31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

272. mál, aukinn húsakostur sjúkrahúss á Akureyri

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við undirbúning nýrrar sjúkrahúsbyggingar við sjúkrahúsið á Akureyri hefur á ýmsan hátt verið beitt öðrum vinnubrögðum en tíðkazt hafa til skamms tíma við aðdraganda að sjúkrahúsbyggingum. Þannig hefur verið lögð meiri áherzla en títt er á athugun á þjónustuhlutverki sjúkrahússins á Akureyri í framtíðinni, áður en til ákvörðunar um endanlega gerð þess og teikningu kæmi. Jafnframt hefur verið gerð allýtarleg athugun á heppilegu fyrirkomulagi hinna ýmsu deilda sjúkrahússins. Þessi forvinna er unnin í tvíþættum tilgangi. Annars vegar er ætlunin að auðvelda með þessum hætti starf arkitektanna og flýta því, og hins vegar er hugmyndin að tryggja með þessu móti betur en ella, að sú bygging, sem ris, verði í samræmi við þær kröfur, sem gera verður til sjúkrahúsa á Akureyri á komandi áratugum. Ýmislegt af því starfi, sem þannig hefur verið unnið, hefur væntanlega gildi fyrir aðrar sjúkrabúsbyggingar í landinu í framtíðinni, og hluta af þessu starfi má skoða sem lið í heildaráætlun um sjúkrahúsbyggingar í landinu öllu.

Sjúkrahúsið á Akureyri á að vera almennt sjúkrahús fyrir Akureyri og nærsveitir og sérfræðisjúkrahús fyrir Norðurland og hluta Austurlands. Gert er ráð fyrir því, að sjúkrahúsið verði þannig búið tækjakosti og sérmenntuðu starfsliði, að það geti leyst af hendi flest þau verkefni, sem nú eru unnin á sjúkrahúsum hér á landi. Sjúkrahúsið á að vera aðalvarasjúkrahús landsins utan höfuðborgarsvæðisins með tilliti til almannavarna. Við áætlanagerð um uppbyggingu sjúkrahússins er stefnt að því, að fullbyggt geti það séð fyrir áætluðum þörfum 1990, en uppbygging gerist í áföngum. Samkv. þessum áætlunum þarf að sjá fyrir eftirfarandi vistunarrými á Akureyri árið 1990: Á sjúkrahúsi fyrir bráða líkamssjúkdóma 180 rúm, á sjúkrahúsi fyrir geðsjúka 80 rúm, á hjúkrunar- og endurhæfingarheimilum 125 rúm og á fávitahælum 80 rúm. Núverandi vistunarrými er hins vegar svofellt: Á sjúkrahúsum fyrir bráða líkamssjúkdóma 120 rúm, á geðsjúkrahúsum ekkert rúm, á hjúkrunarheimilum 70 rúm, og á fávitahælum 50 rúm. Þarf þannig að sjá 40 manns fyrir nýju vistunarrými fyrir bráða líkamssjúkdóma og geðsjúka til þess að mæta áætlaðri þörf 1990.

Samkv. þeim áætlunum, sem fyrir liggja, er áformað að reisa í tengslum við það sjúkrahús, sem nú er starfandi, nýtt sjúkrahús fyrir bráða líkamssjúkdóm. Ætti þetta sjúkrahús að sjá fyllilega fyrir þörfunum á þessu sviði og hafa vistunarrými fyrir 180 sjúklinga. Á hinn bóginn er áformað, að núverandi sjúkrahúsbygging verði í áföngum að geðsjúkrahúsi og hjúkrunarheimili fyrir geðsjúka. fyrir öðrum þörfum vistunarrýmis er ætlunin, að séð verði utan þessarar stofnunar, þ.e.a.s. hjúkrunar- og endurhæfingarheimilum og fávitahælum, er risu utan sjúkrahússvæðisins.

Í samræmi við það markmið, að sjúkrahúsið geti leyst af hendi flest þau verkefni, sem nú eru unnin á sjúkrahúsum hér á landi, og sé aðalvarasjúkrahús landsins utan höfuðborgarsvæðisins, er áformað, að reistar verði mjög fullkomnar röntgenrannsókna- og gjörgæzlud. við sjúkrahúsið og skurðdeild verði þar vel búin. Þá er áætlað, að í sjúkrahúsinu geti verið heilsuverndarstöð og göngudeild, en skipulagi verður hagað svo, að síðar megi reisa þar fullkomna heilsugæzlustöð með víðtækri sérfræðiþjónustu. Þróunin í öðrum löndum með hliðstæð skilyrði og hér á Íslandi er sú, að þessi þáttur læknisþjónustunnar fari mjög vaxandi, og því er sjálfsagt að taka mið af þeim við áform okkar nú. Læt ég þetta nægja um hlutverk sjúkrahússins og almenna skipan.

