04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram, er að meginstofni til samið af n., sem félmrh. skipaði í febr. 1969, en hlutverk þeirrar n. var að endurskoða gildandi l. um atvinnuleysistryggingar. Formaður þeirrar n. var Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, en auk hans sátu í n. Björgvin Sigurðsson framkvstj., Eðvarð Sigurðsson alþm. og Magnús E. Guðjónsson framkvstj. Sambands ísl. sveitarfélaga. Þessi n. skilaði frv. til breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar og l. um vinnumiðlun, og voru þær till. samþ. á Alþ. í maí 1969. Þau atriði, sem fólust í þeim frv., voru af n. talin svo aðkallandi, að ekki væri hægt að láta þau bíða eftir heildarendurskoðun laganna. Hins vegar var haldið áfram með hana. Í maí 1970 voru svo samþ. á Alþ. smávægilegar breytingar við lög um atvinnuleysistryggingar. En frv. um heildarendurskoðun, eins og það kom frá framangreindri n., var síðan tekið til yfirlestrar með tilliti til þeirra öru breytinga, sem orðið hafa í atvinnumálum hér á landi og í nágrannalöndum, síðan þessi síðasta heildarendurskoðun laganna hófst í febr. 1969. Þannig var frv. nefndarinnar sent í júní 1972 þeim Benedikt Davíðssyni og Birni Jónssyni til umsagnar, og barst umsögn þeirra hinn 5. marz s. l. Um sýn þeirra ásamt upphaflega frv. var síðan send stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs til umsagnar, og barst umsögn sjóðsstjórnarinnar hinn 15. marz s. l.

Á frv., eins og það var upphaflega samið af n., hafa því verið gerðar smávægilegar breytingar, svo sem til samræmis við breytingar þær, sem orðið hafa á kaupi og vinnutíma. frá því að frv. var upphaflega samið. Þá voru gerðar efnisbreytingar varðandi biðtíma og bótafjárhæðir og sömuleiðis sérstakan styrk til þátttakenda í starfsþjálfunarnámskeiðum. Þýðingarmestu breytingar frá núgildandi l., sem felast í frv., eru þessar:

1. Í frv. er lagt til, að gildissvið laga um atvinnuleysistryggingar sé aukið svo, að ákvæði þeirra taki til alls landsins, en ekki aðeins til kaupstaða og kauptúna með 300 íbúa eða fleiri, eins og nú er.

2. Lagt er til, að ákvæði um biðtíma verði felld niður og að sá, sem öðlast bótarétt á annað borð, eigi þá þegar rétt til bóta fyrir hvern heilan dag, sem hann hefur þá verið atvinnulaus.

3. Lagt er til, að upphæð dagpeninga sé ákvörðuð öðruvísi en nú gildir, þ. e. a. s. að dagpeningaupphæð sé ákveðinn hundraðshluti af tilteknum launataxta, eins og hann er á hverjum tíma, að viðhættri greiðslu verðlagsbóta.

4. Gert er ráð fyrir því að framvegis renni aðeins helmingur vaxtatekna sjóðsins á sérreikninga verkalýðsfélaganna, en samkv. gildandi l. skal færa allar vaxtatekjur á sérreikninga.

5. Lagt er til, að stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs verði heimilað að veita sveitarfélögum styrk og einstaklingum vaxtalaus lán, þar sem um er að ræða verulegt og langvarandi atvinnuleysi, gegn því skilyrði, að þeir sjái ákveðinni tölu atvinnulausra fyrir vinnu tiltekinn tíma.

6. Lagt er til, að stjórn sjóðsins verði heimilað að taka þátt í kostnaði þátttakenda í viðurkenndum starfsþjálfunarnámskeiðum, sem haldin eru fyrst og fremst í því skyni að endurhæfa fólk til að stunda ný störf, sem völ kann að vera á á vinnumarkaðinum.

Verða nú þessar meginbreytingar raktar nokkru nánar.

Eftir núgildandi lögum er gildissvið laga um atvinnuleysistryggingar bundið við kaupstaði og kauptún með 300 íbúa eða fleiri. Þó er sú heimild í l., að ráðh. getur veitt samþykki sitt til þess, að l. taki til fleiri staða, ef þess er óskað af verkalýðsfélögum á þeim stað og atvinnurekendum og viðkomandi sveitarstjórn hefur samþ. það. Þetta heimildarákvæði l. hafa ráðh. einatt notað, þegar skilyrði hafa verið til þess.

Í frv. þessu er hins vegar lagt til, að tryggingarnar taki til landsins alls með þeirri einu undantekningu, að bændur verði undanþegnir gjaldskyldu vegna vinnu. sem unnin er við búrekstur þeirra. Gildissvið l. yrði samkv. þessu ekki lengur bundið við ákveðinn fólksfjölda í kaupstöðum, og mundu þannig sjálfkrafa bætast við um 20 þéttbýlisstaðir með samtals um 2300 íbúa.

