02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2959 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Fram. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur nú gert grein fyrir brtt., sem hann flytur við þetta frv., og skýrt þær að nokkru. Ég vil þó í sambandi við það, sem hann nefndi í lok ræðu sinnar varðandi hafnargerð í Þorlákshöfn, segja, að rætt var á milli funda í vetur fyrir jólin að taka inn í frv. nokkurt fjármagn til hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn. Það, sem hann nefndi hér áðan í sambandi við lausn þessa máls varðandi væntanlegt lán Alþjóðabankans, hygg ég, að sé algerlega í lausu lofti og enginn viti í dag, hvort það fjármagn fæst eða hvort því verður varið í þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar voru og áætlað var í haust, að mundu kosta um 80 millj. kr. Þá var talið eðlilegt að skipta fjárhæðinni á 2 ár, ef fjármagn fengist fyrir helmingi hennar á árinu 1973. Það væri fróðlegt að fá frekari upplýsingar um þetta mál, frá hæstv. samgrh. ef þær eru fyrir hendi.

15. des., þegar þetta frv. kom til 1. umr. hér í hv. þd., fylgdi hæstv. fjmrh. því úr hlaði, og þá sagði hann í framsöguræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1972 var heimiluð útgáfa spariskírteina að fjárhæð 500 millj. kr. Nú hefur verið ákveðið, að ekki verði notaðar nema 360 millj. kr. úr þeirri heimild, og er ekki talið líklegt, að búið verði að selja skírteini fyrir þá fjárhæð fyrr en á fyrstu mánuðum ársins 1973. Með tilliti til reynslu af sölu á spariskírteinum á þessu ári þykir ekki ráðlegt að reikna með meiri sölu en 200 millj. kr. á árinu 1973, enda mun hluti af heimild þessa árs verða notaður á hví ári. Auk þess er ráðgert, að á árinu 1973 verði aukin sala skuldabréfa happdrættisláns vegna vega- og brúaframkvæmda á Skeiðarársandi, sem hér er áætluð 230 millj. kr., og er það í samræmi við vegáætlun.“

M. ö. o.: þegar hæstv. fjmrh. fylgir frv. úr hlaði, segir hann, að það sé ekki talið skynsamlegt að bjóða út nema 200 millj. kr. á árinu 1973. En nú er komin hér fram brtt., sem hv. formaður meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur, um hækkun úr 200 millj. í 450 millj. kr. Það er fljótt að breytast, hvað er skynsamlegt nú og hvað er skynsamlegt í des. En það væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. fjmrh., hvaða breytingum þetta hefur tekið og af hverju það, sem var skynsamlegt í des. í þessum efnum, er ekki nógu skynsamlegt, en talið rétt að hækka um 250 millj. kr.

Eins og fram kemur í nál. okkar sjálfstæðismanna í fjh.- og viðskn., teljum við, að það skorti allar upplýsingar til þess að afgreiða þetta frv., alveg gagnstætt því, sem verið hefur á undanförnum árum, að ég tel algerlega undantekningalaust. Hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. sagði, að meiri hl. n. teldi ástæðulaust að fresta afgreiðslu þessa máls. Hann rökstuddi ekki frekar þessa skoðun sína, en hins vegar vil ég fyrir mitt leyti telja fyllstu ástæðu til að fresta afgreiðslu þessa máls af vissum ástæðum, sem n skal færa rök fyrir.

Það hefur verið venja og á að vera alveg ófrávíkjanleg venja og regla, að það eigi að liggja fyrir skýrsla fjmrh. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun, þar sem rekja á starfsemi fjárfestingalánasjóðanna og lánsfjáröflun til þeirra. En þetta liggur ekki fyrir. N. hefur engar upplýsingar fengið. Þrátt fyrir ágætan vilja formanns fjh.- og viðskn. tókst ekki að hafa upp á neinum embættismanni, sem gæfi gefið n. upplýsingar um fjárfestingarlánasjóðina eða niðurskurð fjárl., sem ég mun koma síðar að. Hann lagði sig fram um það að fá þessar upplýsingar, en þær fengust ekki. Við sjálfstæðismenn segjum í nál., að meiri hl. hafi afgreitt þetta frv. með bundið fyrir augun, og ég stend við það. Meiri hl. vissi ekki meira en við. Og nú komum við að því. Hér liggja fyrir till. um framkvæmdir á vegum hins opinbera í þessu frv. og hækkunartill. upp á 250 millj. kr., en á sama tíma liggja fyrir fjárl., sem Alþ. samþykkti 21. des. s. l., þar sem ríkisstj. aflaði sér heimildar til að skera niður verklegar framkvæmdir um að jafnaði 15%. Mér finnst ástæða til, að það liggi fyrir í heild, áður en við förum að hækka stórkostlega framkvæmdaáætlun ríkisstj. Hvernig verður fjárv. til stofnlánasjóðanna aflað á yfirstandandi ári? Hvernig á að haga niðurskurði fjárl. samkv. þeirri heimild, sem ríkisstj. aflaði sér við samþykkt fjárl. og stjórnarþm. gáfu stjórninni? Hvernig á að skera þessar framkvæmdir niður? Hæstv. fjmrh. hældi sér af því í des., þegar hann lagði frv. fram, að þetta væri í fyrsta skipti, sem frv. væri lagt svona snemma fram á þingi, og taldi eðlilegt, að það væri afgreitt jafnhliða fjárl. Þá sagði hann enn fremur, að með þessari framkvæmdaáætlun hefði það unnizt, að framkvæmdir á vegum hins opinbera lækkuðu um 400 millj. kr. frá framkvæmdaáætluninni fyrir árið 1972, en þessi lækkun er ekki orðin svo mikil nú, eftir að þessar brtt. liggja fyrir, en þær eru upp á 250 millj. kr.

