04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3027 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., hefur verið rætt á mörgum fundum allshn., en um það náðist ekki samstaða fyrr en á síðasta fundi nú fyrir fáum dögum. Á þeim fundi gat ég ekki mætt, þar sem ég var þá upptekinn á öðrum fundi. Það tilkynnti ég, þegar er fundurinn var boðaður með dags fyrirvara. Engu að síður var fundurinn haldinn á þessum tíma og málið afgreitt.

Um það get ég ekki fengizt. Ég á því ekki aðild að nál. og hef flutt brtt. við frv. á þskj. 502.

Í framsöguræðu sinni greindi formaður n. frá því atriði, sem helzt var því til fyrirstöðu, að n. afgreiddi frv. fyrr en raun hefur orðið á. Í nál. þeirra hv. nm., sem að því standa, er þessa atriðis sérstaklega getið með ábendingu af hálfu n. Áður en að því atriði kemur, vil ég aðeins geta þess, að varðandi aðalefni frv., að fjölga dómurum í hæstarétti úr 5 í 6, dreg ég ekki dul á, að mér þykir það að ýmsu leyti hæpin ráðstöfun og engan veginn sjálfsögð. Í fyrsta lagi tel ég eins líklegt, að með því að gefa dómurum aukinn kost á aðstoðarvinnu mætti auðvelda hæstarétti störfin, svo að ekki þyrfti að fjölga dómurum um sinn a. m. k. Í öðru lagi tel ég óeðlilegt, að tala hæstaréttardómara standi ekki á stöku, jafnvel þótt störfum sé svo hagað, að ekki dæmi allir dómarar í hverju máli. Enda þótt ég væri að þessu leyti ekki sérlega hrifinn af þeim breytingum. sem hér er lagt til, að gerðar verði, hefði ég þó, ef ekki kæmi annað til, látið til leiðast að verða við þeim tilmælum, sem í flutningi frv. felast um fjölgun dómara í hæstarétti. Það er jafnan erfitt fyrir leikmenn og utanaðkomandi aðila að hafa uppi fullgild rök gegn slíkum óskum varðandi svo sérhæfa og um leið mikilsverða stofnun sem hæstiréttur er, jafnvel þótt mönnum virðist a. m. k. við fyrstu sýn ekki endilega vera valin heppilegasta leiðin til úrbóta.

Ég kem þá að því atriði, sem lengst stóð í n. við afgreiðslu málsins, en að því vék hv. formaður n., og get ég því haft um það færri orð en ella.

Það var upplýst og staðfest í allshn., að auk þess sem hæstaréttardómarar njóta samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar fullra launa, þegar þeir hætta störfum við lok starfsaldurs, njóta þeir einnig fullra lífeyrisréttinda, eftirlauna. En núgildandi mánaðarlaun hæstaréttardómara, sem þeir njóta einnig, er þeir láta af störfum vegna aldurs nema nú 120 391 kr. og eftirlaun því til viðbótar á mánuði 92 697 kr., eða samtals 213 083 kr. á mánuði, auk venjulegs ellilífeyris, sem allir njóta. Þessi tilhögun mun vera byggð á sérstökum úrskurði, lögskýringu um rétt hæstaréttardómara til eftirlauna samkv. núgildandi l. um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, hvað sem líður fullum launum, eftir að starfsaldri lýkur. Það var samdóma álit allra nm. í allshn., að slík tilhögun væri algerlega fráleit, þ. e. a. s. að launatekjur hæstaréttardómara hækkuðu stórlega, er þeir létu af störfum vegna aldurs. Ég taldi í n., að óhjákvæmilegt væri að fá l. um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna breytt að þessu leyti, áður en fjölgað væri í hæstarétti, vegna þess að væntanleg breyting á l. um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna mundi að sjálfsögðu ekki gilda aftur í tímann gagnvart þeim hæstaréttardómara, sem yrði ráðinn til viðbótar samkv. þeirri lagabreytingu, sem hér er verið að afgreiða. Ég lýsti mig jafnframt fúsan til að styðja þetta frv. um breyt. á l. um hæstarétt, ef lagabreytingin um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna kæmi á undan. Þetta sjónarmið tel ég, að hafi átt meirihlutafylgi á þeim fundum, sem ég sat í n., þegar um þetta mál var fjallað. En á síðasta fundi n. hefur frv. eigi að síður verið afgreitt með tilstyrk allra nm. og látið nægja, að í nál. kæmi fram ábending um, að rétt væri að breyta l. um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og breytingin tæki gildi, áður en fjölgað yrði hæstaréttardómurum, eða eins og sagt er orðrétt í nál., með leyfi hæstv. forseta: „Um leið og n. afgreiðir frv., vill hún benda á, að eðlilegt sé, að lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins verði breytt á þá leið“ o. s. frv. Mér þykir lítil trygging felast í þessari góðu meiningu, sem fram kemur í nál., og hef því viljað fá tekin af öll tvímæli um, að þau sérstæðu réttindi, sem núv. dómarar í hæstarétti njóta og verða ekki af þeim tekin, skuli ekki gilda um þá, sem í dóminn kunna að bætast, m. a. með þeirri nýju stöðu, sem kveðið er á um í því frv., sem hér er til afgreiðslu. Ég hef því á þskj. 502 flutt svo hljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 8. gr. komi svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Hæstaréttardómari, sem skipaður er eftir gildistöku laga þessara, skal ekki njóta lífeyris samtímis fullum launum samkv. niðurlagi 61. gr. stjórnarskrárinnar:

Ef ekkert sérstakt kemur fram um þetta atriði annað en ábending í nál. samstarfsmanna minna í hv. allshn., sem hefur í sjálfu sér ekki annað gildi en að vera ábending 6 hv. alþm., tel ég, að engin trygging sé fyrir hendi, að ekki sé með samþykkt frv. verið að fjölga aðilum, sem geta notið og eiga rétt á að njóta þeirra fáránlegu starfskjara að fá bæði full laun og full eftirlaun að loknum starfsaldri og hvorugt skorið við nögl. Ef ekkert annað kemur fram varðandi þetta atriði en nál., tel ég einsýnt, að óhjákvæmilegt sé að fá úr þessu máli skorið með atkvgr. um brtt. mína á þskj. 502. Fari svo, að hún verði felld, án þess að annað jafngilt komi í staðinn, mun ég greiða atkv. gegn frv. Komi fram skýr yfirlýsing, t. d. frá hæstv. dómsmrh. eða hæstv. fjmrh., um, að frá þessu máli verði gengið efnislega á þann veg, sem ég hef hér lagt til, mun ég draga till. mína til baka og fylgja frv.