31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

272. mál, aukinn húsakostur sjúkrahúss á Akureyri

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Það er löngu svo komið, að byggingar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri svara ekki kröfum tímans, þótt verulegar þættu og ágætar nýreistar. Þrengslin eru orðin ofboðsleg og vinnuskilyrði mjög erfið og úrelt, búnaður ófullkominn. Sjúkrahúsið þarf þó að sinna lækningaþörfum um a.m.k. 30 þús. íbúa eða á svæði vestan frá Húnaþingi og allt austur á Austfirði.

Fram að þessu og enn verður að telja, að sjúkrahúsið hafi búið og búi við mjög góðan læknakost og hjúkrunarlið, en verði ekki hið bráðasta bætt úr húsakosti og búnaði, hljóta þeir kostir að bresta. Ungur og þrautmenntaður yfirlæknir skurðdeildar varð í sumar að leggja nótt með degi til að anna kröfum til deildarinnar, því að meðlæknir hans taldi sig ekki geta starfað þar við gildandi aðstæður, þrengsli og vanbúnað. Ágætur barnalæknir og vonandi tveir innan tíðar hafa aðeins ráð á einni til tveimur stofum við sjúkrahúsið fyrir sína mörgu litlu umsjársjúklinga. Tveir augnlæknar af 6 í landinu, sem skera upp við augnsjúkdómum, eru nú búsettir góðu heilli á Akureyri, en uppskurðaraðstaða þeirra á Fjórðungssjúkrahúsinu er slík, að 60 manns eru nú á aðgerðarbiðlista þeirra. Geðdeild er engin, rannsóknaraðstaða mjög ófullkomin. Lyflækningadeildin er sennilega næst því að anna sínu hlutverki.

Sem betur fer hafa heilbrigðisyfirvöld alltaf sýnt góðan skilning á nauðsyn þess að auka húsakost og búnað Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og raunar gert það að stefnumiði, að það beri að gera sambærilegt sjúkrahúsum eins og Landspítalanum eða Borgarspítalanum, m.a. út frá því sjónarmiði, að skynsamlegt væri að hafa eitt fullbúið sjúkrahús utan þéttbýlissvæðanna við Faxaflóa, — sjúkrahús, sem gæti annað óvæntum neyðartilfellum, sem þar kynnu að koma upp, svo sem vegna landskjálfta, loftárása eða einhvers slíks. 1968–1969 voru teikningar viðbyggingar við Fjórðungssjúkrahúsið í gangi. Áætlun var í mótun, að nýr húsakostur kæmist í gagnið árin 1973–1976. Seinna kom sú skoðun upp og vafalaust með réttu, að betur þyrfti að búa en þar var í fyrstu ætlað, og nýjar athuganir hófust, nýjar áætlanir, nýjar teikningar. Sá kvittur gengur manna á meðal norðan fjalla, að ríkisvaldinu ægi svo það byggingar- og búnaðarátak, sem gera þurfi vegna sjúkrah. á Akureyri, að því séu að fallast hendur og vilji skjóta málinu á frest, sem væri nánast rothögg á annars þá góðu læknisþjónustu, sem enn er völ á á þessu svæði. Þessu vil ég ekki trúa að óreyndu, og svo mun um ótal fleiri. Því leyfi ég mér að bera eftirfarandi spurningu fram til heilbr.- og trmrh.: „Hvar er undirbúningur að auknum húsakosti sjúkrahússins á Akureyri á vegi staddur, og hvenær má vænta þess, að byggingarframkvæmdir hefjist?“