Til undirbúnings teikningu sjúkrahússins hefur verið unnin forsögn um gerð þess og einstakra deilda innan þess. Í þessari forsögn er tiltekið allýtarlega, hvaða vistarverur skuli vera á hverri deild, hvernig þær skuli búnar, hversu stórar og hver starfsemistengsl þeirra séu við aðrar vistarverur innan deildarinnar. Jafnframt er gerð grein fyrir tengslum milli deilda og kröfum, sem þau gera til skipulags. Þessar forsagnir eru byggðar á upplýsingum, sem aflað hefur verið frá ýmsum aðilum með sérþekkingu hverjum á sínu sviði, og er þar bæði um að ræða innlenda og erlenda aðila. Varðandi öll þessi atriði hefur verið haft samráð við starfsfólk sjúkrahússins, lækna og forsvarsmenn hjúkrunarliðsins. Segja má því, að í byggingarforsögninni liggi fyrir lýsing á því sjúkrahúsi, sem byggja á.

Byggingarforsögnin verður þannig handbók arkitektanna við teikningu hússins. Í henni felst skilgreining á því, hvers konar verkefni þeir skulu leysa af hendi í starfí sínu. Þau vinnubrögð að semja byggingarforsögn af því tagi, sem ég hef lýst, hafa lítt verið tíðkuð hér áður. Arkitektar hafa fengið meira og minna óljósar upplýsingar um það, til hvers væri ætlazt af þeim og hvaða kröfur væru gerðar til þeirra vistarvera, sem þeim væri ætlað að teikna. Þetta hefur tafið störf þeirra og þrátt fyrir það, að við höfum mörgum snjöllum arkitektum á að skipa, hafa þessi viðtæku vinnubrögð borið í sér vissa hættu á því, að ekki tækist svo vel til sem kostur kynni að vera á. Það hefur stundum verið haft á orði, að auðveldara væri að nota strokleður en loftpressu við breytingu á byggingum. Þetta hefur verið sagt vegna þess, að oft hefur viljað við brenna, að breyta þyrfti ýmsu í byggingum, jafnvel meðan á framkvæmdum stóð. Þessar breytingar hafa auðvitað getað stafað af því, að menn vissu ekki betur, þegar teikningar voru gerðar. Sumpart hefur upplýsinganna ekki verið aflað, sumpart hefur arkitektunum ekki verið ætlaður nægilegur tími til starfs síns.

Markmiðið með þeirri undirbúningsvinnu, sem ég hef lýst, hefur verið að leitast við að minnka, svo sem kostur er, hættur á því, að breytingar þurfi að gera á byggingarstigi og fá arkitektunum sem beztar upplýsingar í hendur, áður en þeir hefja teiknistarf sitt. Auðvitað hefur þetta undirbúningsstarf kostað nokkurn tíma. En talið er, að það muni tæpast tefja verkið í heild, því að starf arkitektanna verði fljótunnara, og vonir eru við það bundnar, að sú bygging, sem rís, þjóni betur hlutverki sínu en ella hefði orðið. Byggingarforsögnin er fyrir nokkru komin í hendur húsameistara ríkisins og starfsmanna hans, en þar fer teiknivinna fram. Hefur húsameistaraembættið unnið að teikningunum að heildarskipulaginu undanfarið, og bráðlega verður hafizt handa um teikningu þeirra deilda, sem fyrstar eiga að rísa.

Skal þá vikið að framkvæmdaáformum. í framhaldi af þeirri undirbúningsvinnu, sem ég hef rakið hér, hefur verið gerð framkvæmdaáætlun fyrir sjúkrahúsbygginguna. Samkv. henni skiptist verkið í nokkra áfanga. Megináfangar eru tveir. Í hinum fyrri eru ýmsar þjónustu- og rannsóknardeildir, svo sem röntgendeild, rannsóknarstofur, skurðstofur og eldhús, en auk þess vistunarrými fyrir um það bil 70 sjúklinga. Í hinum síðari eru fyrst og fremst aukin sjúkrarými. Fyrri áfanganum er skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum yrðu hinar læknislegu þjónustudeildir. Yrði sá byggingarhluti 9 þús. rúmmetrar. Er áætlað, að útboð vegna hans geti farið fram næsta sumar og framkvæmdir þá hafizt, en byggingin yrði fullbúin í des. 1974. í öðrum hluta yrðu einkum sjúkradeildir og ættu framkvæmdir við hana að hefjast vorið 1974, en ljúka um áramótin 1975–1976. í þriðja hlutanum yrði eldhús, borðstofa og þess háttar. Ætti sú framkvæmd að hefjast haustið 1974, en ljúka í byrjun árs 1976. Ef annar áfangi yrði reistur í beinu framhaldi af hinum fyrri, gæti honum verið lokið haustið 1978, og rn. hefur af sinni hálfu gert ráð fyrir, að framkvæmdum lyki ekki síðar en 1980.

Ef áréttað er svar við meginefni fsp., má draga það saman á svofelldan hátt:

1. Fyrir liggur svonefnd byggingarforsögn, sem er allýtarleg lýsing á því, hvernig byggingin skuli úr garði gerð. Felst í henni nokkur nýjung um vinnubrögð.

2. Teiknivinna er að nokkru hafin hjá húsameistara ríkisins.

3. Gerð hefur verið framkvæmdaáætlun um verkið, en samkv. henni er gert ráð fyrir, að framkvæmdir geti hafizt í ágústmánuði næsta sumar.