16.10.1972
Efri deild: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

2. mál, Fósturskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Fósturskóla Íslands er nátengt frv. um hlutdeild ríkisins í stofnun og rekstri dagvistunarheimila, sem hér var síðast til umr. Þetta frv., eins og hið fyrra, er endurflutt óbreytt, eins og það var lagt fyrir síðasta þing, þegar mjög var liðið á þingtímann. Þetta frv. fjallar um menntun þess starfsliðs, sem á opinberum stofnunum annast uppeldi og umönnun barna allt fram að skólaskyldualdri, þ.e. allt fram að 7 ára aldri. Meginhugsunin með þessu frv. er, að rekin sé á vegum ríkisins menntastofnun, sem veiti fullnægjandi fræðilega þekkingu og starfsþjálfun, til þess að hún geti útskrifað fólk, sem er fullfært um að gera uppeldisstofnanir, sem hér um ræðir, þær uppeldisstofnanir, sem annast börnin, áður en skólinn tekur við, sem hæfastar til að veita þeim þroskaskilyrði á þessu viðkvæma og vandmeðfarna aldursskeiði. Sömuleiðis er einnig gert ráð fyrir því í frv., að þessi menntastofnun annist endurmenntun og viðhótarmenntun þessa starfsliðs eins og þörf krefur. Leitazt er við að tryggja það, að menntastofnunin, sem hlotið hefur nafnið Fósturskóli Íslands, sé í sem nánustum tengslum við helztu skólastofnun, sem annast menntun kennara, Kennaraháskóla Íslands.

Fóstruskóli á vegum Barnavinafélagsins Sumargjafar tók til starfa árið 1946 og hefur verið rekinn síðan á vegum félagsins með styrk frá Reykjavíkurborg og frá ríki. Þegar þessi skóli var settur á laggirnar, mátti heita, að dagvistunarheimili væru einskorðuð við Reykjavík, en síðan hefur þörfin á þeim orðið ljósari á öðrum stöðum og þeim fjölgað svo, að láta mun nærri, að slíkar uppeldisstofnanir séu álíka margar utan Reykjavíkur og í höfuðborginni. Því þykir eðlilegt, að þessi skóli, sem á að mennta starfslið fyrir uppeldisstofnanir um landið allt, sé ríkisskóli. Til þess að gera hann sem færastan um að gegna hlutverki sínu, er gert ráð fyrir, að þetta sé fortakslaust þriggja ára skóli, en Fóstruskóli Sumargjafar hefur í raun verið þriggja ára skóli síðustu ár, þó að lengst af hafi hann starfað sem tveggja ára skóli. Enn fremur er ráð fyrir því gert í frv. að herða nokkuð inntökuskilyrði, sem fram eru sett í 10. gr., í því skyni, að sem tryggast sé, að væntanlegir nemendur geti notfært sér það nám, sem boðið er í Fósturskólanum.

Loks er ráð fyrir því gert, að rekin sé í tengslum við Fósturskólann æfinga- og tilraunastofnun, þar sem fram fari verkleg þjálfun nemenda í Fósturskólanum. Því er slegið föstu þegar í 1. gr. frv., að skólinn sé jafnt fyrir karla og konur. Það þykir sjálfsagt hvarvetna í nálægum löndum og einnig hér á landi nú orðið, að starfslið, sem annast ummönnun og uppeldi barna á þessu aldursskeiði, sé ekki einskorðað við konur, heldur sé sjálfsagt, að karlar komi þar einnig við sögu, og þykir slíkt miklu ákjósanlegra frá uppeldissjónarmiði, heldur en aðeins annað kynið annist börnin á uppeldisstofnununum. Í samræmi við þetta hefur verið lagt til í frv., að nafni stofnunarinnar sé breytt. Nú heitir menntastofnunin Fóstruskóli. N., sem samdi frv., lagði til, að heitið Fóstrunarskóli yrði tekið upp, en í meðförum í menntmrn. varð það ofan á, að Fósturskóli væri þjálasta og íslenzkulegasta nafnið.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og menntmn.