03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3005 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum ítreka öll meginatriðin í ræðu síðasta ræðumanns. Hann vék þar að því skipulagsleysi og stefnuleysi, sem ríkir í þeim málum, er varða leigu og sölu íbúðarhúsnæðis á þessu landi. Þetta er hárrétt. Ég hygg, að þingheimur ætti að gera sér ljóst, að það fólk, sem býr í leiguhúsnæði hér á landi, er efnaminnsta fólkið. Það er það fólk, sem þarf á margan hátt að sinna með félagslegum aðgerðum. En því miður hafa málin yfirleitt snúizt þannig, að íbúðareigendum er miklu fremur sinnt heldur en þeim, sem þurfa að leigja húsnæði. Íbúðareigendum eru veitt ýmiss konar skattaleg hlunnindi, sem íbúðarleigjendur fara á allan hátt á mis við.

Það eru til a. m. k. þrjár leiðir til þess að styðja á bakið á efnaminnsta fólkinu í landinu, sem þarf að búa í leiguhúsnæði. Ein er sú að veita leigjendum á einhvern hátt skattfríðindi með hluta af húsaleigu. Það er aðferð, sem að mínu viti kemur mjög til greina, og það mundi þá tryggja það, að húsaleiga væri rétt upp gefin. Í öðru lagi er til sú leið, sem ég hygg, að sé farin á Norðurlöndum, t. d. í Noregi, að hið opinbera veitir fólki ákveðinn húsaleigustyrk. Og í þriðja lagi er sú leið, sem er sú sjálfsagða, þ. e. að byggja leiguhúsnæði skipulega á ódýran hátt, þannig að það komi efnaminnsta fólkinu að verulegum notum. Því miður ríkir hér lögmál hins frjálsa markaðar í húsnæðismálum. Og okkur vill gleymast, að húsnæðisleigjendur munu vera, að ég hygg, milli 30 og 40 þús. manns í þessu landi, þ. e. a. s. feður og fjölskyldur, þannig að þetta er mikill hópur manna. Og eins og ég sagði áðan, þetta er það fólk, sem yfirleitt býr við erfiðust kjör og er pastursminnst í þjóðfélagsbaráttunni. Og það er einmitt þetta fólk, sem hlýtur að koma í hlut Alþ. að styðja við bakið á, miklu fremur en það fólk, sem er búið að koma sér vef fyrir í miklu og dýru húsnæði og hefur hagnazt á þeirri verðbólgu, sem er í þessu þjóðfélagi.

Ég verð að segja það, að mér kemur dálítið spánskt fyrir sjónir, að hið háa Alþ. getur talað dögum saman um það, þó að það vanti kannske sjónvarp út á einstaka bæi á annesjum. Ég skil það fullkomlega, að það er eðlilegt að veita fólki þátt í menningu þjóðarinnar. En þegar kemur að jafnmikilli þörf og sjálfum húsnæðismálunum, þ. e. a. s. að bæta úr húsnæðisþörf þeirra, sem þurfa að taka á leigu húsnæði, þá er eins og þingheimur sitji þögull og láti sig það litlu skipta.

Ég vil eindregið skora á þm. að styðja álit minni hl. allshn. í þessum málum.