04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég verð að játa, að erfiðleikum væri það bundið að hafa mismunandi hagstæð lánakjör til húsnæðismála eftir því, hvar menn væru búsettir á landinu. Það yrði ekki gott að binda slíkt misrétti í lögum, það verð ég að játa. (Gripið fram í). Nei það hefur ekki verið það. Það hafa aðrir átt kost á því líka, en ekki notfært sér það.

Hins vegar finnst mér alveg fáránlegt að koma með tölur og töflur, eins og hér voru lesnar upp áðan, ef þær eiga að sýna nokkuð, þar sem sýnt er fram á, að það komi mismunandi krónutala á íbúa í ýmsum héruðum landsins, þegar byggt er á því að svara þeim umsóknum, sem berast um íbúðarhúsnæði, og þeim er fullnægt eftir því sem ég bezt veit, úr öllum byggðum landsins, nema helzt Reykjavík, þar er skortur á því, að húsnæðislánaþörfinni sé fullnægt og húsnæðisleysi, húsnæðisskortur meiri hér en annars staðar á landinu. Dettur nokkrum í hug, að það svaraði nokkrum tilgangi, að sama krónutala kæmi í húsnæðislánum á mann á Siglufirði á móts við t. d. vaxandi kaupstað eins og t. d. Kópavog eða kauptúnið í Garðahreppi. Þessar tölur eru einber vitleysa, og ég veit ekki, til hvers menn eru að slá þessu upp í töflur. Vitanlega verður að svara þeirri þörf fyrir byggingar, sem er á hverjum stað, og reyna að mæta þeim sjónarmiðum. En hér á engin jafnaðarkrónutala á haus við.