05.04.1973
Neðri deild: 77. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti: Ég hafði kvatt mér hljóðs undir umr. um þetta mál s.l. fimmtudag vegna nokkurra ummæla, sem féllu af munni hæstv. félmrh., sem er því miður ekki staddur hér í dag. Hæstv. ráðherra sagði, að ég hefði flutt ádeilu á hæstv. ríkisstj., sem væri röng og ætti ekki stoð í veruleika. Tilefni þessara orða ráðherrans mun hafa verið það, að inn í þessar umr. var dregin af hæstv. forsrh. ein málsgrein úr málefnasamningi ríkisstj. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Endurskoða ber skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaganna. Haft verði samráð við Samband íslenzkra sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun. Stefnt verði að því, að ríkisstofnunum verði valinn staður úti um land meir en nú er gert“.

Í ræðu minni um þetta mál hafði ég gert þær athugasemdir við störf hæstv. ríkisstj. á þessu sviði, að þau hefðu í ýmsum greinum gengið í þveröfuga átt við það, sem þarna er boðað. Og ég lýsti ánægju minni yfir þeim áréttingum, sem hæstv. forsrh. gerði í sínu máli á þessari grein málefnasamningsins og einnig þar sem hann lagði áherzlu á sem sína skoðun að fela þyrfti sveitarfélögunum aukin verkefni og þar með aukin fjárráð í framtíðinni. Ég taldi, að m.a. hefði verið breytt þvert gegn þessari skoðun við þær breytingar, sem gerðar voru á skattalögum og tekjustofnalögum á síðasta Alþ. Þar átti ég við, að nokkrir þættir, sem áður voru undir umsjá sveitarfélaganna, voru nú felldir undir verksvið ríkisvaldsins, t.d. löggæzla og hluti útgjalda til almannatrygginga. Þar með hefði einnig verið dregið úr þeim tekjustofnum, sem sveitarfélögin hefðu haft til þess að sinna þessum verkefnum. Hæstv. félmrh. kvað mig fara með rangt mál um þetta efni og sagði um það, að þetta hefði verið gert í samráði við sveitarfélögin og með þessu hefði sveitarfélögunum verið gerður sérstakur búhnykkur, eins og hann orðaði það, og allt hefði þetta verið að óskum sveitarfélaganna og væri þeim til hagsbóta. Hæstv. ráðherra flutti hér langan talnalista um það, hvað tekjur sveitarfélaganna hefðu hækkað milli áranna 1971 og 1972. Þessar tölur skal ég alls ekki rengja. Á það vil ég þó benda, að verðlag á milli þessara 2 ára hefur hækkað mjög mikið. Í annan stað taldist mér til eftir upplýsingum ráðherra, að tekjuaukning sveitarfélaganna á milli þessara tveggja ára hefði numið samtals um 436 millj. kr., þ.e.a.s. að hækkun á milli ára hefði verið um 13%. Á sama tíma er rétt að vekja athygli á því, að tekjur ríkisins, þ.e. fjármagnið, sem ríkið innheimtir af borgurunum, hækkar um það bil um 5 þús. millj. eða um 44—45%. Þetta sannar, svo að ekki verður um villzt, að hlutdeild ríkisins í tekjuöflun hins opinbera hefur stórlega vaxið. Og það er vitaskuld m.a. afleiðing af því, að verkefni sveitarfélaganna eru skert, en þau að sama skapi aukin hjá ríkisvaldinu. Þetta ætti að vera ljóst, og ég hefði óskað þess, að hæstv. félmrh. hefði verið hér til þess að ræða þessi mál frekar, ef hann hefði talið ástæðu til.

