meiri hl. fjh.- og viðskn. mælir gegn þessari till. Um leið og Sigölduvirkjun var ákveðin, ákvað ríkisstj. að tengja saman veitukerfi Suðurlands og Norðurlands, og þessi till. virðist því óþörf, eins og komið er.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn., sem eins og áður greinir leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem prentaðar eru á þskj. 444.