04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka þær einróma góðu undirtektir, sem frv. hefur mætt nú við 1. umr., og vil láta í ljós þá ósk, að framhaldið verði, að það fái greiðan gang í gegnum þingið og hljóti afgreiðslu nú fyrir þinglokin. Málið er það einfalt í sniðum, að ef ekki verður blandað inn í það óskyldum atriðum eða öðrum atriðum, þá á að vera hægt að skoða það rækilega og veita því fulla afgreiðslu.

Það var kastazt á orðum áðan um það, hvers vegna Breiðholtsframkvæmdirnar væru búnar að standa yfir svo lengi, og taldi einn ræðumaður, að það væri búið að standa of lengi, að fólk nyti þeirra sérréttinda. Verkalýðshreyfingin samdi um þessar framkvæmdir við Reykjavíkurborg og ríkisstj. þáv., og það er rétt, að það var samið um það, að þessar 1250 íbúðir skyldu byggðar á skemmri tímabili en orðið hefur. En ég held að það sé ekki við neinn að sakast, þó að það hafi tekið lengri tíma. Það urðu tæknilegir erfiðleikar í byrjun á þessari framkvæmd, en þegar á leið tímabilið, fór svo, að sú stóriðja, sem notuð var við þessar byggingarframkvæmdir, naut sín æ betur og betur, og nú er svo komið, að kerfið skilar einni íbúð á virkum degi. Það er á þriðja hundrað íbúðir, sem þetta kerfi getur skilað á ári núna. Og nú eru þetta óumdeilanlega góðar íbúðir. Ég held því, að þessi samningur hafi verið merkilegur á sinni tíð. Hann hefur valdið því, að ný vinnubrögð voru tekin upp við húsbyggingar hér á Reykjavíkursvæðinu og langt út yfir þessa framkvæmd eina, og þessi framkvæmd hefur orðið til þess að draga að verulegu leyti úr vaxandi byggingarkostnaði. Það er viðurkennt af hlutlausum byggingarmönnum, sérfræðingum á húsnæðismálasviðinu, og ég held, að það muni þess vegna allir fagna því, að þessi spor voru stigin. Það gleymist fljótt, að það hefur tekið nokkru lengri tíma, og er ekki aðalatriði málsins.

Hér var nefnt áðan af síðasta hv. ræðumanni að tekjur húsnæðismálakerfisins væru um 1200 millj. á ári, og það er rétt. Af þessu færu í Breiðholtsframkvæmdirnar um 400 millj., og það er líka rétt, rúmar 400 millj. Nú vita allir, að það býr meira en þriðji hluti landsmanna í Reykjavík, svo að þótt 400 millj. fari í þetta, þá er það lægri hlutfallstala en íbúatala Reykjavíkur miðað við landsbyggðina alla. Verkamannabústaðir hafa ekki verið byggðir hér nú s. l. 3 ár. Hins vegar er Reykjavíkurborg nú að undirbúa allmyndarlegt átak í byggingu verkamannabústaða frá og með næsta ári og ætlar sér þá að notfæra sér einmitt þá tækni, sem við höfum notað við Breiðholtsbyggingarframkvæmdirnar, og þá munu byggingar verkamannabústaða taka við hér í Reykjavík af Breiðholtsframkvæmdunum, þegar þeim lýkur eftir ár eða svo.

Ég held, að menn megi ekki gleyma því, að önnur sveitarfélög áttu líka kost á sömu kjörum og Breiðholtsframkvæmdirnar veita. Það er aðeins eitt, sem gerir það torveldara, og það er, að þessum tækninýjungum við byggingu verður ekki komið við í fámennum sveitarfélögum, og Reykjavík hafði bezta aðstöðu til þess að framkvæma þetta að því leyti. Hér var hægt að taka í notkun stórvirk vinnutæki og vélar, sem ekki varð komið við öðruvísi en í sambandi við staðlaðar byggingarframkvæmdir í stórum stíl. Það er aðeins á örfáum stöðum á landinu, sem hefði verið hægt að gera það með árangri.

Aðeins eitt atriði í viðhót. Það var minnzt á, að það væri kannske galli á þessu frv., að hér væri um leiguíbúðir að ræða, en ekki íbúðir til einkaeignar. Ég álít, að megintilgangurinn með frv. sé einmitt sá að komast út fyrir það, að eftirspurn einstaklinga á stöðunum ráði því, hvort fáar eða margar íbúðir eru teknar fyrir til byggingar. Það þarf annað frumkvæði að koma til, og þar er sveitarstjórnin sá eini aðili, sem getur metið þörfina, og telji sveitarstjórn, að hún þurfi að hafa 5 eða 10 íbúðir umfram það, sem menn hafa viljað ákveða sig til að gerast kaupendur að, þá er það eini aðilinn, sem getur ráðizt í að byggja slíkar íbúðir og hafa þær til taks til þess að fullnægja þessari þörf. Ef um einkaeignaríbúðir væri að ræða, væru hagkvæmustu kjörin fyrir einstaklingana á stöðunum að halla sér að byggingu verkamannabústaða. Það er alveg óumdeilanlegt. Töflurnar hérna, sem veðdeild Landsbankans hefur reiknað út, sýna það, að hagfelldustu kjörin, þegar upp er staðið, eru þau, sem verkamannabústaðaákvæðin veita.

Ég held, að menn verði að átta sig á því, að einmitt það að hafa þetta leiguíbúðir, sem sveitarstjórnirnar byggi, selji síðan einstaklingum án milliliðagróða, þá er frumkvæðið sett í hendur þessara aðila, sem geta látið íbúðirnar koma fyrst og fólkið á eftir. Slíkt verður ekki leyst með einkaeign íbúða. Síðan eiga einstaklingarnir, sem festast í sveitarfélaginu, þess kost að verða eigendur íbúðanna. Kjörin eru hins vegar algerlega sambærileg við það bezta, sem vitnað hefur verið til, þó að það jafnist ekki, þegar til lengdar lætur, á við kjörin um verkamannabústaði.