03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3007 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

199. mál, skipulag byggðamála

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 8 þm. sjálfstæðismanna að flytja till. til þál. um skipulag byggðamála og auknar ráðstafanir til hagkvæmrar byggðaþróunar á þskj. 383. Hér er um að ræða, að ég hygg, ítarlegustu þáltill., sem flutt hefur verið fyrr eða síðar á hv. Alþ. um þetta efni, og hún er að því feyti til sérstæð, að hún er flutt af þm. úr öllum kjördæmum landsins, en það hygg ég, að sé nánast einsdæmi um slíkt mál. Sú staðreynd, að þm. úr öllum kjördæmum landsins, þ. á m. þm. Reykv., flytja á framangreindu þskj. svo ítarlega og afdráttarlausa till. til þál. um byggðamálin, undirstrikar þá skoðun þingflokks sjálfstæðismanna, að áframhaldandi röskun byggðar í landinu, eins og það fyrirbrigði er nánast skilgreint í grg. till., sé félagslega og efnahagslega dýr þjóðinni allri, hvar sem menn búa, í sveit eða við sjó, í borg eða bæ. Í grg. með till. er stutt óyggjandi rökum, að áframhaldandi aðflutningur fólks til höfuðborgarsvæðisins skapi þar þrýsting á húsnæðismarkaðinum og aukna þörf sífellt dýrari opinberra framkvæmda. Á það er bent sem augljósa staðreynd, að á Reykjavíkursvæðinu sé risin öflug höfuðborg, sem gegni prýðilega því hlutverki að vera miðstöð þjóðlífsins, af þeim sökum sé hraðstækkun höfuðborgarsvæðisins með aðflutningum fólks frá landsbyggðinni óþörf, en jafnframt ákaflega dýr því fólki, sem þar býr. Á hinn bóginn nýtast mannvirki og auðlindir þjóðarinnar verr en skyldi á landsbyggðinni vegna brottflutnings fólks úr heilum landshlutum. Af þessum sökum fylgir tvöföld efnahagsleg og félagsleg verðmætafórn áframhaldandi byggðaröskun, bæði í höfuðborgarþéttbýlinu og strjálbýlinu.

Samhengið milli þeirrar starfsemi, sem rekin er í höfuðborgarþéttbýlinu og á landsbyggðinni, er mjög flókið í nútímaþjóðfélagi. Veruleg verkaskipting er orðin á milli fólksins, sem býr í þessum byggðarlögum. Á landsbyggðinni fer fram megnið af útflutningsframleiðslunni og matvælaframleiðslu fyrir innlenda neyzlu, en á höfuðborgarsvæðinu starfar mikill fjöldi að þjónustustörfum, sem verður að framkvæma, til þess að hin tækni- og vélvædda framleiðsla á landsbyggðinni geti átt sér stað. Þar er auk heldur miðstöð vísinda, lista, menntunar og menningar í þjóðlífinu, svo að nokkuð sé nefnt. Ekkert nútíma velferðarþjóðfélag getur lifað án hvorrar tveggja þessarar starfsemi, sem rekin er í framangreindum landshlutum. Það gefur auga leið, að miklir og flóknir fjármagnsstraumar liggja á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins af framangreindum sökum. Sé aðeins tekið eitt dæmi, má minna á, að landsfólkið allt stendur undir miklum og sívaxandi atvinnurekstri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem er starfsemi miðstjórnarstofnana ríkisins og ýmissa annarra, svo sem Háskóla Íslands og viðlíka stofnana. Með sköttum sínum stendur allur landslýður undir starfsemi þessara aðila. Fólk, sem við þessar stofnanir vinnur, þarf ýmiss konar þjónustu og vörur, sem framleiddar eru á höfuðborgarsvæðinu. Þessi mikli og margvíslegi fjármagnsstraumur, sem kemur að verulegum hluta frá landsbyggðinni, hefur því ekki einungis mikil bein áhrif á atvinnu- og efnahagslíf höfuðborgarbúa til eflingar þess, heldur einnig meiri óbein áhrif en flesta grunar að óathuguðu máli. Upp á móti þessu vegur, að miklar fjárhæðir renna frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar á ýmsan hátt. Sem dæmi mætti taka, að til samgöngukerfisins, sem raunar er í þágu allra landsmanna að verulegu leyti, renna miklar fjárhæðir, sem höfuðborgarbúar greiða að hluta með sköttum sínum í einni eða annarri mynd.

