05.04.1973
Neðri deild: 77. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst vegna þess, að tveir síðustu hv. ræðumenn voru með nokkrar ádeilur á félmrh., en hann var þá ekki við, og ég ætlaði að fara fram á það, að umr. væri frestað, þangað til honum gæti gefizt tóm til þess að vera við. Nú er hann að vísu kominn, og þá getur hann sagt til um það, hvort hann óskar að athuga frekar það, sem þeir komu fram með, eða ekki. En mér hefði þótt óeðlilegt, að málið væri afgreitt, þó að til n. væri aðeins, án þess að hann fengi möguleika á því að bera hönd fyrir höfuð sér.

Ég skal ekki orðlengja um þetta. En það verð ég að segja, að sízt af öllu hafa ræður tveggja síðustu hv. ræðumanna sannfært mig um nauðsyn þess að flaustra þessu máli af. Þeir hefðu áreiðanlega getað sagt það, sem þeir vildu segja, í miklu færri orðum en þeir gerðu. Og ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þeim málflutningi, sem hv. 11. landsk. þm. virðist iðka í þessu máli. Hann talar um úrtölur og því um líkt og tregðu hjá okkur ráðh. Það er ákaflega einkennilegt að gera slíkt, þó að menn telji ástæðu til þess eða jafnvel skyldu sína að gera aths. við þingmál, sem eru til umr., og benda á agnúa, sem þeir telja á þeim vera. Stjórnarsinnar mættu áreiðanlega fara að tala oft um tregðu og úrtölur hjá hv. stjórnarandstæðingum. Ég skil ekki, hvað svona málflutningur á að þýða. Ég tel það skyldu mína að benda á þau atriði í lagafrv., sem mér sýnast miður fara, og ég vil ekki láta kenna það við neinar úrtölur, enda er það ástæðulaust. Og hv. þm. hefði verið betra í sinni fyrstu ræðu að taka minna upp í sig. Honum hefði verið betra þá að tala minna um, að það væru einhverjir aðilar utan Norðurlands, einhverjir utanaðkomandi aðilar, sem hefðu unnið að því að kljúfa Fjórðungssambandið. Hann varð að koma hér upp áðan og viðurkenna, að hann gæti ekki nefnt eitt einasta nafn, algerar getsakir, sem þm. leyfði sér að fara með. Hann er þó ekki í Norðlendingafjórðungi og ætti ekki að vera kunnugri því, sem gerist þar, heldur en þeir, sem fara með umboð fyrir Norðlendinga.

Ég get frætt hann um það, að það hafa á undanförnum árum einmitt oft verið umr. um það heima í héraði og meðal þm., hvort ekki væri heppilegra að hafa í fjórðungssamböndin tvö. Það er að vísu svo, að Fjórðungsamband Norðlendinga er að formi til nokkuð gamalt. En eins og réttilega kom fram í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar, var það sett á alveg nýjan grundvöll og nýtt form í raun og veru og fékk ný verkefni í sambandi við þær atvinnmálanefndir, sem settar voru á fót á sínum tíma. Og þá var það einmitt svo, að ein atvinnumálanefnd var sett fyrir Norðurland. Hv. þm. Lárus Jónsson sagði um daginn, að það hefði engin aths. komið fram um þetta hjá einum eða neinum. En ég ætla að leyfa mér að fullyrða það, að ég gerði þegar aths. við það á Alþ., að atvinnumálanefndin skyldi vera ein fyrir Norðurland, en ekki tvær, — ein fyrir hvert kjördæmi. Þetta má lesa í Alþingistíðindum, og þýðir ekki fyrir menn að koma hingað upp og segja allt annað, og það, sem stangast á við raunveruleikann.

Það er ákaflega einkennilegur hugsanagrautur, sem kemur fram hjá hv. 11. landsk. þm., þegar hann fer að bollaleggja um þetta. Ef þessu ætti að vísa til heimamanna, þá er líklega spurning um það, hverjir ættu að leysa úr því, hvort það ætti að vera heildin öll, Norðurl. e. og Norðurl. v. saman, eða Fjórðungssambandið í heild, sem ætti að ákveða um það, eða þá menn í Norðurl. v., sem ættu þá að segja til um, hvort þeir vildu vera sérstakt samband eða ekki. Ég held, að þetta geti varla vafizt fyrir nokkrum, ef hann athugar það, að það eiga náttúrlega að vera íbúar í Norðurl. v., sem eiga að segja til um, hvort þeir vilja vera sérstakt samband eða ekki, en ekki hin stóra heild. En það er ákaflega gott að heyra það, að það megi svo sem gera það fyrir þessa menn, sem eru með þessa tregðu, að taka inn í lögin, að það skuli vera heimild fyrir þetta Fjórðungssamband að skipta sér í tvennt. En það er ekki þannig í frv. Í frv. á að binda það, að Fjórðungssambandið skuli vera eitt. En hvernig væri þá að opna þetta meira? Hvað er landshluti? Við höfum okkar gömlu fjórðunga. Þeir eru í raun og veru þeir reglulegu landshlutar. Hvernig væri að taka upp heimild um það, að Reykjanes og Suðurland mættu sameinast í eitt eða Reykjanes og Reykjavík mættu sameinast í eitt samband? Því ekki þá að hafa þetta þannig, að það megi sameina líka, ef það á að taka fram um heimild til að skilja í sundur?

