02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2979 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að fara út í almennar umr. um þetta frv., sem hér liggja fyrir. Hv. frsm. fjh.- og viðskn. hafa gert glögga grein fyrir sínum viðhorfum í þessum efnum í stórum dráttum. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs, var sú, að ég hef ásamt hv. þm. Gunnari Gíslasyni og Pálma Jónssyni, leyft mér að flytja brtt. á þskj. 192 um þetta frv., sem hér er til umr. Brtt. er í því fólgin, að í stað orðanna „Stofnlína Norðurland-Suðurland“ í 10. gr. komi orðalagið “Til rannsókna á orkuöflunarleiðum fyrir Norðurland: Hér er sem sagt ekki um að ræða breytingu á fjárhæðum, heldur er hér þess freistað að víkka heimild hæstv. ríkisstj. til þess að nota fjármagn á skynsamlegan hátt, sem er ætlazt til í þessari 10. gr. að nota til stofnlínu Norður- og Suðurlands, það megi nota almennt til rannsókna á orkuöflunarleiðum fyrir Norðurland.

Eins og hv. þm. mun eflaust vera kunnugt, hefur það verið stefna forustumanna Norðlendinga í orkumálum, að kannaðar verði allar orkuöflunarleiðir, bæði á Norðurlandi og eins sú leið að afla orku sunnan yfir fjöll, þessar leiðir verði kannaðar og þær verði bornar saman á hlutlægan hátt og síðan tekin ákvörðun í málinu. En eins og mönnum er e. t. v. líka kunnugt, hefur hæstv. ríkisstj. verið þessari leið andvíg, og hv. frsm. meiri hl. nál., hv. 5. þm. Austf., sagði raunar, að hæstv. ríkisstj. hefði, þegar Sigölduvirkjun var ákveðin, ákveðið einhliða, að lína yrði lögð norður yfir fjöll og þar með Norðlendingum tryggð raforka á þann hátt. Ég vil til staðfestingar því, hver er stefna fyrirsvarsmanna Norðlendinga í þessu máli, lesa upp almenna ályktun um orkumál, sem var gerð á fundi fjórðungsráðs Norðlendinga í marz s. l. Þar var um ítrekun að ræða á fyrri stefnu, — stefnu, sem var tekin af milli 60 og 70 sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi á s. l. hausti, en í þessari ályktun segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Fjórðungsráð Norðlendinga telur ástand orkumála á Norðurlandi með öllu óviðunandi og geti svo farið, að orkuskortur hefti framþróun í fjórðungnum á næstu árum. Telur ráðið, að mjög skjótra aðgerða sé þörf, ef komast á hjá vandræðum. Það er skoðun fjórðungsráðs, að með ákvörðunum, sem Fjórðungssamband Norðlendinga hafi ekki átt aðild að, hafi ríkisstj. í reynd tekið til sín af heimamönnum frumkvæði í orkumálum Norðurlands. Telur Fjórðungsráð þetta mjög varhugavert og leggur áherzlu á, að lík mál eigi að leysa í samstarfi ríkisvalds og heimamanna. Ítrekar fjórðungsráð fyrri áskorun sína um, að skipuð verði hið fyrsta, nefnd ríkisstj. og Fjórðungssambands Norðlendinga, sem geri hlutlausa könnun á orkuþörf, orkuöflun og dreifingu raforku á Norðurlandi. Verði sú leið til orkuöflunar valin, sem hagkvæmust reynist fyrir Norðurland sem og þjóðarheildina.“

Þessari brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt þeim, sem ég gat um áðan, er ætlað að halda opnum dyrum til þess að þessa stefnu samtaka heimamanna á Norðurlandi sé hægt að framkvæma. En eins og þetta er orðað í frv., sem borið er fram af hæstv. ríkisstj., yrði ekki um það að ræða að framkvæma þá stefnu að hafa samráð við Norðlendinga um, hvaða orkuöflunarleið yrði farin, ef því er slegið föstu, að því fjármagni, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að verja til þessara mála, sé eingöngu varið til athugana á stæði fyrir stofnlínu Norðurland-Suðurland og til þess að fjármagna þá framkvæmd.