Hér er aðeins dregin upp gróf mynd af því flókna fjármagnsstreymi og því nátengda samhengi, sem er í starfsemi, sem fram fer á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Þegar þetta er skoðað, sést, að því fer víðs fjarri, að unnt sé með nokkru móti að gera það dæmi upp, ef sanngjarnlega er á málið horft, hvort annar hvor aðilinn fái í sinn hlut óeðlilegan skerf af þjóðartekjunum til fjármunamyndunar, t. d. með starfsemi byggðasjóðs. Sú heildarniðurstaða skiptir öllu máli, að það fjármagn, sem varið er á skynsamlegan hátt til þess að hafa áhrif á byggðaþróun í rétta átt, er arðbær fjárfesting fyrir þjóðarbúið í heild, hvar sem menn búa á landinu.

Sjálfstæðismenn hafa jafnan látið byggðamálin sig miklu skipta. Sú saga verður ekki rakin hér ítarlega. Hér skulu nefnd nokkur lagafrv. og þáltill., sem þeir hafa flutt á undangengnum þingum, allt frá árinu 1952, en það ár fluttu Sigurður Bjarnason, Magnús Jónsson, Jónas G. Rafnar og fleiri frv. til laga um atvinnubótasjóð ríkisins. Þetta mál var ekki útrætt á því þingi, en hins vegar var þá samþ. þál., sem Sigurður Bjarnason var 1. flm. að, um undirbúning að heildaráætlun í þeim tilgangi að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Á áratugnum 1950–1960 fluttu sjálfstæðismenn margar till. og frv. í byggðamálum, og á þinginu 1960–1961 var samþ. þál., sem Sigurður Bjarnason og Magnús Jónsson voru m. a. flm. að, um ráðstafanir til framleiðsluaukningar og jafnvægi í byggð landsins. Á þinginu 1965–1966 urðu svo þau þáttaskil, að þá var samþ. stjórnarfrv. til laga um atvinnujöfnunarsjóð.

Í kjölfar laganna um atvinnujöfnunarsjóð var einnig ráðizt í að gera og framkvæma byggðaáætlanir. Fram til þessa má segja, að meginverkefnin í byggðaáætlanagerð séu fjögur. Fyrst var ráðizt í samgönguþátt Vestfjarðaáætlunar, þá atvinnumálaþátt Norðurlandsáætlunar, síðan Austurlandsáætlun í samgöngumálum og síðast samgönguþátt Norðurlandsáætlunar. Mörg hundruð millj. kr. hefur verið varið í samræmi við þessar áætlanir og frekari byggðaáætlanagerð undirbúin í öðrum landshlutum. Þessi vinnubrögð og samræmdu átök í byggðamálum voru hafin undir forustu sjálfstæðismanna, þrátt fyrir mikla og óbilgjarna gagnrýni þáv. stjórnarandstæðinga. Þau mörkuðu þáttaskil í byggðastefnu og framkvæmd hennar hér á landi. Í tengslum við þessa áætlanagerð fór fram mikil og víðtæk könnun á þeim þáttum byggðavandans, sem þá var brýnast að gera sér grein fyrir.

Þær till., sem við sjálfstæðismenn gerum nú í byggðamálum, eru í beinu framhaldi af þeim tímamótaaðgerðum, sem fyrrverandi ríkisstj. beitti sér fyrir á síðasta áratug og hér hefur lauslega verið drepið á. Í þessu sambandi skal þó á það bent og lögð á það þung áherzla, að þessar till. eru fyrst og fremst aðgerðir, sem að áliti okkar flm. er unnt og verður að grípa til strax. Miklu fleiri ráðstafanir koma til greina um svo flókið mál sem hér um ræðir, en við teljum, að þessum till. sé sammerkt, að unnt sé að grípa til þeirra þegar í stað og raunar þótt fyrr hefði verið.