Ég verð að segja það, að mér fannst ákaflega litilsiglt hjá hv. þm. að vera að snúa út úr því, sem ég sagði, og hafa það rangt eftir. Ég sagðist ekki telja eðlilegt að selja þeim sjálfdæmi um lagasetningu, sem lögin lúta að. Þessu þurfti hv. þm. endilega að snúa á þann veg, að ég hefði sagt, að það væri ekki eðlilegt að selja þeim sjálfdæmi, sem laganna eiga að njóta. Það er ákaflega einkennilegt að geta ekki farið rétt með það, sem eftir er haft.

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. 5. þm. Norðurl. v. Hann beindi máli sínu að félmrh. En ég vil þó segja það eitt, að það var einkennilegt í hans ræðu, að það var í öðru orðinu eins og hann væri að segja, að það hefði ekki verið gert eftir ósk sveitarfélaga, að löggæzlumálin og hluti trygginganna væru af þeim tekin, en þó sagði hann í hinu, að hann sæi, að þessu hefði verið vel tekið af sveitarfélögunum, vel þegið. Sannleikurinn um þetta, sem þarf ekki að vera að hafa mörg orð um, og staðreyndin er sú, að þetta var gert, a.m.k. að því er löggæzluna varðar, samkv. margendurteknum samþykktum Sambands ísl. sveitarfélaga og fleiri aðila, þannig að um það þarf auðvitað ekkert að deila, hvort sem það hefur verið skynsamleg ráðstöfun eða ekki. Það er annað mál.

Ég skal svo ekki blanda mér í umr. um þetta, en vil þó enn undirstrika það, að þetta frv. er illa og flausturslega samið. Það tek ég ekki aftur. Framsetning þess er svo óákveðin og grautarkennd, að það er ekki til fyrirmyndar. Ég vil ekki vera að þreyta hv. þm. á því að vera að telja það upp. En auðvitað er augljóst mál t.d. varðandi það, sem segir í 112. gr. um hlutverk landshlutasamtakanna, í a-liðnum, „að vinna að sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga og héraða í umdæmi sínu og landshlutans alls,“ að þarna þarf að koma einhver skilgreining á milli landshlutasamtakanna og sveitarfélaga. Annars leiðir það til þess, sem átt hefur sér stað, að þessir aðilar eru að fást við sama málið. Sveitarfélög hafa þó ákveðin verkefni, og það verður að vera að mínum dómi nokkuð skýrt, af hvaða málefnum landshlutasamtökin mega og eiga að skipta sér, þannig að þau viti, hvar þau standi í því efni, hver aðilinn á að hafa með þessi málefni að gera, en að þessu sé ekki öllu ruglað saman og þau séu að fást við sömu málefnin.

Ég bendi líka á það, að það er a.m.k. ákaflega óvenjulegt, að löggjafinn framselji vald sitt til skattlagningar þannig, að hann setji engin takmörk. (ÓE: Hann hefur gert það við sýslunefndirnar.) En þannig er þetta í 115. gr. Ég er alls ekkert að gefa í skyn, að landshlutasamtökin muni fara illa með það vald, en þeim er þó fengið þarna alveg ótakmarkað vald, þ.e.a.s. aðalfundi þeirra, til þess að leggja þau gjöld á sveitarfélögin, sem þau telja sig þurfa. Og ég sé ekki, að það saki, þó að það sé athugað svolítið nánar af Alþ., áður en það samþykkir slíkt .

Í 111. gr. segir: „Sérhvert sveitarfélag á aðild að samtökum sveitarfélaga í sínum landshluta“. Vantar þá ekki skilgreiningu á því, hvað landshluti er. Það má sjálfsagt segja, að það sé gert ráð fyrir því, að það eigi að gilda sú upptalning, sem er í 110. gr., en ekki mundi saka að taka þetta svolítið skýrar fram.

Ég held sem sagt, að það standi alveg, það sem ég sagði síðast, að þörf sé á því að líta á þetta í heild og marka samtökum sveitarfélaga ákveðna stöðu og ákveðin verkefni í stjórnkerfinu, en ekki með eins óákveðnu orðalagi og gert er í 112. gr. Og ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að þó að frv. yrði samþykkt núna, þá yrði komið innan skamms og farið að endurskoða það og reynt þá að setja skýrari ákvæði, því að auðvitað hanga sveitarfélagasamtökin að meira eða minna leyti í lausu lofti eftir sem áður, ef það er ekki kveðið nánar á um verkefni þeirra en þetta. (Gripið fram í.) Já, en þó eru lög um stjórnskipun ákveðinna stofnana dálítið annars eðlis heldur en skattalög.

Ég skal ekki endurtaka það, sem hv. þm. Pétur Pétursson gat um hér síðast og las upp. Samþykkt bæjarstjórnar Sauðárkróks liggur hér fyrir undirskrifuð af mönnum úr öllum flokkum, þannig að það er ekkert að véfengja það, að hún óskar breytinga, og það þýðir ekki að vera að segja, að einhver og einhver hafi kannað afstöðu sveitarstjórna á Norðurlandi til þessa. Það eina, sem ég hef í höndum um þetta, er þessi samþykkt. En ég veit, að það er ágreiningur hjá mörgum um þetta, og það, sem ég hef sagt um þetta, er það eitt, að heimamenn eiga auðvitað að ráða þessu, og þá svara ég tvímælalaust spurningu hv. 1l.landsk. auðvitað heimamenn í Norðurl. v., en ekki að þeir þurfi að lúta því, sem margfalt fleiri íbúar í Norðurl. e. ákvæðu.