Í nál. hinnar svokölluðu valkostanefndar, sem þm. fengu í hendurnar í vetur og er frá því í nóv. 1972, segir hún: „Frumathuganir benda til þess, að fjárvöntun fjárfestingarlánasjóða og opinberra framkvæmda geti á þessum forsendum verið af stærðargráðunni 3000 millj. kr., þegar tillit hefur verið tekið til þekktrar eða nokkuð öruggrar fjáröflunar á næsta ári. Hversu miklu af þessu verður talið fært að mæta með nýjum erlendum og innlendum lántökum, er torvelt að spá í á þessu stigi málsins. Ólíklegt virðist, að með þessum hætti megi með hægu móti afla meira fjár en sem svarar þriðjungi til helmingi þeirrar fjárhæðar.“

Í þessu sambandi má benda á, að fjáröflun innanlands til framkvæmdaáætlunar 1972 hefur ekki gengið greiðlega og að greiðslubyrði vegna erlendra skulda er þegar mjög mikil næstu árin. Þannig bendir margt til þess, að hvort tveggja þurfi að lækka frá því stigi, sem hér er miðað við, opinberar framkvæmdir og útlán fjárfestingarlánasjóða, enda hefur byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð vafalaust verið þanin til hins ýtrasta á árinu 1972.

Ég held, að það væri rétt að koma nokkuð inn á, hvernig útlánaóskir fjárfestingarlánasjóðanna eru, eins og þær liggja fyrir. En það kemur í ljós, að útlánaóskir hinna níu fjárfestingarlánasjóða eru upp á 4027.3 millj. kr. Þar við bætast iðnþróunarsjóður og byggingarsjóður ríkisins, sem eru samtals með um 1620 millj. kr., svo að útlán og óskir sjóðanna eru 5 milljarðar 647.3 millj. kr. Nú kunna margir að segja: Er ekki hægur vandi að draga úr þessum útlánaóskum og færa mjög saman það, sem sjóðirnir fara fram á, vegna þess að mikill vinnuaflsskortur er í landinu og framkvæmdir hafa í raun og veru orðið allt of miklar, þannig að þjóðin má ekki við þessum miklu framkvæmdum og verður að beina vinnuaflinu meira til framleiðsluatvinnuveganna. Við skulum þá líta á þann sjóðinn, sem er langstærstur í þessu dæmi, en það er fiskveiðasjóður. Í sambandi við fiskveiðasjóð eru útlánaóskir hans upp á 1730 millj. kr. á þessu ári. Það skiptist þannig, að vegna erlendra skipakaupa eru útlánaóskirnar 265 millj. kr., vegna tækja og viðgerða á skipum 230 millj. kr., vegna vinnslustöðva 500 millj. kr., vegna innlendrar skipasmíði 700 millj. kr. og vegna gengistapa 35 millj. kr. Erlendu skipakaupin eru auðvitað ekkert annað en reikningsdæmi, sem fyrir liggur eftir því, sem skip eru afgreidd frá skipasmíðastöðvum erlendis, en tekur fiskveiðasjóður á sig ákveðnar greiðsluskuldbindingar á hverju ári. Ég hef verið að reyna að gera mér grein fyrir, hvaða breytingar verði á þessari upphæð á næstu tveimur árum, miðað við útreikninga hjá fiskveiðisjóði. Ég hef borið þetta undir kunnuga menn, og þeir telja, að vegna erlendu skipakaupanna muni þessi upphæð hækka á næsta ári upp í 420 millj. kr. og árinu 1975 muni þessi fjárþörf fiskveiðasjóðs vera komin upp í 530 millj. kr., eða tvöfalt hærri upphæð en hún er áætluð á yfirstandandi ári. Útlán vegna tækja og viðgerða eru í áætluninni 230 millj. kr., en hún var í raun á árinu 1972 198.7 millj. kr., svo að það getur hver og einn séð, sem fylgzt hefur með þróun í verðlagsmálum, að hér er um sízt of háa upphæð að ræða. Í sambandi við lán til vinnslustöðva reyndust þau á s. l. ári vera 310.8 millj. kr., en eru nú áætluð 500 millj. í þessari till. fiskveiðasjóðstjórnarinnar. Það sjá líka allir, að vegna hinnar miklu fjárfestingar, sem víða hefur átt sér stað í hraðfrystiiðnaðinum, er vafalaust ekki of hátt að reikna með 500 millj. kr. Innlenda skipasmíðin var í raun á s. l. ári 538.4 millj. kr., en er áætluð á árinu 1973 700 millj. kr. Vegna gengistaps var í reynd 13,5 millj. kr., en vegna gengisbreytinga er hún áætluð 35 millj. kr. Ef við ætlum, að nauðsynlegt sé að skera niður útlán fjárfestingalánasjóða, þá þarf fyrst og fremst að athuga langstærsta sjóðinn, sem þarf mest fjármagnið, fiskveiðasjóð. En við rekumst á það, að fiskveiðasjóður er búinn að taka á sig allar þessar skuldbindingar og ekki unnt að lækka greiðslurnar úr þessu. Það má segja svipað um stofnlánadeild landbúnaðarins. Óskir stofnlánadeildar landbúnaðarins eru upp á 643.4 millj. kr. og óskir veðdeildar Búnaðarbankans upp á 50.9 millj. kr. Stærstu liðirnir til stofnlánadeildar landbúnaðarins eru: til útihúsa og ræktunarframkvæmda 226.8 millj. kr., vinnslustöðva í landbúnaði 166.3 millj. kr. og íbúðarhúsa 94.6 millj. kr. Nú vitum við, að á þeim árum, sem samdráttur var í landbúnaði vegna grasleysis víða á landinu og þar af leiðandi vondrar afkomu hjá bændum, héldu margir að sér höndum. Það hafa aftur aukizt nú á s. l. ári óskir um auknar framkvæmdir í landbúnaði, og því held ég, að verði mjög erfitt að skera verulega niður þessar útlánaóskir landbúnaðarins af þessum ástæðum.