Ég skal ekki mæla á móti því, að sveitarfélögin hafi tekið því vel, að þessum þáttum úr verkefnum þeirra væri af þeim létt. En það hefur ævinlega verið um það rætt af forustumönnum sveitarfélaganna, að jafnframt því sem einstakir þættir hyrfu úr meðferð þeirra til ríkisins, þá væru þeim fengin ný verkefni, önnur verkefni til meðferðar, og tekjustofnar í samræmi við það. Það var þetta, sem ekki var gert við þessar breytingar á tekjustofna- og skattalögum, og það var þetta, sem ég átaldi hæstv. ríkisstj. fyrir, að hún hafði látið undir höfuð leggjast. Það hefur svo aftur fylgt þessu, að valdið skerðist hjá sveitarstjórnunum og hjá forustumönnum þeirra úti um land að sama skapi. Ég legg á það áherzlu, að það er þýðingarmesta atriðið í sambandi við tal manna um það að dreifa valdinu að fela sveitarfélögunum aukin verkefni til meðferðar og aukna tekjustofna og þar með aukna hlutdeild í fjáröflun hins opinbera, til þess að forsjá ákveðinna málaflokka sé í ríkari mæli til meðferðar hjá sveitarstjórnunum og í höndum fólksins sjálfs úti á landsbyggðinni. Þetta er áhrifaríkasta aðferðin til þess að dreifa valdinu í þjóðfélaginu og jafnframt sú einfaldasta, og ég fagna því, að hæstv. forsrh. skyldi telja ástæðu til þess, sem vissulega var ekki vanþörf á, að láta þessa skoðun einnig koma fram í sínu máli.

Ég skal ekki tefja þessa umr. með miklu lengra máli um þessi atriði. Það eru vitaskuld fjölmargir þættir, sem unnt er að ræða í löngu máli í sambandi við sveitarstjórnarlög, í sambandi við skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga og skiptingu tekjustofna. Ég skal aðeins í framhaldi af því, sem rætt var um hér í síðustu viku, að ekki væri samstaða um það, að Fjórðungssamband Norðlendinga starfaði á sama grundvelli hér eftir sem hingað til eða hvort kljúfa skyldi sambandið í tvö landshlutasamtök, þá hef ég kynnt mér það nokkuð, bæði meðal þm. og forustumanna sveitarfélaga úr Norðlendingafjórðungi, og ég hygg, að það sé mjög auðvelt að fá samstöðu um, að það verði opnuð heimild í þessu frv. fyrir því, að sveitarstjórnarmenn geti breytt þarna til, ef þeir vilja sjálfir. Sú brtt. kæmi væntanlega fram undir meðferð málsins í n. og ekki ástæða til þess að flytja hana hér við 1. umr. En ég hygg, að um þetta atriði megi takast alger samstaða hér á hv. Alþ., — samstaða, sem fulltrúar sveitarstjórnanna á Norðurlandi öllu geti sætt sig við. Þar með væri rutt úr vegi þeim þröskuldi, sem þetta atriði kynni að vera fyrir því, að málið fengi framgang á þessu þingi.

Það er ekkert launungarmál, sem og kom fram í máli mínu hér í síðustu viku, að ég tel það verulegu máli skipta, að frv. verði að lögum á yfirstandandi Alþ., og það kemur æ betur í ljós, hvern þunga sveitarstjórnarmenn víðs vegar af landinu vilja leggja á það, að afgreiðslu málsins ljúki á þessu þingi. Ég vil því vonast til þess, að þær úrtölur og sú mikla tregða, sem vart varð við hjá tveimur hæstv. ráðherrum við fyrri hluta þessarar umr., verði ekki til þess að svæfa þetta mál nú og drepa því á þá dreif, sem þeir gerðu ráð fyrir, þ.e. að afgreiða ekki þetta frv., fyrr en tekin hefðu verið til athugunar og endurskoðunar sveitarstjórnarlögin og skipting landsins í sveitarstjórnarumdæmi í heild og jafnframt skipting verkefna og tekjustofna á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er ærið verkefni, sem tími verður að gefast til að sinna á næsta Alþ. Þetta frv. er, eins og áður hefur verið sagt, aðeins staðfesting á því ástandi, sem þegar er orðið í myndun þessara umdæma, landshlutasamtakanna, það er mín skoðun, að það sé nauðsynlegt að veita þessari nýju umdæmaskipan stoð í lögum og þar með grundvöll að standa á.