31.10.1972
Efri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

46. mál, námulög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú lagt fyrir hið háa Alþingi þriðja sinni. Það var upphaflega samið fyrir forgöngu fyrirrennara míns í starfi, iðnaðarráðh., Jóhann Hafsteins, og lagt fyrir þingið veturinn 1970–1971. Ég kynnti mér þá þetta frv. og var samþykkur því í meginatriðum, þannig að ég taldi mig geta lagt það fram á nýjan leik á síðasta hausti án nokkurrar meiri háttar breytingar, og það var lagt fyrir Nd. allsnemma á síðasta þingi. Því miður tókst svo til, að hv. iðnn. Nd. sinnti þessu frv. ekki um æðilangt skeið, og því dróst það furðu lengi, að það kæmi þar frá n. Engu að síður var málið afgreitt frá hv. Nd., án þess að nokkur umtalsverður ágreiningur yrði um það, og hér í Ed. fór fram 1. umr. um málið og hv. iðnn. þessarar deildar fjallaði, að ég hygg, allýtarlega um málið, þótt ekki tækist að ljúka afgreiðslu þess á síðasta þingi.

Vegna þess að þetta mál hefur verið tvívegis fyrir þinginu áður, sé ég ekki ástæðu til að tefja tíma hv. d. með því að fara að fjalla hér um þá stefnu, sem þar er mörkuð, eða um efnisatriði einstakra greina. Ég vil aðeins skýra frá því, að frv. er lagt fram með þeim breyt., sem Nd. gerði á því í fyrra. Hún breytti 3. gr. frv. Það er gerð grein fyrir því í aths. Ég legg málið fram, eins og það barst Ed. í fyrra, að því viðbættu, að það er bætt inn í 14. gr. einni málsgr., svo hljóðandi:

„Ráðherra er rétt að banna útflutning óunninna jarðefna, ef hann telur, að útflutningur þeirra efna skaði íslenzka framleiðsluhagsmuni eða vinnsla efnanna sé æskileg í landinu.“

Þarna er sem sagt lagt á vald iðnrh. að meta það út frá hagsmunum iðnaðarins í landinu hvort leyfa eigi útflutning á tilteknu hráefni eða ekki. Það er með þessu verið að leggja á það áherzlu, að það eigi að vera mat iðnaðarins, sem þar ráði úrslitum, en ekki viðskiptamat, sem kann að byggjast á öðrum forsendum.

Ég vil að öðru leyti aðeins láta nægja að bera fram þá ósk til hv. d. og hv. iðnn., að vel verði að þessu máli unnið. Ég hygg, að það sé búið að ræða þetta mál það ítarlega, að ekki þurfi að leggja mjög mikla vinnu í að kanna það frekar, og ég teldi það mjög miklu máli skipta, að þetta frv., sem er nú þegar veigamikið og á áreiðanlega eftir að verða enn veigameira, verði samþ. fljótlega á þessu þingi.

Ég legg svo til herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. iðnn.