03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

9. mál, lánsfé til hitaveituframkvæmda

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð í sambandi við það að vísa upphaflegri till. beint til ríkisstj. Í sjálfu sér hefði þurft að orða þetta á þennan veg, eins og niðurstaðan var í fjvn., vegna þess að till. er einföld og felur í sér að skora á hæstv. ríkisstj. að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum lánsfé til hitaveituframkvæmda. Fyrir nokkru voru hér umr. um hitaveituframkvæmdir og nokkuð harðar um tíma. Þá undirskrikaði ég það af minni hálfu og beindi þeim orðum til hæstv. iðnrh. að sérstakt átak yrði gert til þess að leysa fjármögnun hitaveituframkvæmda, sem fram undan væru.

Mig langar í þessu tilfelli til að nefna eitt dæmi norðan frá mínu byggðarlagi, Húsavík. Í nærri 40 ár voru menn að deila þar um, með hvaða hætti menn skyldu framkvæma hitaveitu á staðnum. Fram komu hugmyndir 1934 eða 1935 frá þekktum iðjuhöldi, búsettum hér í Reykjavík, um ákveðna lausn á málinu. Æ ofan í æ urðu harðar deilur um það á staðnum, með hvaða hætti menn skyldu framkvæma hitaveitu og þá um fjármögnun. En loksins þegar samstaða náðist um að leysa vandann, tók það aðeins hálft ár að leggja leiðsluna og framkvæma verkið, og þá auðvitað kom fjármagnsþörfin.

Það er alveg sama, sem er að ske í hreppsfélaginu á Seltjarnarnesi. Lengi höfðu verið vangaveltur um, hvaðan menn skyldu fá heita vatnið. Síðan var ákveðið að bora, en ekki taka vatnið frá Reykjavík, og þá kom fjármagnsþörfin fram. Þess vegna er ekki hægt að kenna neinni sérstakri ríkisstj. um illvilja eða velvilja. Það er oft fólkið heima fyrir, sem deilir hvað lengst um, hvernig á að framkvæma hlutina til þess að ná í heita vatnið, og slíkt hefur nú gerzt í Hafnarfirði, en ég rek þá sögu ekki neitt nánar. Nú hefur Kópavogur haft áhuga á hitaveitu lengi og gert samkomulag við Reykjavík, og einnig kemur fram áhugi í Garðahverfinu og víðar á Suðurnesjum. 1. þm. Reykn. ef ég man rétt, hélt hér jómfrúræðu sína á þingi fyrir 14 árum einmitt um stórátak í hitaveitumálum fyrir suðursvæðið í sínu kjördæmi.

Þetta gildir víða úti um land. Það er enn deilt um, hvort á að bora eða leggja langar leiðslur frá heitu vatni í námunda við viðkomandi byggðarlag eða ekki. Þegar heimamenn loksins hafa tekið ákvörðun um, hvernig á að framkvæma hlutina, þ. e. a. s. ná í vatnið, þá kemur stórkostleg eftirspurn eftir fjármagni. Það, sem við flm. viljum með þessari till., er að tryggja það, að ríkisvaldið sinni þessari beiðni, þegar hún kemur fram. Fari svo, að Hafnarfjörður og Garðahverfi og Suðurnes komist að niðurstöðu um, með hvaða hætti heppilegast verði að ná í heita vatnið, skapast fjármagnsþörf upp á mörg hundruð millj. Það er það verkefni, sem þarf að glíma við, hvaða ríkisstj. sem situr.