Mér finnst rétt að koma líka nokkuð inn á byggðasjóðinn. Í ársbyrjun 1972 átti sjóðurinn í lausafé og óteknum lánum um 39 millj. kr. sama tíma eru óútborguð lánsloforð um 111 millj. kr., þannig að það skortir á 72 millj. kr. til að fullnægja þessum lánveitingum. Hins vegar átti stjórn atvinnujöfnunarsjóðs að fá lánsfé frá ríkissjóði að upphæð 35 millj. kr., sem ganga átti upp í fyrrgreindar lánveitingar.

Opinberum aðilum hafði verið veitt nokkurt lán af fé Norðurlandsáætlunar og atvinnumálanefndar ríkisins til skamms tíma, sem endurgreiddist ekki eins og um var samið, en þetta fé átti einnig að nota til greiðslu áðurnefndra lánsloforða. Á árinu 1972 var eigið ráðstöfunarfé sjóðsins 244 millj. kr. Þar við bætast lántökur frá framkvæmdasjóði og iðnþróunarsjóði, 125 millj. kr., og heildarráðstöfunarfé sjóðsins árið 1972 var því 369 millj. kr. Eins og áður segir, skorti sjóðinn í ársbyrjun 72 millj., þannig að til útborgunar nýrra lána á árinu voru 297 millj. kr. Ný lánsvilyrði á árinu 1972 voru um 480 millj. kr., þar af vegna fiskiskipa um 337 millj. kr., eða um 70% hækkun á lánsvilyrðum frá upphaflegum samþykktum, um 29 millj. kr., að mestu vegna hækkunar á kostnaði við nýsmíði fiskiskipa frá upphaflegu samningsverði. Þá var endursamið um afborganir og vexti í vanskilum að fjárhæð 21 millj. kr., og eins og áður hefur verið sagt, voru 297 millj. kr. til útborgunar nýrra lána á árinu. Af því leiðir, að í árslok 1972 voru lánsloforð umfram fjáröflun ársins hvorki meira né minna en 233 millj. kr. Á þessu ári er gert ráð fyrir, að eigið ráðstöfunarfé byggðasjóðs geti numið um 122 millj. kr. Eftir því skortir um 111 millj. á, að hægt sé að fullnægja lánasamþykktum í árslok 1972. Er þá gert ráð fyrir, að sjóðurinn fái að láni frá framkvæmdasjóði 325 millj. kr. á þessu ári og geri það sjóðnum mögulegt að borga út ný lán að fjárhæð 214 millj. kr. Þar sem búast má við, að lán vegna nýsmíði fiskiskipa og skuttogarakaupa, sem samþykkt voru á árinu 1972 og fyrr og koma til útborgunar á árinu, hækki um minnst 20 millj. kr. frá upphaflegum samþykktum, þá gerir það sjóðnum mögulegt að samþykkja ný lánsvilyrði að fjárhæð 194 millj. kr. á þessu ári. Heildarútlán sjóðsins og lán framkvæmdasjóðs og iðnþróunarsjóðs árin 1970–1973 eru þá þannig, að heildarútlánin voru á árinu 1970 269 millj. kr., á árinu 1971 234 millj. kr. og á árinu 1972 394 millj. kr., og gert er ráð fyrir, að þessi lán verði á árinu 1973 447 millj. kr., en lán frá framkvæmda- og iðnþróunarsjóði eru, eins og ég sagði áðan, ráðgerð 325 millj. kr.

