31.10.1972
Neðri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki hefja neinar deilur um þetta mál, en þær urðu nokkrar, þegar brbl. um leigunám hvalveiðiskipanna voru gefin út. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er fyrst og fremst sú, að það er alltaf alvarlegt og viðamikið mál, þegar löggjöf er sett um leigunám eða eignarnám, þ.e.a.s. þegar stjórnvöld landsins þurfa að beita löggjafarvaldinu til þess að taka eignir af mönnum eða leigja eignir af mönnum, enda þótt fullt verð komi fyrir, eins og segir til um í lögum okkar um framkvæmd eignarnáms. Og það má segja, að það sé þeim mun viðurhlutameira, þegar ríkisstj. telur sig knúna til þess að gefa út brbl. um jafnviðkvæmt mál og hér er um að ræða.

Spurningin er um það, hvort í raun og veru hafi verið þörf á því að gefa út þessi brbl., og ég hef nokkra ástæðu til þess að ætla, að það væri fyrst og fremst meðan á vertíð skipanna stæði, sem eigandinn vildi ekki leigja þau. Viðræður munu hafa farið fram við hann með þeim hætti, sem hæstv. forsrh. lýsti, að samkomulag tókst ekki, ég hygg, að það hafi verið 4. sept. Lögin eru svo sett 14. sept. Þá er mjög liðið á vertíðina, kannske tvær vikur eftir til vertíðarloka, enda kom þá ekki til, að útgerð skipsins á hvalveiðivertíðinni yrði trufluð.

Þetta, sem ég nú hef sagt, er aðeins til þess að vekja athygli á því, hversu viðurhlutamikið það er á hverjum tíma að mínum dómi að þurfa að beita heimíldum til eignarnáms og leigunáms. Nú kemur það í ljós samkv. upplýsingum hæstv. forsrh., að þessum brbl. hefur ekki verið beitt eða heimild þeirra ekki notuð, heldur hefur verið gert frjálst samkomulag við eiganda skipsins. Þetta tel ég, að hafi farið vel og það rennir að vísu stoðum undir það, að e.t.v. hafi ekki verið þörf á neinni lagasetningu um þetta, en ég hafði einmitt hugsað mér að spyrjast fyrir um, með hverjum hætti leigan hefði fram farið, og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, að það hafi verið gert með frjálsu samkomulagi. Það er alveg eðlilegt, finnst mér, að hann telji ekki ástæðu til þess að reifa þessa samningsgerð hér, en það megi gera í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, grein fyrir henni. Það tel ég eðlilegan gang.

Ég vil sem sagt láta í ljós þá skoðun mína, að ég tel, að það hafi farið vel, að frjálst samkomulag hafi orðið um þetta mál. þannig að ekki hafi þurft að beita heimild brbl.