Þau þáttaskil urðu einnig á síðasta áratug, að tekin var upp ný byggðastefna. Hún var í því fólgin að leggja höfuðáherzlu á að efla byggð í hverjum landshluta sem heild, í stað þess að áður var stefnt að því að viðhalda byggð, þar sem byggð var fyrir, án tillits til aðstæðna og vaxtarskilyrða. Hin nýja stefna hefur það m. a. í för með sér, að lögð er áherzla á að efla þau byggðarlög, sem bezt hafa vaxtarskilyrði innan hvers landsfjórðungs, þannig að heildarmannfjöldaþróun hans verði sem hagstæðust, jafnframt því — og það vil ég leggja sérstaka áherzlu á, að minni og veikari byggðarlög séu efld, eftir því sem unnt er. Þessi byggðastefna, sem hvarvetna hefur hlotið viðurkenningu fróðra manna um byggðamál, bæði hér á landi og í nágrannalöndum, styðst við þau augljósu rök, að mikilvægir málaflokkar þróast í takt við heildaríbúatölu ákveðins landssvæðis. það er t. d. alveg ljóst, að þeim mun fleira fólk sem byggir Norðurland eystra, því meiri umferð verður á aðalvegakerfi Norðurlands vestra og því meiri áherzlu verður að leggja á að koma því í svipað horf og hér í kringum höfuðborgarsvæðið.

Það er almenn regla, að þróun samgangna, heilsugæzlu, skólamála og fleiri málaflokka fer mjög eftir því, hver fólksfjöldi og fólksfjölgun er í heilum landshlutum, þannig að ekki er nægilegt að líta afmarkað á vöxt einstakra byggðarlaga, heldur fara búseturskilyrði í hverju og einu þeirra að verulegu leyti eftir mannfjöldaþróun í viðkomandi landshluta sem heildar.

Þegar hin nýja stefna og vinnubrögð í byggðamálum voru tekin upp á síðasta áratug undir forustu sjálfstæðismanna, stóð þannig á í íslenzku þjóðlífi, að verðhrun og aflabrestur dundu yfir, þannig að útflutningstekjur þjóðarinnar minnkuðu á skömmum tíma um helming. Verulegt atvinnuleysi fylgdi í kjölfar þessara áfalla, svo sem vænta mátti, og við þetta kom skýrt í ljós, hver sérstaða atvinnulífsins er á landsbyggðinni, því að atvinnuleysi var þar miklum mun meira en hér á höfuðborgarsvæðinu. Einkum var þetta áberandi á Norðurlandi. Það gefur auga leið, að þegar svo er ástatt, skiptir meginmáli að beina athyglinni í byggðamálum að eflingu atvinnulífsins. Þetta var gert, bæði með framkvæmd atvinnumálaþáttar Norðurlandsáætlunar og starfi atvinnumálanefnda, sem störfuðu um skeið í öllum landshlutum. Þessari varnarorrustu, ef svo mætti að orði komast, er nú lokið fyrir allnokkru. Nú skiptir meginmáli í atvinnumálum landsbyggðarinnar, að auka þarf fjölbreytni atvinnulífsins með langtímamarkmið í huga, en eins og ástatt er nú, skipta skipulagsbreytingar á húsnæðismálakerfinu höfuðmáli, svo og að bæta félagslega aðstöðu á landsbyggðinni í sem víðustum skilningi og jafnframt að endurskipuleggja allt byggðastarf í stjórnkerfi landsins, þannig að það verði ekki aukastarf í ríkisbákninu, eins og einn hv. þm. úr stuðningsliði hæstv. ríkisstj. komst að orði í umr. hér á dögunum. Við þessar nýju aðstæður eru till. okkar miðaðar og þá reynslu og þekkingu, sem aflazt hefur með þeim nýju vinnubrögðum, sem fyrrv. ríkisstj. tók upp í byggðamálum á sínum tíma.

Miklar blikur eru á lofti í byggðamálum og veruleg hætta á, að röskunin fari jafnvel vaxandi á næstunni, ef ekki er gripið til nýrra ráða til lausnar þessum vanda. Um þetta segir svo í grg. till. okkar, með leyfi hæstv. forseta.