Eins og öllum er kunnugt, hefur sú regla verið gildandi í sambandi við lán til fiskiskipa, að fyrir tilstuðlan ríkisstj. var lánað 10% til fiskiskipakaupa, bæði til nýsmíði skipa og skuttogaralán, samtals um 272 millj. kr. Þar af útvegaði ríkisstj. framlag frá framkvæmdasjóði 20 millj. og frá iðnþróunarsjóði 50 millj., en fjárvöntun vegna þessara lána nam hvorki meira né minna en 202 millj. kr. í árslok 1972. Það er rétt að rifja það upp, að fyrrv. ríkisstj. ákvað að lána til nýsmíði fiskiskipa til að örva fiskiskipabyggingar 10% af kaupverði slíkra skipa eða byggingarkostnaði þeirra skipa og byggðasjóður ákvað að lána 5% af byggingarkostnaði skipa, þannig að skip, sem byggð voru innanlands, fengu 75% lán úr fiskveiðasjóði, 5% lán úr byggðasjóði og 10% lán, sem afgreidd voru af atvinnujöfnunarsjóði og byggðasjóði, eftir að hann tók við, en ákveðin af ríkisstj. Heildarlán til skipa voru því 90% af byggingarkostnaði þeirra. Nokkru fyrir síðustu kosningar ákvað fyrrv. ríkisstj. að lækka þessi lán niður í 5%, sem hún hafði ákveðið að útvega fé til og atvinnujöfnunarsjóður hafði afgreitt. Heildarlánin til skipakaupa, byggðra innanlands, voru því orðin 85%. En þegar núv. ríkisstj. tók við, fannst henni þetta auðvitað allt of lág lán, því að hún varð að vera betri en sú, sem var á undan, og hækkaði hún alveg með sama þessi lán aftur upp í 10%. Byggðasjóður hélt áfram sínum 5% lánveitingum. En sælan stóð ekki mjög lengi, því í des. ákvað núv. ríkisstj. að draga saman seglin, og það var nú ekki svo, að hún færi niður í það, sem fyrrv. ríkisstj. hafði ákveðið að gera, heldur afnam hún algerlega þessi 10% lán, lagði þau hreinlega niður. Byggðasjóður hefur einnig lagt niður þessi 5% lán sem algilda reglu og hefur nú myndað sér nýja starfsreglu, þannig að þessi lán geta verið eftir sem áður 5% til nýbyggingar skipa á ákveðnu svæði á landinu.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það var farið mjög geyst í þessar skipabyggingar og það var í sjálfu sér nauðsynlegt að stemma hér stigu við og draga saman. En fyrst eru leyfð hömlulaus skipakaup og þá er einblínt á næstum því eina stærð og eina gerð skipa. Þegar búið er að byggja jafnmikið og kaupa eins og raun ber vitni, þá á að skrúfa svo rækilega fyrir, að innan eins árs verða verkefni í fjölmörgum skipasmíðastöðvum sama og engin orðin. Þar við bætist, að eðlileg uppbygging og viðhald skipastólsins verður alltaf að vera fyrir hendi innan skynsamlegra marka, og þá á ekki að byggja aðeins eina stærð skipa, heldur á auðvitað að viðhalda skipaflota af öllum stærðum. En þetta er ekki gert, eins og sjá má og menn geta fundið af þeim ráðstöfunum, sem nú hafa verið gerðar.

Fjmrh. sagði í skýrslu sinni um fjáröflun og framkvæmdir ríkisstj., sem hann lagði fram 5. maí 1972 hér á hv. Alþ., en þá var talið eðlilegt, að frv. biði eftir því, að skýrslan kæmi fram, þannig að n., sem fjallaði um frv., fengi að sjá þessa skýrslu og ræða við embættismennina, og hún afgreiddi þetta mál ekki fyrr en nokkru síðar, og þá lá skýrslan fyrir hjá öllum alþm., — en í skýrslu fjmrh. segir:

„Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun er með seinna móti á ferðinni, enda þótt oft áður hafi seint verið. Stendur það meðfram í sambandi við þær skipulagsbreytingar, sem gerðar hafa verið, sem og við það, að framkvæmdaáform hafa verið æðimikil og því umfangsmikið verkefni að fjalla um þau og fella í eina viðráðanlega heild. Með málefnasamningi stjórnarflokkanna er lögð veigamikil áherzla á eflingu hvers konar áætlunargerðar og samræmt mat á gildi framkvæmda og framleiðslugreina. Mun sú starfsemi einkum fara fram á vegum hinnar nýstofnuðu Framkvæmdastofnunar ríkisins, en með virkri þátttöku rn. og annarra opinberra stofnana og þá einkum, að því er ríkisframkvæmdir varðar, með hlutdeild Fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar. En þótt nokkur drög að þessari áætlun hafi verið undirbúin á umliðnu hausti, var ákveðið að láta verkefnið bíða hinnar nýju stofnunar. Lagasetning um hana varð ekki lokið fyrr en í árslok, og varð henni því ekki að fullu komið á laggirnar fyrr en síðla í febr. 1972.“ Síðar segir hæstv. fjmrh.: „Ljóst er, hvert óhagræði er að því, að framkvæmda- og fjáröflunaráætlunin skuli ekki fylgjast að við gerð fjárl. og vera tilbúin fyrir upphaf framkvæmdaárs, enda er aðeins með þeim vinnubrögðum unnt að tryggja samræmi framkvæmdaáforma og skynsamlega forgangsröðun: — Takið eftir. Með þeim vinnubrögðum er aðeins unnt að tryggja samræmi framkvæmdaáforma og skynsamlegra forgangsröðun. „Mun stefnt að því“, segir hæstv. fjmrh., „að svo geti orðið við samningu næstu áætlunar, þ. e. fyrir árið 1973, og mun Fjárlaga- og hagsýslustofnuninni og Framkvæmdastofnun ríkisins falið að vinna að því í sameiningu, jafnframt því að unnið verði með horfur og áform til lengri tíma fyrir augum:

