31.10.1972
Efri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

46. mál, námulög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði, að sér hefðu komið á óvart þær efasemdir, sem ég hefði látið í ljós um frv. það, sem hér er til umr., vegna þess að viðreisnarstjórnin hefði staðið að því. Ég er sammála hæstv. ráðh. um, að það er ekki óeðlilegt, þegar rætt er um eitthvað, sem hefur komið frá viðreisnarstjórninni, að fyrstu viðbrögð séu þau, að það hljóti að vera eitthvað gott. En ég verð að segja það, þótt ég hafi talið mig góðan viðreisnarmann, að ég get ekki fallizt á það með hæstv. iðnrh., að ekki megi betrumbæta það í einstaka tilfellum. Og það er einmitt það, sem ég tel að þurfi að gera.

Hæstv. ráðh, taldi, að það, að frv. hefði verið stjórnarfrv., tilbúið í tíð viðreisnarstjórnarinnar, og það hefði átt að þýða það, að allir þm., sem studdu viðreisnarstjórnina, eins og t.d. ég, ættu að vera fylgjandi frv. umsvifalaust í öllum atriðum. En hér held ég, að komi fram hjá hæstv. ráðh. grundvallarmisskilningur á eðli Alþingis, þeirrar stofnunar, sem við störfum í. Alþingi á ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir eina eða neina ríkisstj. Þm. ber skylda til að athuga málin gaumgæfilega, hvaðan sem þau koma, og það er ekki annað en gaumgæfileg athugun, sem ég hef farið fram á.

Hæstv. ráðh. hafði áhyggjur af töf málsins. Ég get ekki fundið hjá mér neina sök á því, að málið hefur ekki verið afgreitt. Ég átti ekki sök á því, að málið kom ekki til iðnn. Ed. fyrr en á síðustu dögum siðasta þings. Og þegar málið kom þar fyrir á þeim eina fundi, sem málið var tekið þar fyrir, lá ljóst fyrir, að málið yrði ekki afgreitt á því þingi.

Hæstv. ráðherra hefur viðurkennt það þegar, að það geti verið ýmislegt, sem þarf að breyta í frv. Ég vil því ekki láta mér til hugar koma, að hæstv. ráðh. haldi að málinu sé stefnt í voða, þótt nú fari fram athugun á þann veg, sem ég nefndi. Ég get ekki skilið, að það skipti neinu verulegu máli, hvort þetta frv. er afgreitt tveim eða þrem mánuðum fyrr eða síðar. Ég vek líka athygli á því, að enda þótt hæstv. ráðh. hafi ekki beinlínis tekið undir óskir minar um það, að málið fái ítarlega athugun hjá samtökum bændastéttarinnar á þann veg, sem ég greindi, þá mótmælti hæstv. ráðh, ekki þeirri hugmynd. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að það geti orðið af þeirri framkvæmd, eins og ég hef lagt til.