Með l. frá 1970, sem ég minntist á áðan, voru gerðar nokkrar breytingar á 4. gr. gildandi l., m. a. í þá átt, að meðlimir verkalýðsfélags, sem stunda sjósókn á eigin fari og vinna auk þess í þjónustu gjaldskyldra atvinnurekenda, séu gjaldskyldir af þessari vinnu í eigin þágu á sama hátt og atvinnurekendur og öðlist þannig aukinn bótarétt. Í frv. er þessu ákvæði efnislega haldið, en gerð nánari grein fyrir því, hver skilyrði þurfa að vera fyrir því, að félagsmaður verkalýðsfélags, sem stundar sjósókn á eigin fari, geti orðið gjaldskyldur og öðlazt bótarétt vegna eigin atvinnu.

Í e-lið 15. gr. frv. felst þýðingarmikil breyting frá gildandi l. Þar segir, að rétt til bóta samkv. l. þessum hafi þeir, sem sanna með vottorði vinnumiðlunar, samkv. l. um vinnumiðlun, að þeir hafi verið atvinnulausir einn eða fleiri heila vinnudaga. Í þessu ákvæði felst það nýmæli, að biðtímaákvæði gildandi l. falla niður og hver sá, sem uppfyllir skilorð e-liðs 15. gr., öðlast þannig þegar bótarétt fyrir hvern heilan dag, sem hann hefur þá verið atvinnulaus, en samkv. gildandi l. greiðast ekki bætur fyrir fyrstu 6 dagana, sem umsækjandi er atvinnulaus.

Í stað þess, að bótafjárhæðir séu föst upphæð, sem breytist aðeins með kaupvísitölu, er í frv. gert ráð fyrir því, að upphæð dagpeninga verði ákveðinn hundraðshluti af tilteknum launataxta, þ. e. a. s. af 2. taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Þessi hlutfallstala er mismunandi, lægst 70% af þessum taxta, en getur farið upp í 99.5%, ef um er að ræða kvæntan karl eða gifta konu, sem hafa á framfæri sínu 3 börn eða fleiri. Til samanburðar má geta þess, að samkv. núgildandi l. eru þessar hlutfallstölur lægst 45.66%, en hæst 70.53% af áðurnefndum taxta Dagsbrúnar. Þarna er því um mjög verulega hækkun að ræða nú þegar, eða í krónutali lægst úr 393 kr. á dag í 723 kr., en hæst úr 607 kr. í 1028 kr. á dag.

Breyting sú, sem lagt er til að gerð verði á færslu vaxta af innstæðufé sjóðsins og af verðbréfum, er gömul hugmynd, sem kom fram hjá n., sem skipuð var 1960 til þess að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar, og var ekki ágreiningur um það atriði þá. Með frv. er lagt til, að stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs verði heimilað að veita sveitarfélögum styrk og einstaklingum vaxtalaus lán eftir ákveðnum reglum. Ákvæði þetta er heimildarákvæði, og er því nokkuð þröngur stakkur skorinn. Það er t. d. skilyrði, að um sé að ræða verulegt og varanlegt atvinnuleysi á viðkomandi stað og sveitarfélag eða einstaklingur, sem slíkrar fyrirgreiðslu nýtur, geta tryggt verulegum fjölda atvinnuleysingja örugga vinnu í nokkurn tíma. Það blandast víst engum hugur um það, hversu miklu heppilegra er, ef unnt er, að útvega fólki atvinnu en að láta það lifa á styrkjum. Með þessu heimildarákvæði er einmitt verið að leitast við að tryggja möguleika til aukinnar atvinnu á viðkomandi stöðum, þannig að hægt sé að létta á hinni beinu bótagreiðslu atvinnuleysistryggingasjóðs.

Þá er í frv. það nýmæli, að stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs verði heimilað að veita eins konar námsstyrki til þeirra, sem taka þátt í starfsþjálfunarnámskeiðum, sem haldin yrðu í því skyni að auka verulega verkkunnáttu þátttakenda eða til þess að endurhæfa þá til fyrri eða nýrra starfa á vinnumarkaðinum. Um þetta atriði var flutt sérstakt frv. fyrr á þessu þingi, en að sjálfsögðu væri eðlilegra, að það væri fellt inn í heildarlöggjöfina, eins og lagt er til í þessu frv.

Þá eru í frv. nokkrar breytingar, sem beinlínis þarf að gera vegna breyttra aðstæðna í atvinnumálum hér á landi. Þannig er t. d. gert ráð fyrir því, að vinnustundafjölda verði breytt úr 1144 stundum í 1032 í sambandi við bótarétt, og er þetta til samræmis við lög nr. 88 1971, um 40 stunda vinnuviku.

Með þessum orðum hygg ég, að ég hafi getið helztu breytinga á núgildandi l., sem í þessu frv. felast. Ég harma það, að þetta frv. kemur fram fullseint á þessu þingi, en ég hygg, að ekki verði neinn meiri háttar ágreiningur um þá meginstefnu, sem þar er mörkuð, og ég tel það ákaflega miklu máli skipta, að unnt verði að afgreiða þetta frv. sem lög frá þessu þingi, enda þótt nú sé nokkuð liðið á þingtímann. Vil ég vinsamlegast fara þess á leit við hv. alþm., að þeir starfi þannig að þessu máli, að slíkt verði unnt.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.