04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

120. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Allshn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum. Lög þau, sem hér er um að ræða, eru frá 1961. Eru í þeim allmörg ákvæði, þar sem vísað er til verðlags, en þau ákvæði eru auðvitað úrelt nú vegna þeirra verðbreytinga, sem orðið hafa. Í þessu frv. felast því ýmsar lagfæringar, og eru í sumum tilvikum tífaldaðar þær upphæðir, sem eru í núgildandi lögum.

Í 16. og 22. gr. frv. er lagt til, að tekið verði upp ákvæði um heimild saksóknara til að fela fulltrúum sínum sókn mála fyrir hæstarétti, en nú flytur saksóknari sjálfur öll mál þar. Er þá gert ráð fyrir, að slíkur fulltrúi uppfylli sömu skilyrði og þarf til skipunar í embætti saksóknara, en það eru sömu skilyrði og til skipunar í embætti saksóknara, en það eru sömu skilyrði og til skipunar í embætti næsta réttardómara. N. barst umsögn frá fulltrúum saksóknara, þar sem þeir óska eftir því, að n. kalli fyrir sig formann stjórnskipaðrar n., sem hefur verið skipuð til þess að endurskoða lagareglur um réttarfar, og óskuðu fulltrúar saksóknara, að þeirra mál væru sérstaklega athuguð í þessu sambandi og lögunum breytt. N. kallaði svo á sinn fund þessa fulltrúa og eins formann n., sem er Björn Sveinbjörnsson hrl. Kom í ljós, að n. er aðeins að byrja sitt verk og er að safna gögnum, þannig að n. fannst einsýnt, að hún mundi ekki geta fengið nægar upplýsingar til þess að breyta lögunum nú, en leggur til, að þetta frv. verði samþ. með eftirfarandi breytingum:

„ 1. Á eftir 25. gr. komi ný gr., 26. gr. svohljóðandi:

„ Þegar lög þessi hafa öðlazt gildi, skal fella ákvæði þeirra, svo og ákvæði l. nr. 29 frá 28. apríl 1966 og l. nr. 75 frá 27. apríl 1972, um breyt. á l. nr. 82 frá 21. ágúst 1961 og gefa þau út svo breytt.

2. Aftan við frv. komi svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Réttarfarsnefnd skal falið að endurskoða réttarstöðu fulltrúa saksóknara ríkisins með hliðsjón af réttarstöðu og lögkjörnum hliðstæðra ríkisstarfsmanna og ljúka endurskoðuninni það tímanlega, að unnt verði að leggja fram frv. um það efni í byrjun næsta þings.“

N. sá sér ekki fært að koma meira til móts við óskir fulltrúa saksóknara og er n. sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.