04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en ég vildi aðeins taka til máls við 1. umr. um það frv., sem hér liggur fyrir.

Það er áreiðanlega mikið til í því, sem kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að húsnæðismálin eru eins og sakir standa verulegur þröskuldur í vegi þess að jafna byggðaþróun í landinu, og flestir hv. þm. vilja a. m. k. í orði kveðnu stuðla að aukinni byggðaþróun. Við þurfum að gera okkur ljóst, að það eru mjög breyttir tímar nú á síðustu árum. Eftir áfallaárin 1967 og 1968 var mikið atvinnuleysi í landinu, og vegna sérstöðu atvinnulífsins á landsbyggðinni varð þar enn þá meira atvinnuleysi en hér á þéttbýlissvæðinu. Nú hefur hins vegar góðæri ríkt um nokkurra ára skeið, og allir hafa næga atvinnu, en þá koma önnur atriði til, sem mismuna mönnum eftir búsetu í landinu, og þá eru húsnæðismálin þar mjög ofarlega á blaði.

Það er einu sinni svo, að verð hækkar miklu meira á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu heldur en annars staðar á landinu. Fólk vill gjarnan festa þar fé í íbúðum, og þeir, sem hyggjast flytja af landsbyggðinni, jafnvel þótt ekki sé fyrr en síðar, reyna að festa fé í íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. En þessu er alveg öfugt farið, ef eitthvert ungt fólk t. d. kennarar eða aðrir slíkir menn, vill flytjast til landsbyggðarinnar. Þá vill fólk ógjarnan fara að gera það með því að koma þar yfir sig húsnæði, sem það jafnvel getur illa losnað við, a. m. k. ekki fyrir skaplegt verð. Þessar markaðsaðstæður í sjálfu sér verka alveg í eina átt og alveg sérstaklega þegar svo er ástatt á öðrum sviðum í þjóðfélaginu eins og núna. Þess vegna tel ég, að það sé mjög brýn nauðsyn á því nú að taka þennan þátt byggðamálanna mjög til athugunar.

Það kann að vera, að þetta frv. sé verulegt skref í þessa átt. Ég hefði þó gjarnan viljað að í því væru ákvæði, sem auðvelduðu fólki að eignast eigin íbúðir, en það væri ekki fyrst og fremst miðað við leiguhúsnæði, og fleiri hliðar þessa máls væru teknar þar til athugunar, svo sem hugmyndir, sem fram hafa komið um verðtryggingu íbúðarhúsnæðis á hinum ýmsu svæðum landsins. Í frv., sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson hefur flutt í Ed., er slíkum hugmyndum hreyft. En það kann að vera, að það sé svo víða, að leiguhúsnæði þurfi einnig að koma til, og því tel ég rétt að skoða þetta frv. með athygli og hvort ekki sé rétt að koma þar inn í fleiri hugmyndum um að auka íbúðarhúsabyggingar á landsbyggðinni. Nýlega hafa verið gerðar um það skýrslur, hvernig fé frá húsnæðismálastjórn og öðrum þeim sjóðum, sem lána til húsnæðismála, — opinberum sjóðum í landinu, — hvernig það fé skiptist milli kjördæma, og það sýnir sig, að þar er mjög misskipt. Það er t. d. svo mikill munur á, að á hvern íbúa er 3–4 sinnum, að mig minnir, minna fjármagni varið til íbúðarhúsabygginga á Vestfjörðum heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er því alveg ljóst, að þessi mál þarf mjög að kanna, og að því leyti til tel ég þetta frv. vera allrar athygli vert, þó að í því þyrfti að koma inn á miklu fleiri leiðir en í frv. eru.

Ég vil svo að lokum aðeins leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar. Hann taldi, að fyrrv. valdhafar hefðu ráðið Breiðholtsframkvæmdum í Reykjavík. Hann ætti að vita það sem aðili að launþegasamtökum, að þessar framkvæmdir voru ákveðnar í samningum milli launþega og ríkisstj. Það má segja að þessar framkvæmdir hafi verið gerðar á ábyrgð beggja þessara aðila, og ég fæ ekki séð, að það hafi út af fyrir sig verið spor aftur á bak, heldur hefði þurft að stíga þetta skref víðar á landinu og efla þannig íbúðarhúsabyggingar í öllu landinu, eins og hér var gert á þessum tíma.