Þetta var skynsamlega talað, — mjög skynsamlega, og þessu var vel tekið af Alþ. Ég bjóst við því, að jafnröskur og ágætur maður og hæstv. fjmrh. er mundi standa við þetta. Það er öðru nær, því er bara ekki að heilsa. Hann benti réttilega á og var sanntrúaður á gildi Framkvæmdastofnunar ríkisins, að hún ein gæti unnið þetta verk almennilega, og hann afsakar það, hvað þetta var seint tilbúið í fyrra, með því, að þetta stóra og mikla „apparat“ var ekki tilbúið fyrr en í febrúarlok og þess vegna hafi ekki verið að búast við, að slík áætlanagerð hefði verið tilbúin fyrr. En hann segir, að það sé stefnt að því, að þessu verði lokið, og þetta eigi algerlega að fylgjast að. En núna leggur hann þá miklu pressu á flokksbræður sína og hálfbræður í fjh.- og viðskn., að þeir afgreiði frv. með bundið fyrir augun. Hann er auðvitað ekki einn um þessa pressu. Það er auðvitað öll ríkisstj. á bak við hann í þessu, því að það er um að gera að láta allar þessar upplýsingar bíða, og nú er bara stefnt að því að reyna að losna við Alþ., koma þeim heim, þessum þm., því að allt er komið í harðan hnút og ekkert gengur þrátt fyrir alla skipulagninguna, sem átti að eiga sér stað með tilkomu Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað líður samvinnu Fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar og Framkvæmdastofnunar ríkisins á þessu sviði? Hvernig hafa þessar stofnanir unnið saman? Hvaða árangurs er að vænta á því sviði? Hann segir, að það sé stefnt að því, að svo geti orðið við samningu þessarar áætlunar fyrir árið í ár, og mun Fjárlaga- og hagsýslustofnuninni og Framkvæmdastofnun ríkisins falið að vinna að því í sameiningu. Hvar eru þessar forgangsframkvæmdir? Hvar er sá listi? Ætlar ekki hæstv. fjmrh. að vera svo góður og almennilegur að skýra okkur þm. frá því, hvernig þetta er tilkomið? Hvernig gengur með fjárfestingarlánasjóðina? Það var lögð fyrir stjórnarfund Framkvæmdastofnunar ríkisins 6. marz til 1. umr., áætlun um fjármögnun og lánveitingar á vegum framkvæmdasjóðs 1973. Þá var talað um að afgreiða þetta eftir hálfan mánuð. Það eru 4 vikur í fyrramálið, síðan þetta kom til 1. umr. í stjórn Framkvæmdastofnunar, og það sér enginn árangurinn af þessu. Þarna átti algerlega að breyta um vinnubrögð. Hin vinnubrögðin hjá fyrri ríkisstj. voru úrelt og löngu gengin sér til húðar.

Í 1. gr. laga um Framkvæmdastofnun ríkisins segir um hlutverk og skipulag hennar: „Framkvæmdastofnun ríkisins er sjálfstæð stofnun, sem er ríkisstj. til aðstoðar við stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum. Hún annast hagrannsóknir og áætlanagerð og hefur með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála og lánveitingar samkv. lögum þessum. Stofnunin starfar í þremur deildum: Hagrannsóknardeild, áætlunardeild og lánadeild. Framkvæmdastofnun ríkisins heyrir undir ríkisstjórnina.

