31.10.1972
Neðri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 14. sept. s.l., um heimild fyrir ríkisstj. til að taka leigunámi tvö hvalveiðiskip h/f Hvals.

Þegar sýnt var á s.l. sumri, að ekki mundi fást viðurkenning fyrir hinni stækkuðu fiskveiðilandhelgi og koma mundi til árekstra við einstakar þjóðir í því sambandi, þótti augljóst, að skipakostur sá, sem Landhelgisgæzlan hafði þá yfir að ráða, mundi ekki nægja til vörzlu þessa svæðis, þar sem hún hafði þá aðeins tvö af stærri skipum sínum, því að það þriðja var í viðgerð. Að vísu má ekki gleyma minni skipunum, þó að menn hafi ekki getið þeirra sem vert væri, því að vitaskuld sinna þau sínum verkefnum og vinna mikið starf, og er sízt af öllu ástæða til að vanmeta það eða gleyma því, þó að þau séu ekki fær til að sinna gæzlustörfum á hinu stækkaða svæði.

Þegar svona var komið, var farið að svipast um eftir leiguskipum, og kom fljótt fram það álit forráðamanna Landhelgisgæzlunnar, að heppilegustu veiðiskipin, sem hér væri völ á innanlands, væru skip Hvals h/f. Forstjóri Landhelgisgæzlunnar átti nokkrum sinnum viðtal við forstjóra þess útgerðarfélags, en þeim tókst ekki að komast að samkomulagi. Síðan kvaddi ég forstjórann á minn fund og átti viðtal við hann að viðstöddum forstjóra Landhelgisgæzlunnar og ráðuneytisstjóra í dómsmrn. Á þeim fundi varð ljóst, að það mundi ekki nást samkomulag um frjálsan leigusamning á skipunum, þar sem forstjórinn kaus heldur að leitað væri leigunámsheimildar í lögum. Það var síðan gert og þessi brbl. gefin út, og þó að þar sé samþykkt heimild til þess að taka tvö skip leigunámi, þá var horfið að því að taka eitt skip, eins og mönnum er kunnugt, stærsta skipið, Hval 9. Eftir að ákvörðun hafði verið tekin um þetta, tókst samkomulag um afhendingu skipsins og um þær breytingar, sem gerðar voru á því, svo og gjald og leigutíma, þannig að það hefur í rauninni ekki komið til ágreinings við útgerðina, eftir að þessi formlega ákvörðun lá fyrir.

Eins og menn vita, er þetta skip þegar komið til gæzlustarfa. Það var deilt um það nokkuð, áður en skipið lét í haf, hversu heppilegt það væri til gæzlustarfanna. Ég skal ekkert fara út í það.

Ég held, að í því sambandi hafi ógætileg orð verið látin falla, sem betur hefðu verið látin ósögð. En ég veit, að eftir að skipið er komið til þessara starfa, fylgja því góðar óskir allra. Og það má segja, að á þeim stutta tíma, sem liðinn er, hefur fengizt góð reynsla af þessu skipi og skipstjórinn, sem með það er, er ánægður. Að vísu er þetta stutt reynsla, og lengri reynsla verður auðvitað að skera úr, hversu heppilegt skipið er.

Eins og ég hef, held ég, sagt einhvern tíma áður, þarf auðvitað ekki að gera ráð fyrir því, að skip, sem smíðað er til að gegna öðru hlutverki en gæzlustörfum, geti að öllu leyti hentað. Það verða alltaf einhverjir vankantar á því. Þess vegna er þetta út af fyrir sig ekki nein frambúðarlausn í þessu efni, og þess vegna hefur líka verið lögð fram þáltill., sem væntanlega verður tekin hér fyrir innan skamms, þar sem stjórnin mun leita eftir beimild til þess að láta hefja undirbúning að smíði eða kaupum á gæzluskipi af stærstu og fullkomnustu gerð.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að gera hér grein fyrir leigusamningnum eða ákvæðum þeim, sem í honum eru, en að sjálfsögðu getur sú n., sem fær málið til meðferðar, fengið hann til skoðunar, ef hún kýs það. Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fara um þetta fleiri orðum, en leyfi mér að óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.