04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Breytingarnar, sem gerðar voru á frv. í meðförum Ed., eru fólgnar í því, að komizt er ákveðnar að orði í 1. mgr., þannig að í stað orðanna „Stefnt skal að því, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins starfræki rannsóknastofur“ o.s.frv. kemur:

„Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins starfrækir rannsóknastofur utan Reykjavíkur“, og álít ég þetta vissulega til bóta.

Einnig er í breytingunni kveðið á um stofnkostnað væntanlegra rannsóknastofa. Eins og talað er um í grg. með frv. á þskj. 29, eru nú sífellt meiri kröfur gerðar til alls hreinlætis í meðferð matvara. Þar undir fellur að sjálfsögðu öll okkar fiskvinnsla, og þarf ekki að fjölyrða, að í tengslum við auknar hreinlætis- og gæðakröfur hlýtur að koma stóraukið reglulegt gæðaeftirlit. Mér sýnist, að eftirlit með gæðum framleiðslunnar þurfi að vera vel virkt, og ef það á að vera vel virkt, þá þarf a. m. k. að setja upp eina rannsóknastofu í hverjum landsfjórðungi í þessu skyni. Hér má í engu til spara, ef við eigum að halda okkar söluhluta á dýrmætustu fiskimörkuðum okkar.

Ég vildi einnig bæta því við, að ég álít hér stórt mál á ferðinni, sem knýjandi sé að leysa sem fyrst.

Hv. sjútvn. d. hefur kynnt sér þetta mál og mælir með, að það verði samþ., eins og segir í nál. á þskj. 413.