Hæstv. forsrh. fylgdi þessu frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins úr hlaði á sínum tíma og var ákaflega hrifinn af þessari stofnun og mjög bjartsýnn á, að hún mundi gjörbreyta áætlanagerð og öll starfsemi í þessum efnum yrði til fyrirmyndar, eftir að þessi stofnun væri komin á laggirnar. Það var tekið inn í þessi lög, að til þess að stjórna daglegum störfum stofnunar þessarar yrðu fulltrúar ríkisstj., einn frá hverjum stjórnarflokki um sig, en hins vegar sagði hæstv. forsrh., að stjórnarandstaðan þyrfti ekki að kvarta, því að hún fengi að kjósa menn í stjórn stofnunarinnar, en stjórnarandstöðunni kemur ekkert við áætlanagerð, henni koma ekkert við dagleg vinnubrögð, þar er hún algerlega útilokuð. Í grg. frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins segir:

„Er stefnt að því að vinna að eflingu atvinnuveganna með skipulegum áætlunarvinnubrögðum, að tengja saman undir einni stjórn stofnanir og sjóði, sem til þessa hafa starfað sitt í hvoru lagi, og að koma á fót heildarstjórn í fjárfestingarmálum. Samkv. því er Framkvæmdastofnuninni ætlað það hlutverk að semja áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma. Stofnunin á enn fremur að hafa frumkvæði í atvinnumálum. Er lögð rík áherzla á, að Framkvæmdastofnunin hafi náið samstarf við aðila atvinnulífsins um það, hvað unnt sé að gera til þess að búa í haginn fyrir hverja atvinnugrein. Enn fremur ber henni í samvinnu við landshlutasamtök að stuðla að þróun byggða og atvinnulífs í hverjum landshluta. Það koma því margs konar áætlunarverkefni í hlut Framkvæmdastofnunar ríkisins:

Framkvæmdastofnunin tók við hlutverki þriggja stofnana, sem voru sameinaðar og lagðar undir eina stjórn, og forsrh. sagði, að slík samfærsla leiddi til hagræðingar og verksparnaðar og miðaði að því að gera stjórnkerfi þessara mála einfaldara. Náin samræming áætlunargerðar og fjárfestingarstjórnar mun auðvelda stofnuninni að eiga frumkvæði að mikilvægum framkvæmdum í atvinnumálum. Nú spyr ég: Hvað hefur orðið einfaldara í gerð framkvæmdaáætlana? Hvað hefur orðið einfaldara með samvinnu eða samræmingu þessara sjóða, sem áður störfuðu sitt í hvoru lagi? Hvað hefur breytzt til batnaðar með tilkomu þessarar ágætu stofnunar? Var kannske um að ræða stórfelldan sparnað við það að koma þessari stofnun á laggirnar? Ég hef hér í höndum upplýsingar um, að kostnaður við allar þessar þrjár stofnanir, Efnahagsstofnun, Framkvæmdasjóð og atvinnujöfnunarsjóð, var til samans árið 1967 11,9 millj., 1968 13,2 millj., 1969 14,1 millj., 1970 16,4 millj. og 1971, síðasta árið, sem þessar stofnanir störfuðu, 20,8 millj. kr. Framkvæmdastofnun tók ekki til starfa fyrr en síðast í febr. á s. l. ári, eins og hæstv. fjmrh. sagði í skýrslu sinni í fyrra, en þrátt fyrir það er heildar rekstrarkostnaður Framkvæmdastofnunarinnar 32,8 millj. kr. og ekkert liggur fyrir í áætlanagerð fyrir árið 1973 enn og kominn apríl. Það hefur tekizt að hækka þennan kostnað um tæp 60%. Til viðbótar þessu eru færðar 7 millj. á stofnkostnað, en við mundum telja, að sumar þessar tölur væri tæplega hægt að færa á stofnkostnað, eins og t. d. veggfóður upp á 79 þús. Ég held, að gólfteppi upp á 1218 þús. sé erfitt að færa á stofnkostnað og gluggatjöld upp á 358 þús. Þannig má lengi telja. Ef við bættum þessari tölu við, þá er kostnaðurinn kominn upp í 39,8 millj. kr. Þetta var nýja „apparatið“, sem átti að leysa allt saman og allt átti að verða til fyrirmyndar, allt átti að leggja fyrir í ársbyrjun eða fyrr, eins og hæstv. fjmrh. sagði í sinni barnalegu trú á þessa stofnun fyrir ári. Það er eftirtektarvert, sem kom fram í fsp. hér á Alþ. um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar, sem mig minnir að hæstv. forsrh. hafi svarað samkv. bréfi framkvæmdaráðsins, og þar kemur fram, að 2,9 millj. kr. hafi verið greiddar fyrir fram upp í húsaleigu, en ekki minnzt á, að stofnunin hafi orðið að taka á sig skuldbindingar umfram þetta, sem í júlímánuði voru komnar upp í 7 millj. kr., — ekki einu sinni gefið til kynna, að það væri neitt á næsta leiti.