„Aldurskiptingu þjóðarinnar er þann veg háttað, að miklu fleira og fjölmenntaðra ungt fólk velur sér búsetu og starf á þessum áratug en nokkru sinni fyrr. Um 40 þús. Íslendingar verða tvítugir á áratugnum 1971–1980. Vitað er, að hlutfallslega fleiri úr þessum hópi hafa sérmenntun eða afla sér hennar. Þetta hefur það í för með sér m. a., að aukinn fjöldi ungs fólks mun velja sér starf í úrvinnslu- og þjónustugreinum og velja sér búsetu í félagslega þróuðu umhverfi. Til viðbótar þessu er á að líta eftirfarandi atriði, sem hafa í för með sér stóraukna hættu á vaxandi byggðaröskun:

a) Atvinnuvegirnir utan Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins eru einhæfir, og horfur eru á mikilli áframhaldandi framleiðniaukningu í landbúnaði og sjávarútvegi, þannig að framleiðsla þeirra hefðbundnu bjargræðisvega landsbyggðarinnar mun aukast verulega án viðbótarvinnuafls að marki.

b) Á landsbyggðinni er jafnan við sérstæð húsnæðisvandamál að etja. Fólk flytur þangað ógjarnan, ef það þarf að hefja búsetu með því að koma upp yfir sig húsnæði. Aftur á móti kaupa ýmsir úr strjálbýlinu íbúðir á Reykjavíkursvæðinu, jafnvel löngu áður en þeir flytjast þangað.

c) Mismunur á aðstöðu til heilbrigðisþjónustu, menntunar, menningarlífs og samgangna er augljós milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

d) Rík tilhneiging er til þess að velja stórfyrirtækjum og opinberum stjórnsýslustofnunum stað á höfuðborgarsvæðinu.

e) Hætt er við, að stjórnvöld grípi til niðurskurðar á framkvæmdum á landsbyggðinni í þeirri viðleitni að hamla gegn verðbólgu, þótt þensluáhrif framkvæmda á Suðvesturlandi ráði úrslitum um þann þátt verðbólguvandans og niðurskurður framkvæmda á landsbyggðinni geti beinlínis haft öfug áhrif:

Í samræmi við þessar staðreyndir, sem ég hef talið hér og eru úr grg. með till., teljum við flm. að grípa þurfi til skjótra úrræða. Við teljum, að þegar sé fyrir hendi næg þekking og reynsla til þess að framkvæma þegar í stað þessar till. okkar, sem hér liggja fyrir, jafnframt því sem könnun og athugun á öllum öðrum hliðum byggðavandans sé haldið áfram.

Herra forseti. Ég vil ekki tefja störf hins háa Alþ. með því að gera nánari grein fyrir tillögu okkar flm. í byggðamálum en ég hef þegar gert. Þeim fylgir ítarleg grg., sem hv. þm. hafa vafalaust kynnt sér. En ég vil leggja áherzlu á þetta að lokum: Nágrannaþjóðir okkar hafa á síðustu árum gert byggðamálin að meginþætti í stjórnmálum við hlið umhverfis- og náttúruverndarmála. Árangurinn er sá, að gripið hefur verið til stórfelldra ráðstafana til þess að stýra byggðaþróuninni inn á hagkvæmari brautir fyrir viðkomandi þjóðfélag. Ég lít á þessar till. okkar sjálfstæðismanna sem veigamikið spor í hliðstæða átt, í framhaldi af starfi fyrrv. ríkisstj.

Því fylgja ýmsir kostir að búa á landsbyggðinni, eins og hv. þm. Oddur Ólafsson benti réttilega á í umr. hér á dögunum. Þar er heilsusamlegt að búa, og þar komast menn auðveldlega í nána snertingu við náttúru okkar kæra lands. En það skortir jafnframt ýmislegt, sem menn gera kröfur til í nútímaþjóðfélagi. Með því að samþ. till. okkar í byggðamálum á hið háa Alþ. nú þess kost að stuðla að því að bæta skilyrðin til þess að nýta betur afla kosti Íslandsbyggðar. Ég vænti þess, að slíkum till. verði vel tekið á hinu háa Alþ. og þær verði samþ. á þessu þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.