Ég vil aðeins, fyrst ég er farinn að ræða þessi mál hér, gera hv. þm. grein fyrir því, að það lítur svo út, að það verði mjög dýrt fyrir þjóðarbúið í heild að fara þá leið til orkuöflunar á Norðurlandi, sem hæstv. ríkisstj. virðist ætla að fara og virðist staðráðin í að framkvæma, þrátt fyrir að heimamenn vilji fara aðrar leiðir. Ég hef aðeins kannað það, hvað mikil orka yrði flutt eftir þessari línu á næstu árum miðað við orkuspár fyrir Norðurl. v. og Norðurl. e. og miðað við þá framleiðslu á orku, sem er nú á Norðurlandi. Og það kemur út úr því dæmi, að á árunum 1975–1980 verði flutt nokkurn veginn eftirtalið magn orku í millj. kwst: Á árinu 1975 yrðu fluttar 14 millj. kwst, 1976 17 millj., 1977 20 millj., 1978 27 millj:, 1979 39 millj. og 1980 52 millj. Ef lagt er venjulegt arðsemismat á þessa línu, þ. e. a. s. hún látin standa undir þeim kostnaði, sem í er ráðizt vegna hennar, og rekstrarkostnaði af henni, og þessi orka er flutt eftir henni, þá kostar raforkan á Norðurlandi, miðað við, að hún kosti 35 aura í Sigöldu, sem er mjög lágt verð — hún kostar áreiðanlega miklu meira þegar sú virkjun verður komin í gagnið, — en miðað við, að hún kosti einungis 35 aura í Sigöldu, þá er orkuverðið miðað við ofangreindar tölur hvorki meira né minna, þegar það er komið til Norðurlands en 3,35 kr. 1975, 2,82 kr. 1976, 2,45 kr. 1977 og 1,91 kr. 1978, 1979 1,43 kr. og 1980 1,11 kr. Hér er sem sagt um að ræða óheyrilega dýra orku, sem einhver verður að borga, annað hvort þjóðin í heild eða orkunotendur á Norðurlandi. Inn í þetta dæmi er þá alls ekki búið að taka, að það þarf auðvitað að reisa miklu meiri varaaflsstöðvar á Norðurlandi, ef þessi leið verður farin í orkuöflunarmálum fyrir Norðlendinga. Það gefur auga leið, að það er ekki hægt að sætta sig við það, að ein lína norður yfir fjöll eigi að fullnægja verulegri orkuþörf fyrir heilan landsfjórðung. Við þekkjum dæmin hér af því, hvað það hefur haft slæmar afleiðingar á Suðvesturlandi, þar sem eru þó tvær línur frá stórum orkuverum til höfuðborgarsvæðisins, að þar hefur orðið samt sem áður verulegt tjón, beint tjón, vegna þess að orkuskortur hefur orðið, þegar þessar línur hafa bilað, hvað þá þegar um er að ræða línu yfir hálendið, sem engin reynsla er fyrir og allar athuganir, sem þegar hafa verið gerðar, benda í þá átt, að það verði mjög undir hælinn lagt, hvað þessi lína yrði örugg. Og við vitum það, að í slæmum veðrum um miðjan vetur, verður ekki farið inn á hálendið til þess að gera við slíkar línur, jafnvel svo að dögum eða vikum eða kannske mánuðum skiptir, þannig að varaafl þarf auðvitað að auka mjög á Norðurlandi, ef þessi leið verður farin, og það er ekki komið inn í þetta dæmi. Ég get til hliðsjónar nefnt það hér og upplýst hv. þm. um það, að nú í haust kom út skýrsla um gufuaflsvirkjanir við Mývatn eða þar í grennd, og þær benda til miklu hagstæðari niðurstöðu um orkuöflun fyrir Norðlendinga heldur en þessi leið, sem hæstv. ríkisstj. virðist vera búin, ef svo mætti segja, að ákveða eða a. m. k. vilja ákveða með þessu orðalagi í þessari framkvæmdaáætlun. Kemur fram í þeirri skýrslu, að 8 megaw. virkjun muni kosta 274 millj. kr. í heild eða miklu minna en lína norður og að kostnaðarverð á kwst. raforku úr þeirri virkjun sé 60 aurar, 12 megaw. virkjun muni kosta 311 millj. kr. og kostnaðarverð raforku úr þeirri virkjun muni vera 44 aurar og 16 megaw. virkjun muni kosta 365 millj. kr. og kostnaðarverð á kwst. 38 aurar. Það er sem sagt þrisvar sinnum minni kostnaður við þessa orkuöflun heldur en orkukostnaður verður á Norðurlandi 1980 samkv. þeirri leið, sem hæstv. ríkisstj. virðist vilja fara, þvert ofan í óskir allra heimamanna. Og er þá, eins og ég sagði áðan, alls ekki tekið tillit til þess, að það þarf að gera stórátak um varaafl á Norðurlandi.

Hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að ég vil freista þess að bera fram þessa brtt., og ég vil óska þess þegar í stað við hæstv. forseta, að hann láti fara fram nafnakall um þessa till., þannig að það verði alveg ljóst, ef hún verður felld, að þá sé hæstv. ríkisstj. og þar með þm. Norðlendinga að ákveða það, að ekki skuli fara að óskum Norðlendinga í þessu efni og það skuli fara að á þennan óhagkvæma hátt fyrir þjóðina í heild, eftir því sem bezt verður séð. En það eru óskir heimamanna, eins og ég las upp hér áðan, að það verði sett á laggir n. til þess að kanna þetta. Og þetta er fljótkannað mál, því að það liggja margar og miklar upplýsingar fyrir um það, og þá ætti að koma óyggjandi í ljós, ef þetta er rangt hjá mér. En ég tel, að allar líkur bendi í þá átt, sem ég hef hér verið að segja um þetta efni.

Það er annað atriði í sambandi við þetta frv. um heimild fyrri ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973, sem ég vildi gera að örstuttu umræðuefni. Það er brtt. hv. fjh.- og viðskn. um 10. gr., þ. e. e-liður brtt. Hann fjallar um Norðurlandsáætlunina, hafnir og flugvelli. Þar er lagt til, að aflað verði 4 millj. kr. í viðbót til þessarar áætlunar vegna öldubrjótar á Siglufirði. Að því er mér skildist á hv. frsm. meiri hl. n. Ég get að sjálfsögðu verið meðmæltur því, að þetta sé gert. En ég verð að lýsa yfir óánægju minni yfir því, að þetta skuli hafa verið gert, en þá jafnframt ekki tekinn til athugunar niðurskurður, sem hæstv. ríkisstj. gerði á þessu á sínum tíma. Hæstv. forsrh. upplýsti hv. Alþ. um það á sínum tíma, að það mundi verða aflað 50 millj. kr. til hafna og flugvalla á Norðurlandi eftir Norðurlandsáætlun á þessu ári, og m. a. yrði þá ákveðinni fjárhæð varið til hafnargerðar í Ólafsfirði. Síðan kom frv. hæstv. ríkisstj. fram, og þá var sú framkvæmd skorin niður og þá líka öldubrjótur á Siglufirði. En nú hefur hann fundið náð fyrir augum hæstv. ríkisstj., væntanlega vegna orða hæstv. forsrh., og ég vildi gjarnan óska eftir því, að hann myndi eftir þeim orðum, sem hann hafði hér við hv. Alþingi, og tæki til athugunar, hvort ekki væri rétt að standa við hitt líka, fyrst hann er búin að leiðrétta þennan þátt í því, sem hann sagði hér áður, og taka þá inn það, sem hann sagði í sama skipti, og að framlag til Ólafsfjarðarhafnar yrði einnig tekið hér inn í og Norðurlandsáætlun fengi 50 millj. af þeirri fjáröflun, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að afla eftir þessu frv.