Ég held, að það séu nálægt 733 millj. kr. framlög til skólabygginga í fjárl. yfirstandandi árs, en þar er langstærsti liðurinn til byggingar skyldunámsskóla, upp á 478 millj. En samtals er gjaldfærður stofnkostnaður til skólabygginga um 733 millj. kr. Framlag til hafnarmannvirkja er upp á 206 millj. kr. og til sjúkrahúsa og læknisbústaða upp á 171 millj. Þetta eru um 1100 millj. kr. En það eru einmitt þessir liðir, sem fyrst og fremst verður ráðizt á í sambandi við niðurskurð, að því er ég bezt veit. Hæstv. fjmrh. mun væntanlega á eftir skýra nánar frá því, á hvern hátt hann hyggst skera fjárl. niður, en ég vil benda á það í þessu sambandi, að langstærsti liðurinn til verklegra framkvæmda er til skyldunáms skólanna. Á árinu 1970–1971 hækkaði þessi liður um 39%, á árinu 1971–1972 hækkaði þessi liður um 37%, og þegar við tökum tillit til niðurskurðarins, sem fram fór á s. l. ári vegna brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir, þá er hækkun á þessum lið frá fjárl. ársins 1972 til fjárlaga ársins 1973, þegar búið er að draga frá niðurskurðinn frá fyrra ári, aðeins um 7,5%. Sjá allir á þessu, að það hefur verið reynt að halda þessum fjárframlögum eins langt niðri og frekast var unnt. Það er líka rétt að gera sér grein fyrir því, að á sama tíma og þessar hækkanir verða, fyrst 39%, síðan 37% og nú síðast 7,5%, er þróun byggingarvísitölunnar sú, að byggingarvísitalan hefur hækkað frá 1. júlí 1971 eða frá þeim tíma, að núv. hæstv. ríkisstj. tók við, úr 535 stigum upp í 708 stig, núna frá 1. marz s. l., svo að frá því sjónarmiði séð má segja, að þessi framlög hafi verulega lækkað og eru mun lægri en þau voru á s. l. 2–3 árum.

Mér leikur forvitni á að vita og heyra, hvaða aðgerð ætlar ríkisstjórnin að beita við niðurskurð fjárl.? Eru einhver ákveðin verkefni, sem á að skera niður að mestu eða öllu leyti, á sama tíma og er verið að hækka framlög til opinberra framkvæmda á framkvæmdaáætlun? Svo komum við að því, sem er líka stórt atriði málsins, að það eru engar smáframkvæmdir fyrirhugaðar í vegamálum á árinu 1973. Áætluð heildarútgjöld til vegamála eru tæpir 2 milljarðar eða hvorki meira né minna en 1957,7 millj. kr.

Í sambandi við þær brtt., sem formaður fjh.- og viðskn. lýsti hér áðan, get ég ósköp vel talizt á, að þær séu sanngjarnar flestar hverjar, en það, sem ég fellst ekki á, er að mér finnst, að það verði að liggja fyrir, alveg tvímælalaust, hver er sú raunverulega upphæð, sem fjárfestingarlánasjóðirnir eiga að fá, hvernig á að beita niðurskurðarheimild ríkisstj. á fjárl., og svo hitt: getum við ekki um leið ráðizt á tiltekin verkefni og frestað einhverjum verkefnum vegna þess ástands, sem er í þjóðfélaginu? Það er skortur á vinnuafli. Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga að manna framleiðslutæki okkar og framleiða útflutningsverðmæti, því að útflutningsverðmætið er auðvitað afl þeirra verkefna, sem gera skal. Það er ekki hægt að byggja alveg gegndarlaust á fjáröflun innanlands og þó alveg sérstaklega á erlendum lántökum. Lántökur Íslendinga erlendis hafa verið gífurlega miklar á árunum 1971 og 1972, og hafa heildarskuldir við útlönd aukizt á þessum tveimur árum um nærri 6000 millj. kr. eða um 53%. Valkostanefndin segir í áliti sínu, að í því greiðslujafnaðarmarkmiði, sem sett var af n., hafi verið við það miðað, að erlendar skuldir til langs tíma megi ekki aukast um meira en nálægt 2000 millj. kr. á árinu 1973 og væri þá erlend skuldaaukning á árunum 1971–1973 orðin ríflega 70%. Þegar tekið er tillit til annarra erlendra lána, sem tekin verða á árinu 1973, þ. á m. vegna togarakaupa, þá segir valkostanefndin í sinni álitsgerð, að ekki sé rúm fyrir meira en í mesta lagi 700 millj. kr. lántöku til að mæta umræddri fjárvöntun vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarsjóða, ef skuldaaukning á ekki að fara út fyrir hin settu mörk. Hvað telur hæstv. ráðh. og ríkisstj. að skuldaaukning við útlönd verði mikil á árinu 1973? Er ekki stefnt í algera ófæru? Það er gott að ráðast í framkvæmdir. Þær eru bráðnauðsynlegar margar og jafnvel allar þessar framkvæmdir, sem um er talað. En er ekki orðið enn nauðsynlegra að fresta einhverjum framkvæmdum og spenna ekki bogann jafn geigvænlega og gert er?

Nú spyrja menn: Hvaða framkvæmdum villt þú fresta? Ég er ekki fær um að segja, hvaða framkvæmdum eigi að fresta. En mér kemur til hugar ein framkvæmd, og þá ætla ég ekki að fara að nefna neinar smáframkvæmdir. Eins og ástandið er, eins og spennan er í þjóðfélaginu á undanförnum árum og sérstaklega á s. l. ári og sjáanlegt er, að verður á þessu ári, er vinnuaflsskortur við sjávarsíðuna. Hefði heimurinn farizt þó að Sigölduvirkjun hefði verið frestað um eitt ár? Þar er 400 millj. erlend lántaka áætluð, sem kemur á árið 1973, sagði fjmrh. í í framsöguræðu fyrir þessu frv. Má ekki líka reyna að fresta einhverjum öðrum framkvæmdum, eins og t. d. í vegamálum, framkvæmdum við hraðbrautir, þar sem spennan er mest? Dettur engum í stjórnarliðinu þetta í hug? Eða hefur þetta ekki verið athugað? Ef það hefur verið athugað, væri fróðlegt að fá rök fyrir því, af hverju ekkert er til, sem má bíða. Við vitum, að það er búið að spenna bogann til hins ítrasta og miklu meira en það.

