04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

225. mál, jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv., sem gerir ráð fyrir því að koma á föstu skipulagi á flutningskostnaði á sementi til hinna ýmsu verzlunarstaða í landinu, þannig að hægt sé að halda uppi nokkuð sambærilegu sementsverði um allt land. Frv. þetta er flutt að beiðni sementsverksmiðjustjórnar, en eins og kunnugt er hefur þessum málum verið þannig háttað nú um nokkurt árabil, að Sementsverksmiðja ríkisins hefur haft með höndum svo að segja alla sementssölu í landinu. Hún hefur haft það skipulag á að koma fyrir nokkurs konar verðjöfnunarfyrirkomulagi á sementssölunni, þannig að í gegnum ákveðið kerfi, sem verksmiðjustjórnin hefur haft, hefur verið haldið uppi svo að segja sama verði á sementi á öllum helztu sölustöðvum í kringum landið. Með þátttöku okkar í EFTA-samtökunum var hins vegar gert ráð fyrir því, að það kæmi til þess stig af stigi, að innflutningur á sementi gæti orðið einhver hér. Þegar þessi innflutningur fer að verða að einhverju magni, þarf í rauninni að gera ráð fyrir því að jafna þennan aðstöðumun, þannig að annað hvort verði allir, sem með sementssölu hafa að gera, eða þá enginn, háðir því að taka þátt í þessum flutningskostnaði og verðjöfnuninni á þessari vörutegund.

Gert er ráð fyrir því samkv. þessu frv. að taka í rauninni upp mjög hliðstætt kerfi og í gildi hefur verið í allmörg ár varðandi olíusöluna í landinu. Er það kerfi, sem frv. byggir á, alveg miðað við það, sem þar hefur verið í gildi. Gert er sem sagt ráð fyrir því, að allir þeir, sem annast sölu á sementi, verði að greiða í sérstakan verðjöfnunarsjóð tiltekið gjald af sinni sementssölu og síðan sjái þessi sjóðsstjórn, sem skipa á, samkv. frv., um verðjöfnunarfyrirkomulagið. Um næstu áramót eykst nokkuð sá kvóti, sem gert er ráð fyrir samkv. EFTA-samningunum, að gildi um innflutning á sementi. Því er það, að stjórnendur Sementsverksmiðju ríkisins leggja mikla áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga og hægt verði að byggja á formlegan hátt upp það verðjöfnunarfyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir.

Hér er um tiltölulega einfalt mál að ræða, og ég sé því ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það, en vænti þess, að sú n., sem fær málið til athugunar, afgreiði það tiltölulega fljótlega, svo að hægt verði að ná málinu fram á þessu þingi. Ég vil líka vænta þess, að ekki þurfi að verða neinn teljandi ágreiningur um meginatriði málsins.

Herra forseti. Ég legg til, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. til fyrirgreiðslu.