04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður um þetta mál, en ég tel ástæðu til þess að fagna því sérstaklega. Ég hef ekki dregið dul á það, að ég hef verið einn þeirra manna, sem hafa haldið því fram, að með hinni svokölluðu Breiðholtsáætlun og framkvæmdum þar var stigið skref til mismununar, þegar við berum saman þéttbýlið annars vegar og dreifbýlið hins vegar. Þetta hefur gilt allt frá árinu 1965 og hefur gilt að mínu mati allt of lengi. En um það er ekki að sakast við núv. hæstv. ríkisstj., þar bera aðrir ábyrgð á, fyrrv. valdhafar, og ég tel sérstaka ástæðu til þess að fagna nú þessu fram komna frv.

Það er rétt, sem hæstv. félmrh. sagði hér áðan, og það er mín skoðun, eins og hann lýsti sinni, að hagkvæmasta byggingarkerfið eru verkamannabústaðalögin, þ. e. a. s. sé þeim þannig fyrir komið, að það sé í raun og veru framkvæmanlegt fyrir smærri byggðarlög jafnt sem hins stærri að notfæra sér þau. Það hefur því miður að mínu mati ekki verið grundvöllur fyrir slíkt hjá hinum smærri sveitarfélögum, frá því að breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni áttu sér stað á árinu 1970. Ég hef sagt það hér áður í ræðu á Alþ., að ég hef talið, að með þeirri breytingu á húsnæðislöggjöfinni hafi verið stigið skref til baka að því er varðar uppbyggingu í hinum fámennari sveitarfélögum eftir lagabálkinum um verkamannabústaði.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram í framsögu, þetta er útvíkkun á hinum svokölluðu Breiðholtsframkvæmdum. Að vísu er ekki alveg um hliðstæður að ræða, vegna þess að samkv. þessu frv. er þar um að ræða hlutdeild viðkomandi sveitarfélags í fjármögnun stofnkostnaðar, en samkv. Breiðholtsframkvæmdum, að því er ég bezt veit, var einungis um að ræða ríkisframlagið á 80% og svo 20% frá viðkomandi eiganda, þannig að þetta er ekki alveg hliðstætt. Ég tel þó, að þarna sé um svo mikilsvert og stórt mál til jöfnunar að ræða, að vart sé ástæða til þess að hreyfa andmælum út af slíkri framkvæmd. En hyggilegra hefði kannske verið og æskilegra, að þar hefði verið viðhaft sama form og nú er í sambandi við Breiðholtsuppbygginguna.

Það fer að mínu mati ekkert á milli mála, að einn af þeim þáttum, kannske stóru þáttum, í þeim vandkvæðum að byggja upp á hinum ýmsu fámennari stöðum úti um landið er skorturinn á því að koma upp viðunandi íhúðarhúsnæði. Og það hefur verið ósk æðimargra og allflestra, að ég held, sveitarstjórna víðs vegar í kringum landið, að rétt yrði hjálparhönd í fyrirgreiðsluformi til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði, á vegum sveitarfélaga. Þarna er vissulega komið allverulega og mjög myndarlega til móts við þessar óskir. Eins og vitnað var í hér áðan, gerði hinn margumtalaði stjórnarsáttmáli vissulega og gerir ráð fyrir slíkri aðstoð. Og ég skal láta það verða mín síðustu orð að þessu sinni, að ég fagna því heils hugar, að þetta mál sér hér dagsins ljós, og ég vænti þess fastlega, að það verði afgreitt á þessu þingi, þannig að hin fámennari sveitarfélög úti á landsbyggðinni þurfi ekki lengur að bíða eftir því að geta farið að notfæra sér þá sérstöðu og þau auknu réttindi, forréttindi, sem ég vil kalla svo, sem þéttbýlið hér á Reykjavíkursvæðinu hefur nú notið í nærri 8 ár.