Í skýrslu fjmrh. um framkvæmdaáætlunina fyrir árið 1973 var á það bent, að aukning framkvæmda kynni að kalla á aukningu vinnuafls við þær um 1350 mannár, er svarar til um 75% af eðlilegri heildaraukningu mannaflans á einu ári.

Framkvæmdir fóru í flestum greinum fram úr þeirri áætlun, sem í þessu efni var byggt á, enda urðu vaxandi örðugleikar á að fullmanna bátaflotann og önnur framleiðslutæki, og vöruðu samtök hlutaðeigandi atvinnuvega alvarlega við þeirri framvindu. Nú er enn stefnt til verulegrar aukningar framkvæmda, sagði hæstv. fjmrh. hér fyrir ári, sem á sama mælikvarða mætti áætla að kallaði á þúsund mannára aukningu. Á s. l. ári, árinu 1972, var enn stefnt til verulegrar aukningar framkvæmda, og horfði víða til stórvandræða með mannafla á fiskiskipin og við vinnslu á framleiðsluvörum okkar. Nýlega fór fram á vegum sjútvrn., að beiðni samtaka útvegsins, könnun á vinnuafli í sjávarútvegi á svæðinu frá Stokkseyri og vestur um til Snæfellsness. Þessi athugun leiddi í ljós, að á þessu svæði vantar 472 sjómenn á bátaflotann og 578 manns vantar til fiskvinnslustarfa í landi. Á ýmsum stöðum er líka tilfinnanlegur skortur á vinnuafli við þessi störf. T. d. er mikill skortur og hefur ekki verið í mörg ár jafnmikill skortur á vinnuafli á Vestfjörðum, en þar hefur verið tiltölulega góð vertíð í vetur. Það má nefna vinnuaflsskort víðar á landinu m.a. víða á Austfjörðum. En allt þetta virðist hæstv. ríkisstj. ekki taka neitt alvarlega, hvernig komið er. Það er áfram haldið í fjárfestingunum. Það er áfram haldið að afla fjár, taka nógu há lán. Hvernig færi, ef einstaklingur í þjóðfélaginu hugsaði aðeins um að afla sér lána, en ekkert um það, hvað afborganir og vextir af þessum lánum eru orðin stór hluti af tekjum hans? Hvernig fer að lokum, ef þessi stefna á að vera ríkjandi? Ég spyr, og ég vænti þess að fá svör.

Mér finnst líka rétt að geta þess aðeins lítillega hér, sem valkostanefndin segir um lífeyrissjóðina í áliti sínu frá því í nóv. 1972. En hún segir: „Lífeyrissjóðirnir eru að verða einhver mikilvægasta uppspretta lánsfjár í landinu, og er óhjákvæmilegt, að hún verði í vaxandi mæli nýtt til að mæta sameiginlegum fjármögnunarþörfum þjóðarinnar: N. lagði til, að stefnt yrði að því, að afla 400 millj. kr. frá lífeyrissjóðunum á þessu ári, en það samsvarar 30% af ráðstöfunarfé þeirra, þegar frá hafa verið dregin þau fjárfestingarlán, sem þeir hafa þegar skuldbundið sig til að veita úr sjóðunum. Það er augljóst, að svo mikilli fjáröflun verður ekki komið í framkvæmd nema með lagasetningu og undangengnum viðræðum við forustumenn lífeyrissjóða. Hvað hyggst ríkisstj. gera í þessum málum? Hvernig standa þessi mál í sambandi við lífeyrissjóðina? Hafa náðst samningar um meira fjármagn til þarfa fjárfestingarlánasjóðanna, eða hyggst ríkisstj. bera fram frv. um það að skerða ráðstöfunarfé þessara sjóða og veita því til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar? Mér þætti fróðlegt og gagnlegt að frétta, hvað er framundan eða hvað er að frétta í þessum efnum.

Eins og ég hef áður sagt, tel ég fráleitt að afgreiða þetta frv., fyrr en fyrir liggur, á hvern hátt eigi að útvega fjárfestingarlánasjóðunum fjármagn, og fyrir liggur, á hvern hátt eigi að skera niður framlög, sem eru ákveðin á fjárlögum og fjvn. var búin að skera niður eins og frekast var kostur. Ég tel, að þetta í heild eigi að liggja fyrir, áður en að einn þáttur þessarar fjáröflunar og þessara framkvæmda verður afgreiddur.

Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. gefi skýr og greið svör við þeim fsp., sem ég hef lagt hér fram.